Evrópskt efnahagssvæði

96. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 21:37:38 (4443)

     Árni R. Árnason :
    Virðulegur forseti. Góðir áheyrendur. Samningurinn um EES er viðamikill og margbrotinn. Hann snertir athafnalíf, allt frá viðskiptum til rannsókna- og þróunarstarfs, umhverfismála, og málefna smáfyrirtækja, svo fátt eitt sé nefnt.
    Einn helsti kostur hans er að tryggja okkur greiðan aðgang að mörkuðum og vildarkjör í tollum á langmikilvægasta útflutningsmarkaði okkar án þess að ógilda fyrri fríverslunarsamning og án þess að skerða rétt okkar til beinna samninga og viðskipta við ríki utan hans, svo sem Bandaríkin og Japan.
    Ákvæði samningsins um frelsin fjögur og um virka samkeppni snerta alla atvinnuvegi okkar og flestar starfsgreinar. Misjafnlega þó.
    Verslun og iðnaður hafa átt í óheftri samkeppni við Vestur-Evrópu allt frá inngöngu okkar í EFTA 1970 og síðar með fríverslunarsamningi okkar við EB. Það er því stórfurðulegt að heyra hér undanfarnar vikur og mánuði fullorðið fólk tala eins og verslun okkar og iðnaður hafi allt til þessa dags búið við algjöra vernd gegn erlendri samkeppni --- en með aðild okkar að EES muni skella á gjörningaveður fjórfrelsisins, gjörningaveður frelsis og samkeppni.
    Forsvarsmenn iðnaðar hafa ítrekað bent á að samningurinn bætir stöðu hans í samkeppninni með lækkun á kostnaði við hráefni, aðföng og þjónustu, nokkuð sem hans erlendu keppinautar hafa notið lengi.
    Forsvarsmenn verslunar hafa enn fremur sýnt fram á að með aðlögun að innri markaði EB, og um það snýst samningurinn, muni innflutnings- og útflutningsverslun væntanlega spara um 2,8 milljarða króna á ári og ríkissjóður hálfan til 1 milljarð að auki.
    Hv. landbn. Alþingis hefur gaumgæfilega kynnt sér áhrif samningsins. Ágreiningslaus niðurstaða hennar var að innlendar landbúnaðarafurðir fái með honum betri möguleika en áður vegna hagfelldari ákvæða hans um jöfnunargjöld, en nú gilda.
    Sjávarútvegur hefur ævinlega átt í harðri samkeppni, en er verulega frábrugðinn hinum erlendu keppinautum. Þeir eru mjög lítill hluti efnhagsstarfseminnar hver í sínu landi, helst á jaðarbyggðum, strandsvæðum án iðnaðar og njóta mikilla ríkisstyrkja.
    Hér er sjávarútvegurinn undirstaða atvinnulífs og afkomu heils þjóðarbús, vel búinn og beitir nýjustu tækni, stendur á eigin fótum án styrkja frá ríki eða öðrum atvinnuvegum. Hann er grundvöllur auðsældar þjóðar sem hefur á fáum áratugum brotist frá fátækt til velmegunar.
    Miðað við útflutning ársins 1990 veitir samningurinn tollalækkanir af sjávarafurðum sem nema um 1,9 milljörðum kr. Bókun 6 heldur fullu gildi sínu þar sem hún gengur lengra og í öðrum greinum fæst lækkun til viðbótar. Mikilvægust er umtalsverð tollalækkun á saltfiski og ferskum unnum fiski sem gjörbreytir samkeppnisstöðu okkar og opnar að auki möguleika á nýrri vinnslu. Ávinningur sjávarútvegs er ávinningur hinna dreifðu byggða um alla sjávarsíðuna.
    Gagnvart upplýsingum samtaka og forystumanna atvinnuveganna um góð áhrif samningsins á starfskjör þeirra og möguleika verða ótrúverðugar ræður andmælenda hans sem tala eins og við búum í óbreytanlegum heimi, getum einangrað okkur frá kostnaði og áhættum vegna breytinga og framfara í viðskiptum og atvinnuháttum en samt sem áður uppskorið afrakstur þeirra.
    Í heimi alþjóðlegra viðskipta erum við smáþjóð og ekki aðeins úti á jaðri Evrópu heldur á hjara veraldar. Samt sem áður er hér talað digurbarkalega eins og við getum einfaldlega krafist alls ellegar staðið ein. Það álít ég reginmisskilning á möguleikum okkar og á þeirri staðreynd að breytingar á viðskiptum og atvinnuháttum grannþjóða okkar munu einnig hafa sömu áhrif á lífskjör og afkomu okkar.
    Aðild að EES fylgja vissulega nokkrar áhættur og mörg álitaefni. En synjun aðildar fylgja miklu meiri hættur fyrir atvinnulíf og afkomu uppvaxandi kynslóða í landinu. Greiður aðgangur og góð tollakjör á erlendum mörkuðum eru okkur algjör lífsnauðsyn. Nær allir flokkar á Alþingi hafa flutt tillögur um aukin samskipti og gerð nýrra viðskiptasamninga við EB sem undirstrika skilning þeirra á þessari nauðsyn. En fyrir liggja yfirlýsingar um að þeim þjóðum sem hafna EES munu ekki bjóðast jafngóð kjör í tvíhliða samningum við EB. Því er það að ef við gerumst ekki aðilar að EES, þá munum við búa við lakari viðskiptakjör en keppinautarnir. Ekki þarf að spyrja um afleiðingar þess á lífskjör, velferð né efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar eða lífsmöguleika. Því segi ég fyrir mitt leyti og margra annarra að því aðeins búum við þjóð okkar kost á sambærilegum lífskjörum við aðrar og möguleika á að halda hér ungu og framgjörnu fólki að við berum nú gæfu til að taka frá upphafi þátt í því víðtæka samstarfi grannþjóða okkar í Evrópu sem

samningurinn leggur grundvöll að.
    Þess vegna, virðulegur forseti, þess vegna, góðir áheyrendur, greiði ég þessum samningi atkvæði mitt.