Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 12:11:46 (4457)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Mér þótti einkennilegt af síðasta hv. ræðumanni að gagnrýna að ekki hefðu allir þingmenn talað í málinu. Ef menn hefðu talað jafnlengi og hann nú þá þyrftum við að sitja ákaflega lengi enn yfir málinu. Ég held að allir séu sammála um, eins og ræðumaður vék einnig að, að ástæðulaust sé að lengja umræðuna mikið og sérstaklega í ljósi þess hvernig þingflokkur hans stóð að umræðum í gærkvöldi finnst mér öfugmæli úr munni hans að hvetja þá til þess að tala sem flestir í málinu.
    En ástæðan þess að ég kom upp eru þau orð sem hann lét falla um það hvort það mál sem er til meðferðar væri hæft til afgreiðslu. Um það hefur forseti Alþingis úrskurðað. Ég minnist þess að fyrir jólahátíðina greindi okkur hv. ræðumann á um þetta atriði sérstaklega og hann skýrði frá því að þingflokkur framsóknarmanna hefði ákveðið að senda bréf til Lagastofnunar til að fá upplýsingar um málið. Mig langaði til þess að spyrja hann hvort svar hafi komið við því. Í öðru lagi það sem hann las úr greinargerð Björns Þ. Guðmundssonar sýndi mér enn betur að það vakir nú ekki beinlínis fyrir prófessornum að leggja lögfræðilegt mat á þessa hluti eins og hann rökstyður mál sitt, t.d. þegar hann ræðir um orðið kvísl og það gamla mál. Þar var ekkert um það að ræða hvort mál væri þinglegt eða ekki heldur það að málið fékk ekki stjórnskipulega meðferð hér í þinginu. Það var ólík afgreiðsla á milli deilda og um það snerist það mál.
    Varðandi það hvaða frumvörp eru samþykkt á Alþingi þá vil ég minna hv. ræðumann á það að fyrir nokkrum árum var samþykkt frv. um ríkisábyrgð vegna skips sem hét Het Wapen van Amsterdam og menn töldu að væri að finna í sandi undan ströndum landsins en kom í ljós að var hvergi finnanlegt. Ég veit ekki hvort þingmaðurinn samþykkti það lagafrv. sem var flutt um þetta skip sem ekki hefur fundist.