Evrópskt efnahagssvæði

96. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 23:16:05 (4455)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Þegar sagnfræðingar framtíðarinnar taka að kynna sér íslenskar stjórnmálaumræður á síðustu áratugum 20. aldar munu þeir eflaust komast að þeirri niðurstöðu að þær hafi snúist um efnahagsmál og aftur efnahagsmál þar sem tölur, útreikningar, línurit og súlur fylla blaðsíðu eftir blaðsíðu meðal þeirra heimilda sem við skiljum eftir okkur. Menn gætu haldið að við hefðum lifað í heimi þar sem allt væri útreiknanlegt og mælanlegt, jafnt lífshamingjan sem kaupmáttur, verðbólga og vextir.
    En stjórnmál snúast ekki eingöngu um efnahagsmál og útreikninga. Efnahagsleg rök eru ekki einu rökin sem okkur ber að skoða, hvort sem við erum að fást við fjárlög íslenska ríkisins eða mat á samningi eins og þeim sem hér er til umræðu í kvöld. Þegar allt kemur til alls snúast stjórnmál um fólk, um líf og lífskjör, og ekki síst um hugmyndir, hugmyndir um það hvers konar lífi við viljum lifa í þessu landi og hvers konar framtíð við viljum skapa komandi kynslóðum.
    Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði fjallar ekki eingöngu um tollalækkanir fyrir íslenskan fisk, fjórfrelsið og hugsanlega möguleika íslenskra fyrirtækja eins og halda mætti af málflutningi sumra hér í kvöld. Hann felur einnig í sér ákveðna hugmyndafræði, markmið, framtíðarsýn og stefnumörkun, kosti og galla sem við verðum að taka afstöðu til. Hann felur í sér ákveðna aðlögun að skipulagi sem að hluta til er rótgróið, að hluta til í mótun. Verði samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði að veruleika verður kúrsinn tekinn í átt til miðstýringarinnar miklu í Brussel þar sem tilskipanir og reglugerðir um allt milli himins og jarðar streyma frá embættismannaveldinu sem situr svo óralangt frá því fólki sem á að fara eftir settum reglum. Við verðum að lögfesta þær tilskipanir sem snerta svið samningsins og laga okkur að því kerfi sem samningurinn leiðir af sér.
    Það er vissulega skiljanlegt að ríki Evrópu sem öldum saman háðu grimmileg stríð hvert við annað skuli nú hafa valið braut samvinnu og viðskiptafrelsis, en að mínum dómi eru þessi sömu ríki á villigötum hvað varðar skipulag og framtíðarsýn. Miðstýring, karlveldi, hagvaxtardýrkun og skortur á lýðræði er það sem blasir við öllum þeim sem kynna sér Evrópubandalagið og skipulag þess. Það kom mjög greinilega fram á nýliðnu ári að djúp gjá er á milli hugmynda ráðandi stjórnmálamanna um framtíð Evrópu og allt að helmings kjósenda sem höfnuðu fyrirhuguðum samruna þar sem kosið var. En ekki er nú lýðræðisvitundin dýpri meðal ráðamanna en það að allt hefur verið gert til að finna leiðir til að hunsa þann danska meiri hluta sem hafnaði Maastricht-samkomulaginu í lýðræðislegum kosningum. Samrunaþróunin sem stefnt er að í Evrópu er ekki óhjákvæmileg. Hún er einfaldlega stefna sem mörkuð hefur verið af stjórnmálamönnum. Evrópska efnahagssvæðið er hluti af þeirri stefnu og ég hafna því að það sé eini kosturinn sem Íslendingar eigi um að velja. Heimurinn er stór og möguleikarnir miklir. Sagan kennir okkur að stórveldi, efnahags- og tollabandalög hafa komið og farið í tímans rás. EB verður ekki eilíft og það er þegar ljóst að Evrópska efnahagssvæðið er millispil í tónverki sem enginn veit hvernig endar og getur vart þjónað framtíðarhagsmunum Íslendinga. Því eiga Íslendingar að leita annarra leiða, tvíhliða viðræðna við EB og nýrra markaða. Við þurfum vissulega að tryggja viðskiptahagsmuni okkar og það getum við gert án þess að loka okkur inni á bak við múra hins Evrópska efnahagssvæðis þar sem atvinnuleysið er yfirþyrmandi og hagræðing, einsleitni, hagsmunir stórfyrirtækja og blind markaðshyggja ráða för.

    Virðulegi forseti. Það neitar því enginn að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði felur í sér bæði kosti og galla fyrir íslenska þjóð. Að vandlega athuguðu máli hef ég komist að þeirri niðurstöðu að gallarnir vegi þyngra en kostirnir og því mun ég greiða atkvæði gegn samningnum. Ástæðurnar eru margar. Hér er um slíkt stórmál að ræða að það hefði átt að leggja í dóm þjóðarinnar, en því var hafnað af meiri hlutanum á Alþingi. Vafi leikur á því að samningurinn standist íslensku stjórnarskrána. Ég get sem alþingismaður ekki sætt mig við þá stöðu sem samningurinn markar Alþingi Íslendinga er okkur verður gert að segja já eða nei þegar tilskipanir EB koma til kasta þingsins en fáum litlu sem engu ráðið um innihald þeirra laga sem okkur er ætlað að setja. Að mínum dómi er þar um að ræða ótvírætt framsal á löggjafarvaldi.
    Samningurinn um EES felur einnig í sér valdaafsal á þeim sviðum sem hann nær til sem þýðir að við getum ekki lengur mótað okkar eigin stefnu í stórum málaflokkum. Með samningnum um EES verður okkur gert með einum eða öðrum hætti að aðlagast þeirri samfélagsþróun sem mun eiga sér stað á Evrópska efnahagssvæðinu og ég spyr: Hvað þýðir það fyrir íslenska kvennabaráttu? Hvað þýðir það fyrir félagsleg réttindi karla og kvenna? Hvað þýðir það fyrir kjarabaráttu framtíðarinnar? Verður því ekki borið við að hér sé ekki hægt að bjóða betur en úti í Evrópu vegna samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og vegna einsleitninnar sem er eitt af aðalmarkmiðum samningsins um EES.
    Evrópska efnahagssvæðið felur í sér áframhald þeirrar hagvaxtar- og iðnaðardýrkunar sem sl. 200 ár hefur valdið jörðinni miklum skaða og gengur þvert á hugmyndir Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Það er ljóst að stefnubreyting verður að eiga sér stað. Evrópska efnahagssvæðinu er ætlað að vera mótvægi við Bandaríkin og Japan í baráttunni um heimsviðskiptin en felur um leið í sér ákveðna einangrunarstefnu þar sem varnarmúrar eru hlaðnir í kringum svæðið og öðrum haldið tryggilega utan við.
    Ég endurtek að það kerfi sem við verðum að aðlagast er ólýðræðislegt reglugerðarveldi af þeirri gerð sem ég vil ekki sjá Ísland sem hluta af.
    Þá er því við að bæta að enginn veit hvað það kostar okkur að stíga það skref sem hér er lofað og prísað af stjórnarflokkunum í þeim karlrembu-, trúboða- og mannkynsfrelsarastíl sem við höfum heyrt hér í kvöld. Það er talað eins og um sjálft himnaríki sé að ræða, en utan við í myrkri og kulda bíður sá vondi sjálfur verði samningnum hafnað.
    Því er mjög haldið á loft að samningurinn um EES bjóði íslenskum fyrirtækjum upp á nýja möguleika og vonandi verður það raunin ef samningurinn verður að veruleika. En ég spyr: Hvernig eru þau búin undir aukna samkeppni og nýja markaðssókn?
    Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar er samdráttur í öllum útflutningsgreinum og við vitum að fjöldi fyrirtækja er rekinn með halla. Ég efast því stórlega um þann mikla efnahagslega ávinning sem spáð er og hin miklu sóknarfæri sem sögð eru fram undan, m.a. í samkeppni við stórlega ríkisstyrktan sjávarútveg Norðmanna.
    Virðulegi forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu. Ég tel að við Íslendingar getum skapað okkur góða framtíð utan EES og að allt það mikla alþjóðasamstarf sem við tökum nú þegar þátt í tryggi okkur nauðsynlega menningarstrauma, vísindasamvinnu og möguleika til að þróa okkar samfélag í þá átt sem við viljum. Við Íslendingar erum smáþjóð, en við getum verið málsvarar friðar, mannréttinda, náttúruverndar og smæðarinnar. Styrkur okkar felst í því að vera lítil menningarþjóð með merka sögu og gamalt flókið tungumál sem á hafa verið ritaðar bókmenntir sem ekki eiga sinn líka í veröldinni.
    Við erum þjóð sem á mikil auðæfi í hafi og landi og höfum með mikilli vinnu skapað hér góð lífskjör þótt á ýmsu hafi gengið. Það sem skiptir okkur mestu er að við ráðum sjálf okkar för og við glötum ekki þeim möguleikum sem við höfum til að skapa hér gott samfélag réttlætis, jöfnuðar og kvenfrelsis. Ég tel að samningurinn um EES verði til trafala á þeirri braut sem ég vil sjá íslenskt samfélag feta. Hann boðar þjóðfélagsþróun sem ég tel óskynsamlega og því hafna ég þessum samningi. --- Góða nótt.