Evrópskt efnahagssvæði

96. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 21:43:27 (4444)

     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Góðir áheyrendur. Á undanförnum árum hefur verið að birta til í samskiptum risaveldanna og í afvopnunarmálum. Allt frá stríðslokum hefur heiminum verið skipt upp í tvö svæði sem að meira eða minna leyti hafa verið undir áhrifum risaveldanna tveggja. Nú hafa þau stórmerki gerst að Sovétríkin hafa liðið undir lok og með þeim hrundi miðstýrt og ólýðræðislegt stjórnkerfi. Það er hins vegar kaldhæðnislegt að á sama tíma og það kerfi hrynur til grunna er í uppsiglingu annað og ekki síður miðstýrt kerfi í Vestur-Evrópu. En þar á ég við EB. Verið er að skipta heiminum í viðskiptablokkir sem vilja einangra sig að meira eða minna leyti frá öðrum og fátækari hlutum heimsins. Þetta er óheillavænleg stefna sem Íslendingar eiga að vinna gegn.
    Aðild að Evrópsku efnahagssvæði mun ekki verða konum til framdráttar heldur fremur hið gagnstæða. Þar sem hámarksgróði og aukinn hagvöxtur er höfuðmarkmiðið lúta jafnréttissjónarmið í lægra haldi og lítið tillit er tekið til barna og þeirra sem eldri eru og veikburða. Afleiðing slíkrar stefnu bitnar frekar á konum en körlum. Sú hagvaxtarstefna sem lögð er til grundvallar í Evrópubandalaginu og þar með á hinu Evrópska efnahagssvæði er stefna sem Kvennalistinn hefur barist gegn. Með aðild að EES og EB værum við að ýta undir mengun og sóun sem er afleiðing hagvaxtarstefnu sem er úrelt og ófullnægjandi þar eð aðallega er tekið mið af skammtímahagsmunum en sniðgengin er ný sýn til umhverfismála.
    Með myndun Evrópska efnahagssvæðisins eru sjálfstæðar þjóðir ekki að gera viðskiptasamninga sín á milli heldur er verið með sama hætti og innan EB að mynda pólitísk samtök með yfirþjóðlegum stofnunum sem fara eiga með hluta þess valds sem nú er í höndum ríkisstjórna, þjóðþinga og dómstóla. Allt frumkvæði að lagasetningu á gildissviði samningsins yrði í höndum EB en ekki Alþingis. Þetta er ekki síst ógnvekjandi miðað við þá efnahagsstefnu sem Evrópubandalagið grundvallast á og mótuð er af fjármálarisum og fjölþjóðafyrirtækum. Þar er fyrst og fremst miðað við hag stórfyrirtækja og leiðir það til þess að staða smáiðnaðar og þjónustu versnar, sérstaklega í jaðarríkjum. Hvers vegna ætti það að vera eftirsóknarvert að tengjast svæði þar sem stöðug hnignun hefur verið í efnahagslífi að undanförnu, atvinnuleysi hefur farið vaxandi og lífskjör almennings versnað?
    Íslendingar eiga meira undir utanríkisviðskiptum en flestar aðrar þjóðir. Frjáls vöruviðskipti eru þjóðinni hagkvæm og mikilvægt að geta stundað tollfrjálsa verslun með útflutningsafurðir. Sérstaða Íslands sem fiskveiðiþjóðar veldur því að afar óskynsamlegt er að binda þjóðina einum markaði eða efnahagssvæði sem þrengt gæti svigrúm hennar. Þvert á móti þjónar það hagsmunum okkar að vera óháð út á við og leita sem bestra samskipta með beinum samningum við einstök ríki og markaðsheildir. Þannig styrkjum við stöðu okkar út á við og treystum efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Við höfum góða vöru að bjóða og ef rétt er á málum haldið höfum við sterka samningsstöðu.
    Aðild að Evrópsku efnahagssvæði þjónar ekki langtímahagsmunum Íslendinga. Við eigum að móta framtíðina utan hins Evrópska efnahagssvæðis og Evrópubandalagsins. Með því móti getum við aðlagað og mótað okkar innanlandslöggjöf með tilliti til okkar eigin hagsmuna og samkvæmt eigin ákvörðunum. Þannig gætu Íslendingar haft nokkur áhrif á þá efnahagsstefnu sem við viljum fylgja hér á landi og hægt er að fara aðrar leiðir en Evrópubandalagið ákvæði.
    Í stað þess að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópubandalaginu í kjölfarið væri eðlilegra að halda áfram samstarfi við EB á sama grunni og hingað til hefur verið gert og leita eftir tvíhliða samningum um hagsmunamál Íslendinga. Jafnframt því eigum við að efla samstarf við lönd utan Evrópubandalagsins og nýta okkur sem best þá stöðu sem við höfum mitt á milli stærstu markaðssvæða heimsins.
    Mikil áhersla hefur verið lögð á það hve ávinningur sjávarútvegsins sé stór af samningnum. Það er auðvitað mikilsvert að fá lækkun tolla á okkar vörum á markaði Evrópubandalagsins og til hagsbóta fyrir íslenskan sjávarútveg. En svo góð sem niðurfelling tolla er verður einnig að halda því til haga hvaða verði slík tollalækkun er keypt. Aðgangur fiskiskipa EB að fiskimiðum Íslendinga er aðgöngumiðinn að mörkuðum þeirra þrátt fyrir yfirlýsta stefnu Íslendinga að slíkt kæmi aldrei til greina.
    Evrópskt efnahagssvæði felur í sér að Ísland verður hluti af 380 millj. manna markaði með óheftu flæði fyrir fjármagn, þjónustu og vöru og að fólk hafi sama rétt á svæðinu öllu til atvinnu, til að stofna fyrirtæki, til að kaupa fasteignir, þar með talið land o.fl. Allan tímann sem samningaviðræður stóðu var látið að því liggja að auðvelt væri að koma í veg fyrir að erlendir aðilar gætu fjárfest í landi og öðrum auðlindum. Nú hefur komið í ljós að það er ekki hægt að hindra þetta nema skerða um leið verulega rétt Íslendinga sjálfra.
    Aðild að Evrópsku efnahagssvæði er eitt stærsta mál sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir frá stofnun lýðveldisins. Það var og er enn sjálfsögð og eðlileg krafa að þjóðin sé spurð álits á því hvort rétt sé að taka þetta afdrifaríka skref. Aðild að EES samrýmist ekki íslensku stjórnarskránni að mati færustu sérfræðinga. Alþingi ætti aldrei að samþykkja lagafrv. sem líklegt er að samrýmist ekki stjórnarskrá lýðveldisins. Í þessu máli megum við ekki hugsa í árum eða láta hugmyndir um hugsanlegan skammtímaávinning ráða niðurstöðu. Í máli sem varðar grundvallaratriði í stöðu þjóðarinnar um langa framtíð má ekki rasa um ráð fram. Það hefur því miður verið gert. En það er ekki um seinan að spyrna við fótum og enn er ekki öll nótt úti. --- Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.