Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 12:21:01 (4461)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þegar ég hlustaði á hv. þm. Pál Pétursson flytja sína löngu ræðu sem var næstum því sjö stundarfjórðungar, ein klukkustund og 45 mínútur, þá rifjaðist upp fyrir mér hvenær ég sá hv. þm. fyrst. Það var á mínum gamla vinnustað hjá sjónvarpinu líklega árið 1976. Hann kom þangað til að taka þátt í umræðuþætti, og til hvers? Til þess að mæla gegn litsjónvarpi. Nú eru þetta auðvitað algerlega ósambærileg mál nema að því leytinu að þau fjalla bæði um það að fylgjast með tímanum og að Íslendingar eigi sömu kosti í öllum efnum og grannþjóðirnar. Ég heyri það að hjá hv. þm. hefur nákvæmlega ekkert breyst, hann er enn við sama heygarðshornið.
    Í langri ræðu hans kom ekkert nýtt fram. Hann vitnaði í heldur hæpna greinargerð eftir prófessor Björn Þ. Guðmundsson sem margir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gert. Í einnar klukkustundar og 45 mínútna langri ræðu kom ekkert nýtt fram. Hann hafði um það orð og nefndi þar sérstaklega til sögunnar hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. sem væru að kasta rýrð á Alþingi með ýmsum ummælum sínum. Ræða hv. þm. áðan var hvað sem hver segir dæmigerð málþófsræða þó ekki læsi hann upp úr bókum. Þetta var auðvitað dæmigerð málþófsræða og ef einhver eða einhverjir hafa varpað rýrð á þessa virðulegu stofnun, þá eru það þeir hv. þm. stjórnarandstöðunnar sem hafa staðið fyrir þeirri uppákomu sem meðferð þessa máls er orðin. Hv. þm. Páll Pétursson þekkir nokkuð vel til í þingum hjá grönnum okkar á Norðurlöndum. Hann veit jafn vel og ég að slík uppákoma eins og hér hefur orðið er gersamlega óhugsandi á þjóðþingum Norðurlandanna annars staðar en hér vegna þess að því miður höfum við ekki nægilega góð þingsköp. Okkar þingsköp eru gölluð að þessu leytinu og því þarf að breyta.