Evrópskt efnahagssvæði

96. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 22:39:02 (4451)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Það mál sem hér er verið að ræða er stærsta mál lýðveldissögunnar. Aldrei hefur verið fjallað um jafnvíðtækt mál á Alþingi Íslendinga frá því að lýðveldi var stofnað í þessu landi. Aldrei hefur verið fjallað um mál sem snertir eins marga, aldrei hefur verið fjallað mál sem snertir með jafnafgerandi hætti öll svið þjóðlífsins. Aldrei hefur verið fjallað um mál sem með sama hætti mun snerta þjóðlífið um langan tíma, langa ófyrirsjáanlega framtíð ef svo fer fram sem horfir og þessi samningur verður samþykktur.
    Þetta er alvörumál. Þetta er mál sem snýst um þrjú meginatriði að mínu mati. Í fyrsta lagi að það liggur fyrir að taka eigi upp svokallað fjórfrelsi en án varanlegra fyrirvara. Í öðru lagi að það eigi í rauninni að breyta grundvallarvinnubrögðum á Alþingi Íslendinga, í raun og veru að halda þannig á málum að stjórnarskráin sé í tvísýnu. Það er verið að breyta Alþingi Íslendinga í flæðilínu, sjálfvirka flæðilínu fyrir Evrópubandalagið án þess að við getum neinum vörnum við komið. Og í þriðja lagi gerist það með þessum samningi, ef hann verður lögfestur, að Íslendingar stíga ekki aðeins hálft skref heldur munu þeir kveðja dyra í Evrópubandalaginu og kalla á aðild að því ef við verðum aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði. Aðild að Evrópsku efnahagssvæði er því ekki vörn gagnvart Evrópubandalaginu heldur viðspyrna fyrir þá sem vilja knýja Íslendinga inn í Evrópubandalagið. Þetta höfum við stjórnarandstæðingar verið að reyna að segja. Þetta höfum við verið að reyna að segja í mörgum ræðum hér á Alþingi Íslendinga og hverju mætum við af núv. hæstv. ríkisstjórn? Hroka og yfirlýsingum um málþóf. Lengst gengur í þeim efnum hæstv. utanrrh.
    Hæstv. forsrh. sagði að vísu áðan að umræðurnar hefðu verið mestar á lengdina en minni á dýptina. Hann vill sjálfsagt hafa mál af þessu tagi og meðferð þeirra með sama hætti og hann vill hafa það í þingflokki Sjálfstfl. þar sem eru enn þá ellefu þingmenn sem hafa ekki stigið í ræðustól til að gera þjóðinni grein fyrir sjónarmiðum sínum þrátt fyrir umræðuna svo lengi sem hún hefur staðið. Hæstv. forsrh. vill sjálfsagt hafa sama fyrirkomulag á þessu máli hér og hann hafði í borgarstjórn Reykjavíkur á sínum tíma.
    Og svo þegar við ávörpum utanrrh. og ríkisstjórnina með rökum og segjum: Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði leysir engan vanda fyrir atvinnuleysingjana á Íslandi, hvað segir utanrrh. þá? Þá segir hann: Fjölfætlufræðingar. Þegar við segjum: Það er verið að vega að stjórnarskránni, hvað segir utanrrh. þá? Hann segir: Fylgikonur allaballa. Þegar við segjum: Þessi samningur styrkir ekki stöðu verkalýðshreyfingarinnar heldur veikir hana, hvað gerir utanrrh. þá? Þá hefur hann árás á launþegahreyfinguna í landinu og foringja verkalýðshreyfingarinnar eins og hann gerði með venjulegum húsbóndahroka sínum hér áðan. Og þegar við segjum: Þessi samningur leiðir Ísland inn í Evrópubandalagið ef svo fer fram sem horfir, þá segir hann: Málþóf, málþóf! Og erlendis er hann svo smekklegur að kvarta yfir vinnubrögðum Alþingis Íslendinga, talar um ótrúlegt þol og þrek sem þurfi til að sitja undir umræðum hér þar sem hæfni manna ráðist af því hversu góð eða vond þvagfæri þeir hafa.
    Þetta eru rök utanrrh. Og í þessum rökum utanrrh. eða rakaleysu er fólginn vandi þessa máls frá upphafi. Það hvernig Jón Baldvin Hannibalsson hefur haldið á þessu máli frá upphafi er ógæfa málsins. Þar er skýringin á þeim veruleika að það hefur ekki verið unnt sem skyldi að ná þjóðinni saman um úrslitamál af þessu tagi. Hann hefur kosið hroka og ofstæki í stað þess að fara yfir málin með yfirveguðum og skynsamlegum hætti.
    Ég fagna því, virðulegi forseti, þrátt fyrir allt, að utanrrh. skuli einmitt hafa talað svona hér í kvöld um fjölfætlufræðinga og fylgikonur. Það er nákvæmlega táknrænt fyrir allan hans málflutning, hroka og vinnubrögð frá upphafi þessa máls, alveg frá því að lagt var af stað. Við alþýðubandalagsmenn vísum þessum málflutningi á bug. Við höfum þegar í þessum umræðum gert ítarlega grein fyrir okkar sjónarmiðum, bæði varðandi fjórfrelsið, stjórnarskrána, sjávarútveginn, Evrópubandalagið og aðra þætti, og ég ætla ekki að endurtaka það hér.
    En ég ætla að segja það, virðulegi forseti og góðir tilheyrendur, að reynsla síðustu áratuga sýnir svo að ekki verður um villst hvað það getur verið hættulegt fyrir smáþjóð að njörva sig inn í stórríkjabandalögum. Eftirstöðvar slíkra ákvarðana birtast nú í átökum víðs vegar í heiminum. Okkur væri því hentast, Íslendingum, við þessar aðstæður í ljósi reynslunnar að standa utan ríkjablokkanna því að í sjálfstæðinu er fólgin besta auðlind þjóðarinnar. Í sjálfstæðinu er styrkur okkar til sköpunar auðæfa í þágu okkar og í þágu heimsins alls. Þess vegna eigum við að hafna gömlum afturhaldssjónarmiðum ríkjaflokkanna en styðja í staðinn viðleitni smáríkja til jafnari skiptingar auðæfanna á grundvelli jafnaðarstefnu og sjálfstæðis þjóðanna. Þess vegna eigum við nú, góðir hlustendur, að sameinast um það þar sem kostur er á því að henda samningsdrögunum um EES á ruslahauga sögunnar eins og öðrum fánýtum pappírum. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.