Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 14:23:24 (4468)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Af því að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson heldur að það sem ég sagði um orðið málþóf sé eitthvert sérstakt mat mitt eða míns ráðuneytis á þessu ágæta íslenska orði, þá vil ég nefna honum hér til sögunnar að í íslenskri samheitaorðabók sem gefin er út í Reykjavík 1985 af Styrktarsjóði Þorbergs Þórðarsonar og Margrétar Jónssonar segir: ,,Málþóf: þvergirðingur; stagl.``
    Í Íslenskri orðsifjabók segir: ,,Þóf: það að þæfa; það sem þæft er; þauf; þjark; þref, . . .  .`` Í orðabók Blöndals sem jafnan er nú mest vitnað til, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, segir um orðið málþóf: ,,Væven frem og tilbage om noget, Obstruktion`` sem þýðir hindrun eða þvergirðingsháttur í þessu tilviki. Hér er ekki um að ræða mitt mat. Hér er bara um að ræða hvað orðið málþóf þýðir og enginn þeirra fjölmörgu sem fylgist með þessum umræðum heima hjá sér úti í bæ og þar sem þessar sendingar sjást velkist í nokkrum minnsta vafa um það hvað hér er á ferð. Hér er hreint málþóf á ferð og það er alveg skýrt og menn eiga að viðurkenna hvað þeir eru að gera þegar þeir halda uppi málþófi eins og hv. þm. hefur hér gert.