Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 15:17:55 (4481)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst það sérkennilegt að mér finnst eins og menn upplifi ekki alveg nákvæmlega þýðingu þess augnabliks sem við erum núna að upplifa. Það hefur gerst að fyrsti þingmaðurinn stígur fram, kemur úr felum eða út úr skápnum, og segir: Ég vil ganga í Evrópubandalagið.
    Ég sagði hér í sumar í umræðum um stjórnarskrárþátt þessa máls, sennilega í september, að ég teldi áður en þetta ár væri allt mundu koma upp tillögur hér á Alþingi um það að Ísland gengi í Evrópubandalagið. Og ég man eftir að hv. þm. Ragnar Arnalds var með svipaðar spár fyrir nokkrum sólarhringum. Ég tók eftir því að margir töldu þá hér í salnum að þetta væri fráleitt og ég hef tekið eftir því m.a. í umræðum í gærkvöldi í ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að hún taldi að Evrópskt efnahagssvæði væri vörn gegn aðild að Evrópubandalaginu.
    En þá gerist það að hér rís upp maður, málsmetandi leiðtogi Alþfl., formaður fjárln. Alþingis Íslendinga, og segir: Við eigum að ganga í Evrópubandalagið. Þetta eru vissulega kaflaskipti þessa máls sem vonandi svipta hulunni frá augum þeirra sem hafa verið blindir, m.a. þeirra sem hafa talið ástæðu til að láta sér nægja það dapurlega hlutskipti að sitja hjá í þessu máli.
    Hv. þm. vitnaði til þeirra manna sem sátu í dýflissunni á Bessastöðum. Hann nefndi lítið Ásgrím Jóakimsson sem neitaði að róa yfir Skerjafjörð með kóngsins mann. Mér heyrðist að hér í ræðustólnum áðan væri sá maður á Alþingi Íslendinga sem gjarnan gæti hugsað sér að vera kóngsins maður.