Evrópskt efnahagssvæði

96. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 21:12:48 (4441)

     Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Þingflokkur framsóknarmanna fór eindregið fram á það að ég talaði hér einn fyrir hönd flokksins. Ég taldi sjálfsagt að verða við þeirri ósk, enda hef ég átt langstærstan hlut í því að móta afstöðu flokksins til þessa máls, bæði í upphafi þegar við ákváðum að taka þátt í þessum viðræðum og þeim samþykktum sem gerðar hafa verið, bæði á miðstjórnarfundum og flokksþingi. Ég taldi einnig rétt að verða við þessu af þeirri ástæðu að flokkurinn hefur nokkuð verið gagnrýndur fyrir það að þingmenn flokksins hafa sumir setið hjá og aðrir greitt atkvæði á móti við 2. umr. Einkum hafa fjölmiðlar blásið það mjög upp og talið það bera vott um klofning í Framsfl. sem er alrangt og ég mun einnig færa rök að.
    Ég ætla ekki að nota tíma minn hér til að flytja ræðu eins og hæstv. utanrrh. Jón Baldvin gerði áðan og ég læt fúkyrði hans sem vind um eyru þjóta. Ég verð þó að leiðrétta það að EFTA-ríkin hafa ekki öll samþykkt þennan samning, Sviss felldi hann, og ef ég veit rétt þá hafa aðeins þrjú eða fjögur ríki Evrópubandalagsins samþykkt hann á þessari stundu.     Ég lít svo á að til þessarar umræðu sé stofnað til þess að við getum gert ykkur, sem sitjið heima, grein fyrir okkar stefnu í þessum málum en við eigum ekki að standa hér og karpa hver við annan.
    Mér er að vísu nokkur vandi á höndum því að umferðirnar verða þrjár og ef ég tala í þeim öllum get ég ekki aftur tekið til máls við 3. umr. þessa máls því þingsköp leyfa frsm. aðeins að tala þrisvar. Ég hef því ákveðið að skipta tíma Framsfl. nokkurn veginn í tvennt og tala í fyrstu og þriðju umferð og

get því einnig síðar tekið þátt í henni og þá getur vel verið að ég beini einhverjum orðum til t.d. hæstv. utanrrh.
    Ég var að hugsa um að reyna að svara nokkrum þeim spurningum sem ég hef iðulega verið spurður að. M.a. spurði ungur maður mig að því í gær hvort við framsóknarmenn værum mótfallnir samstarfinu í Evrópu, þ.e. hinu Evrópska efnahagssvæði. Ég svaraði honum að sjálfsögðu að það væri alrangt. Við erum alls ekki mótfallnir því og satt að segja teljum við framsóknarmenn afar nauðsynlegt að Evrópuþjóðirnar styrki sitt samstarf og leysi þannig sín ágreiningsmál en ekki með heimsstyrjöldum. Við teljum hins vegar að slíkt samstarf geti gengið of langt og við teljum að slíkt samstarf megi aldrei leiða til þess að þar myndist herraþjóð og svo þjónar.
    Ég hef einnig verið að því spurður og reyndar af þessum sama unga manni hvernig þá stæði á því að við framsóknarmenn styddum ekki þátttöku Íslendinga í hinu Evrópska efnahagssvæði. Staðreyndin er sú að við styðjum þátttöku Íslendinga í samstarfi Evrópuþjóðanna og reyndar í samstarfi þjóða um allan heim. En við höfum gert okkur grein fyrir því að slíkt samstarf er aldrei á jafnréttisgrundvelli gert nema smáþjóðin fái samþykkta fjölmarga fyrirvara. Hæstv. utanrrh. hefur hvað eftir annað sagt að þetta væri mjög góður samningur því að í honum ríkti fullkomið jafnræði á milli þjóða. Haldið þið virkilega, góðir áheyrendur, að jafnræði sé á milli þjóða þar sem annar aðilinn er aðeins 260 þús. manns en hinn 300 millj. og þessar 300 millj. eiga að fá sama rétt til afnota af okkar landi eins og við höfum? Kannski skýri ég þetta einna best, a.m.k. fyrir hv. sjálfstæðismönnum, með því að lesa örlítið úr ræðu sem Bjarni Benediktsson, fyrrv. forsrh. og formaður Sjálfstfl., flutti á Þingvöllum 1943 þegar menn voru að heimta sjálfstæði þessarar þjóðar. Þá sagði sá merki maður:
    ,,Íslendingar eiga að vísu sjálfir land sitt, en þeir eru skyldir til að þola þrjátíu sinnum mannfleiri þjóð, Dönum, öll hin sömu not af landinu og þeir sjálfir hafa. Ætla mætti, að ekki þyrfti að hvetja neinn Íslending til að una slíku frelsi eigi lengur en hann er skyldur til samkvæmt ströngustu lögum.``
    Ég tek undir þessi orð og get gert þau að mínum. Og menn verða að gera sér grein fyrir þessu að þó að standi á pappírnum að jafnrétti sé, þá er það ekki nema á pappírnum.
    Ég hef stundum skýrt það með dæmi. Samkvæmt þessum samningi, þegar ríkisstjórninni hefur tekist að gera bankana okkar að einkabönkum og selur hlutabréfin, þá er fyrirtækjum og einstaklingum í Evrópu jafnfrjálst að kaupa banka hér og okkur að kaupa banka þar. Þetta er jafnræðið. En ég hef stundum spurt: Hvort halda menn að líklegra sé að Landsbanki Íslands kaupi t.d. Deutsche Bank í Þýskalandi eða Deutsche Bank Landsbanka Íslands? Ég held að ég þurfi satt að segja ekki að svara þeirri spurningu. Þýski bankinn gæti gert þetta án þess að depla auga. Og það er þess vegna að þegar við framsóknarmenn samþykktum að ganga til þessa verks, þá fór ég til Óslóar í mars 1989 með mjög ákveðin skilyrði og það er rangt hjá hæstv. utanrrh. að þeim hafi öllum verið fullnægt. Þar setti ég með fullri samþykkt allra í ríkisstjórninni skilyrði sem í fáum orðum voru þessi: Ég sagði: Við Íslendingar verðum ætíð að ráða okkar náttúruauðlindum og það er vitanlega bæði til lands og sjávar. Það er sjávarútvegurinn, það eru orkulindirnar og það er landið okkar sjálft. Og við verðum að hafa möguleika til þess að takmarka fjárflutninga til landsins. Við verðum að hafa möguleika til þess að takmarka flutning fólks til landsins. Og ég sagði, eins og kom fram reyndar áðan hjá einum ræðumanni, að við gætum ekki samþykt yfirþjóðlegar stofnanir því að það brýtur að sjálfsögðu í bág við stjórnarskrána.
    Nú er fullyrt að þetta hafi allt náðst í samningunum. Það er rangt. Eitt atriði hefur náðst og það er að erlendum aðilum er ekki heimilt að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. Þó brá mér þegar ég sá að það er tekið fram í þessari yfirlýsingu að þó skuli það ekki hindra að erlend fyrirtæki geti eignast hlut eða fyrirtæki í heild sinni, að sjálfsögðu á Íslandi, sem kunni aftur að eiga íslenskum sjávarútvegi. Þetta er breyting á þeim lögum sem við settum sameiginlega í fyrri ríkisstjórn í lok hennar starfstíma. Þarna er verið að opna dyrnar og hvert getur það leitt?
    Hæstv. utanrrh. segir: Þetta er tryggt með orkulindirnar. En hefur ekki hæstv. ríkisstjórn boðað það í sinni hvítu bók að hún ætlar að einkavæða orkufyrirtækin og hún ætlar síðan að sjálfsögðu að selja þau. A.m.k. getur hún ekki bannað Reykjavíkurborg eða Akureyrarbæ að selja sinn hlut í Landsvirkjun. Og samkvæmt jafnréttisgrundvelli samningsins er erlendum aðilum eins frjálst og okkur að kaupa orkufyrirtækin í okkar eigin landi.
    Ég hef ekki enn þá séð frv. sem á að tryggja yfirráðarétt okkar yfir jarðhitanum. Ég hef ekki séð það. Það mun hafa verið lagt fram á sumarmánuðum og dregið til baka. Og hæstv. utanrrh. segir: Þetta er allt í lagi með landakaupin af því að hæstv. landbrh., sem var bent á að er í Egyptalandi, hefur lagt hér fram frv. sem er ekkert annað en ófreskja. Ég minni á að í októbermánuði 1990 lagði aðalsamningamaður ríkisstjórnarinnar eða utanrrh. fram greinargerð um þetta mál og sagði þar að eins og íslensk jarðalög eru, þá á að vera mjög auðvelt að tryggja í raun forgang Íslendinga að landi. Það var hvergi getið um að það þyrfti á sama tíma að verðfella allar íslenskar jarðir. Það er því alrangt að þessum skilyrðum hafi verið náð og þess hafi verið gætt sem ég sagði áðan að við Íslendingar hefðum einhvern forgang og raunar vil ég segja algeran forgang í okkar eigin landi að nýta þær náttúruauðlindir sem við eigum.
    Ég hef einnig oft verið spurður að því: Hvað hefur þá breyst frá því að þið voruð í ríkisstjórn? Meira að segja hæstv. forsrh. hefur haldið því fram að ekkert hafi breyst. Það er líka rangt. Það hefur afar mikið breyst. Ég þarf út af fyrir sig ekki að nefna það, sem allir vita, að EFTA er í raun hrunið og sá boðskapur sem okkur var sagður þegar við gengum til þessa leiks, að þetta ætti að vera samstarf tveggja jafnrétthárra stoða er ekki lengur til. EFTA-ríkin hafa öll nema við ákveðið að sækja um aðild að EB og ég vil lýsa því yfir hér að ég hefði aldrei tekið í mál að ganga til þessa verks ef ég hefði vitað og við framsóknarmenn að þetta samkomulag ætti aðeins að standa í 2--3 ár.
    En það er líka fleira sem hefur breyst. Ég hef ekki tíma til að rekja þau fjölmörgu atriði í þessum samningum sem koma mér a.m.k., sem þekkti þennan samning mjög vel, afar mikið á óvart. Ég hef nefnt í langri framsöguræðu minni, sem forsrh. bar sig dálítið undan út af í Morgunblaðinu daginn eftir, ýmis dæmi, t.d. þau að við erum skyldaðir til að nota ákveðna hjólbarða eða nota ákveðin ljós á bílana okkar. Þetta eru vitanlega smáatriði. En þetta eru dæmi um það bákn sem við erum þarna að gangast undir. Ég skildi þetta a.m.k. svo að það væri jafnræði á milli ríkjanna og ýmislegt yrði tekið upp frá EFTA-ríkjunum og annað frá EB-ríkjunum þó að það yrði þó fyrst og fremst það. Það var okkur ljóst.
    En það er fleira sem hefur breyst. Mætur maður, Einar Oddur Kristjánsson, sagði á fundi hjá Verslunarráði að svona samningur við erlent ríki gæti verið stórkostlega hættulegur ef íslenskur atvinnuvegur væri ekki sterkur þegar hann gengi til þess leiks. Undir þetta vil ég taka. Árin 1989 og 1990 var íslenskur atvinnuvegur á batavegi og það hafa tölur Þjóðhagsstofnunar rækilega sýnt. T.d. árið 1990 er eigið fé í íslenskum sjávarútvegi orðið eitt það besta sem það hefur verið þann áratug og hafði batnað um um það bil 50% og sjávarútvegurinn var kominn úr taprekstri í um það bil núllið. Enn þá meiri var batinn í íslenskum iðnaði. Þar jókst bæði eigið fé og sagði formaður Félags ísl. iðnrekenda við mig á þeim tíma að það ár hefði verið besta árið í afkomu íslensks iðnaðar.
    Við töldum að þá væri íslenskt atvinnulíf að komast í þá stöðu að það gæti keppt á svona opnum markaði. En hvernig er það nú? Þessi ríkisstjórn hefur ekki lyft hendi til að styðja við bakið á íslensku atvinnulífi og jafnvel ekki þrátt fyrir það sem hún boðar að fram undan sé, opin samkeppni. Það vita það allir að íslenskur sjávarútvegur er rekinn með tapi. Nú segir hæstv. utanrrh.: Þetta tap hverfur þegar við komum í EES. Trúir hann þessu virkilega sjálfur? Trúir hann því virkilega sjálfur að skuldsettur íslenskur sjávarútvegur sem er með rekstur sinn að mörgu leyti þegar í mjög miklum vandræðum geti nýtt sér þau tækifæri sem þarna kunna að vera? Er hann nógu sterkur til þess? Því miður held ég ekki. Og þetta er að mínu mati einhver sú alvarlegasta breyting sem hefur orðið frá því að við gengum til þessa verks. Allar ríkisstjórnir í EB og í EFTA styðja opinberlega eða reyndar mætti heldur segja bæði leynt og ljóst við bakið á sínu atvinnulífi til að styrkja það í sinni samkeppni. Það var rakið fyrir mér fyrir nokkrum dögum af kunnugum manni að Danir t.d. verja óhemju miklu fé til að endurmennta fólk í atvinnulífinu danska þannig að þeir geti keppt á þeim opna markaði sem þeir hafa gengið til.
    Eitt er það atriði sem ég nefndi áðan og hæstv. utanrrh. heldur fram að hafi verið fullnægt og það er um fólksflutninga til landsins. Í samningnum er ein grein, mig minnir 118. gr., sem segir að heimilt skuli að grípa til ráðstafana ef ákvæði samningsins leiða til röskunar á efnahagsmálum viðkomandi þjóðar. En hvað má þá gera á móti? Þá má Evrópubandalagið beita gagnráðstöfunum og þær deilur sem frá þessu kunna að hefjast verða að fara fyrir gerðardóm. Hve snemma getum við Íslendingar sýnt fram á að flutningar atvinnulausra til Íslands hafi skaðleg, efnahagsleg áhrif? Það getur liðið töluvert langur tími og þetta er alls ekki það ákvæði sem við lögðum áherslu á að fá inn í samninginn þegar við fórum af stað. Við óskuðum eftir því að við hefðum sama ákvæði og við höfum í samningnum við Norðurlöndin. Við gætum stöðvað fólksflutninga án nokkurra skilyrða. Það er því víðs fjarri að þessi samningur sé sá sami og til var ætlaðst í upphafi.
    Við framsóknarmenn höfum rætt mjög mikið um þennan samning að sjálfsögðu á okkar fundum, enda við verið virkir þátttakendur í allri gerð hans fyrstu tvö árin nánast. Og við ræddum hann á okkar miðstjórnarfundi t.d. 2. maí og gerðum þá mjög ákveðna ályktun um samninginn. Við sögðum: Það er útilokað að styðja þennan samning nema nokkrum skilyrðum sé fullnægt, öllum þeim skilyrðum sem við settum í upphafi, og sömuleiðis að samningurinn standist hina íslensku stjórnarskrá. Á flokksþinginu gerðum við svipaða samþykkt og lögðum áherslu á að það væri útilokað að styðja þennan samning ef hann gengi í bág við stjórnarskrána og þar ætti stjórnarskráin að njóta vafans. Þetta hefur markað okkar stefnu í þessu máli og ég ætla að nota seinni hluta míns tíma til að ræða það nánar og ræða þá einnig um þá framtíð sem við sjáum fyrir okkur og mikilvægi þess að ganga þegar til að ákveða að þessum samningi verði breytt í tvíhliða samning.
    Ég þakka þeim sem hlýddu.