Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 15:20:14 (4483)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Aðalatriðið, virðulegi forseti, í þessu máli er að hér hafa orðið kaflaskil í meðferð málsins á Alþingi. Hér hefur stigið fram maður sem hefur sagt: Við eigum að ganga í Evrópubandalagið, og það er ljóst að miðað við þann málflutning sem uppi hefur verið í þessu máli, þá talar hann fyrir fleiri menn í stjórnarflokkunum. Hér er í raun og veru um að ræða forspá um það sem koma skal ef menn hafa ekki döngun í sér til að fella samninginn um Evrópskt efnahagssvæði og henda honum á ruslahauga sögunnar eins og mörgum öðrum ónýtum pappírum.