Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 12:13:58 (4458)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég verð að játa það að ég var óánægður með úrskurð forseta Alþingis í viðkomandi máli um þinglegheitin og í sjálfu sér held ég að hann hafi ekki framtíðargildi. Hann breytir ekki skoðun minni þó að málið sigli að sjálfsögðu áfram í gegnum þingið og sé þráfaldlega á dagskrá, enda er það skipulega í valdi forseta sem nýtur meirihlutastuðnings á þinginu að hafa rangt fyrir sér. En það hnekkir ekki því að ég tel að úrskurðurinn hafi verið mislukkaður og gerður í fljótræði vegna þess að heilbrigða skynsemi vantaði í hann.
    Varðandi það bréf sem ég sendi Lagastofnun fyrir hönd þingflokks framsóknarmanna þá hefur mér borist svar við því. Lagastofnun veikst ekki undan því að gera þetta en hún gæti ekki komið því við fyrr en í febrúar vegna annríkis að sinna því verkefni. Það sannar fyrir mér í fyrsta lagi að öflugra hefði verið að utanrmn. í heild hefði óskað eftir þessu, þá á ég von á því að Lagastofnun hefði brugðist skjótar við. Í öðru lagi að okkur er nauðsynlegt að koma upp einhverju óháðu apparati sem gæti lagt mat á lögfræðileg úrlausnarefni og um það mun ég bera fram þingmál eins og ég hef þegar boðað.
    Varðandi greinargerð þá sem ég vitnaði til frá prófessor Birni Þ. Guðmundssyni þá er hún alveg pottþétt. Hún sannar mál mitt og þess vegna flutti ég hana og taldi eðlilegt að hún kæmi í þingtíðindi. Hún sannaði það að ég fór með rétt mál í upphafi og geri enn.