Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 14:25:15 (4469)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hef nú reynt að halda mig við það mál sem hér er á dagskrá. Mér vitanlega er það hið Evrópska efnahagssvæði. Sé búið að taka hér fyrir mál sem heitir Málþóf, þá legg ég til að það sé upplýst af forseta að hitt málið sé þá tekið út af dagskrá og hér verði tekin umræða um orðið málþóf.
    Ég hef engin orð látið falla um skilgreiningu á því en sá sem les upp úr orðabókum án þess að biðja leyfis undir umræðu um Evrópskt efnahagssvæði um orðið málþóf, á hvaða braut er hann? Er hann ekki með málþóf? Og þó að hinn bráðmyndarlegi formaður Alþfl., þ.e. þingflokksins, labbi hér fyrir ræðustólinn, þá leysir það ekkert í þessum efnum. ( ÖS: Það er samt betra.) En hins vegar vona ég að það birti í sálarlífi hæstv. umhvrh., það birti með hækkandi sól. Það gerir það nú oft hjá mörgum. Skammdegisþunglyndið fer í marga, þá vona ég að hann átti sig á því að það eru þeir sem eru að tala hér um gullskip, þyrlur og málþóf sem ekki er á dagskrá sem eru að tefja þessa umræðu og reyna að espa menn hér upp til að tala lengur um málið.