Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 16:14:34 (4492)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir orðaði það svo að viðskipti okkar við Evrópubandalagið væru orðin hættulega mikil og við ættum að leita til annarra átta.
    Nú er það einungis svo að það er eðli markaðarins að við sækjum á þá markaði sem gefa okkur best verð fyrir þær vörur sem við höfum að selja. Það er ástæðan fyrir því að við leitum svo mikið á markaði Evrópubandalagsins. Hún orðaði það líka svo að við ættum að freista þess að sækja fremur í ríkari mæli inn á aðra markaði. Þarna er komið að miklum misskilningi sem gætir oft í málflutningi stjórnarandstöðuþingmanna gagnvart EES. Það er nefnilega ekkert í samningnum um EES sem kemur í veg fyrir að við gerum það líka, að við sækjum líka á markaði í Asíu og í öðrum fjarlægum áttum. Það er hárrétt hjá hv. þm. að við eigum að reyna að festa rætur á sem margvíslegustum og fjölbreyttustum mörkuðum og þetta er ein leiðin til þess. Við erum að treysta okkar markaðsstöðu í Evrópu en það dregur alls ekki úr því að við höldum áfram að gera strandhögg annars staðar.
    Þingmaðurinn orðaði það líka svo að hún virti skoðanir þeirra sem fylgdu samningnum um EES að málum, en sagðist vera orðin þreytt á því að heyra menn tala um að af því væri mikill ávinningur og spurði: Hver er þessi ávinningur? Ég verð nú að segja það eftir allar þær umræður sem hér hafa átt sér stað, þá er ég afskaplega hissa ef hv. þm. hefur tekist að komast hjá því að heyra það tuggið upp hér mörgum, mörgum sinnum og ég spyr hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, tekur hún ekkert mark á því sem forvígsmenn allra helstu samtaka í atvinnulífi landsmanna hafa verið að segja? Þau samtök eru öll á bandi EES. Telur hún að hún eða stjórnarandstaðan sé betur í stakk búin heldur en forvígismenn atvinnulífsins til þess að dæma þetta?
    Mig langar síðan líka aðeins, af því að hún er að spyrja um hver er ávinningurinn af EES, að líta aðeins á sjávarútveginn. Það vill svo til að þær tollalækkanir sem samningurinn færir okkur er geysilega mikilvægar fyrir okkar útflutning á sjávarafurðum. Ég nefni bara tolla af saltfiski sem eru núna í kringum 13% og fara niður í 3,9%. Halda menn virkilega að þessar tollalækkanir munu ekki gerbreyta stöðu okkar á markaðnum? Hvað með saltfiskflök sem er sú vara sem er í hvað bestri sókn á mörkuðum í Evrópu? 20% tollur í dag sem fer niður í 0%. Hvað með fersku flökin sem eru líka í 18% í dag? Tollurinn af þeim fer líka niður í 0%. Þessi vara er líka í geysilegri sókn einmitt á þessum mörkuðum. Það er ekki einungis það að þetta muni færa inn í þjóðarbúið aukinn arð vegna tollalækkananna sjálfra, heldur gera lækkanirnar það að verkum að þessar vörur verða miklu samkeppnishæfari og þar af leiðandi verður auðveldar að ryðja þeim brautina. Þarna er um að ræða nýjar afurðir og þess vegna skapar þetta nýrri og betri sóknarfæri inn á Evrópumarkaðinn, gefur okkur möguleika á að færa inn í þjóðarbúið meiri gjaldeyri fyrir sama afla eða jafnvel minni afla.