Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 15:10:47 (4474)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Svo mæla börnin sem fyrir þeim er haft, segir máltækið. Ég vil líka þakka hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni ræðu sína. Ég saknaði þess að hafa ekki heyrt í hinum þögla meiri hluta sem hér hefur þagað þunnu hljóði í þessu máli og ég er ánægður að hv. þm. tók til máls. Hann kom út úr skápnum og upplýsti hvaða hræringar eru innan Alþfl. Hann sýndi okkur inn í hugarheim sinn, langanir sínar og þrár, svo að ég noti hans skáldlega orðalag. Ég og minn flokkur erum gersamlega andvígir aðild Íslands að Evrópubandalaginu. Það kann að vera að hann flokki það undir ættjarðarskvaldur eða okkur sem ættjarðarskrumara en það verður þá að hafa það. En öll hans ræða frá upphafi til enda var alvarleg aðvörun til okkar um á hvaða leið Alþfl. er og sterk árétting á þeim varnaðarorðum sem ég lét falla hér fyrr í dag.