Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 12:18:36 (4460)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Greinargerð prófessors Björns Þ. Guðmundssonar er lögfræðileg greinargerð og hún sannar að dómsúrlausnir í framtíðinni verða ekki byggðar á þessum lagatexta og sú tilvitnun sem hann notaði í lax- og silungsveiðilög tekur af öll tvímæli um það. Þetta mál er illa unnið.
    Leitin að gullskipinu er einmitt ágæt samlíking. Auðvitað var ekkert nema vitleysa að verja fjármunum til að leita að gullskipinu. En það er nákvæmlega hliðstætt sem verið er að gera. Að vísu var samþykkt þingmál um það, mig minnir að það hafi reyndar verið brtt. við fjárlög, að verja ákveðinni upphæð til að styrkja ákveðna áhugamenn og bjartsýnismenn til þess að fara að leita að gullskipi. Raunverulega var

verið að ákvarða það að fá í hendur fjármuni til þess að æða út í óvissuna og leita að gullskipi. Hæstv. ríkisstjórn er suður í Brussel að leita að sínu gullskipi og ég óttast að það verði sama niðurstaðan, að gullskipið sé ekki til. Ég hafði aldrei neina trú á þessu gullskipi og vitnaði til þess að í 100 ár höfðu Skaftfellingar silki í gjörðum og reiðingum á hestum sínum. Þeir hefðu verið hreinir aumingjar ef þeir hefðu ekki verið búnir að hirða gullið líka úr því að þeir náðu silkinu þannig að ekki var til neins að leita þarna.
    Nú man ég ekkert um það hver endanleg niðurstaða var í atkvæðagreiðslunni en málið var jafnvitlaust. Ég hef tekið átt í mörgum vitlausum atkvæðagreiðslum hér. Ég skal fletta upp á þessu ef hv. 3. þm. Reykv. er ekki búinn að því. Mér kemur ekkert á óvart þó að hv. 3. þm. Reykv. reyni að beita einhverjum bolabrögðum við að stöðva þyrlukaupamálið og koma í veg fyrir að vilji Alþingis í málinu komi fram. En hann og utanrrh. eru að leita suður í Brussel gullskipi sem ekki er til.