Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 15:12:00 (4475)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 6. þm. Reykn. hefur áður lýst því yfir að það sé rétta leiðin fyrir Íslendinga að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Hins vegar er það ítrekað við þessa umræðu og ég vil spyrja af því tilefni: Telur hv. þm. að sá sjávarútvegssamningur sem við erum með í höndunum núna og erum að fjalla um á Alþingi þessa dagana gefi tilefni til að halda að mál Íslendinga fái þá meðhöndlun, sjávarútvegsmálin, sem Íslendingum hentar við aðild að Evrópubandalaginu eða er hann þeirrar skoðunar að við eigum að setja sjávarútveginn og auðlindirnar undir sameiginlega stjórn Evrópubandalagsins? Telur hann að þessi samningur gefi tilefni til bjartsýni um að við fáum okkar sérstöðu viðurkennda?