Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 16:17:50 (4493)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef margoft tekið það fram í mínum ræðum að ávinningurinn er fyrst og fremst þessar tollalækkanir, þær eru auðvitað stærsti kosturinn við þennan samning. En við hljótum að spyrja á móti, hvaða kostnaður fylgir samningnum? Kemur þetta inn um einar dyr og fer út um aðrar? Það er ein af þeim spurningum sem mér finnst ég aldrei hafa fengið svör við. Hver er kostnaðurinn við Evrópska efnahagssvæðið? Og þar er maður ekki bara að tala um beinan kostnað ríkisins, það sem ríkið þarf að leggja út, heldur líka fyrirtækin. Hvað kostar markaðssóknin? Hvað kostar það íslenskt fyrirtæki að uppfylla þau skilyrði sem samningurinn setur? Og ég get nefnt það aftur að einn af starfsmönnum Rafmagnsveitna ríkisins benti mér á það að þeir þurfa að kalla til evrópska sérfræðinga til þess að hægt sé að faggilda það sem þeir þurfa að faggilda hjá sér. Við þurfum að efla samkeppnisstofnunina og það er eitt og annað sem fylgir þessum samningi fyrir utan ferðakostnað og nefndalaun og guð veit hvað mun fylgja. Mér finnst það galli þegar svona stórt mál er til meðferðar að menn skuli ekki reyna að vega og meta kostnaðinn og ég hef miklar efasemdir um að hinn fjárhagslegi ávinningur, sem er ein helsta röksemdin fyrir því að við eigum að ganga inn á hið Evrópska efnahagssvæði, ég hef miklar efasemdir um að hann standist.
    Ég ætla ekki að setja mig á háan hest gagnvart forvígismönnum atvinnulífsins. En mér hefur nú fundist íslenskir athafnamenn og ekki síður íslenskir stjórnmálamenn ansi gleymnir í sínum ákvörðunum og ég nefni þar áform um álver og atvinnu af ýmsu tagi sem alltaf á að skila hér stórgróða á stundinni en hefur fært okkur miklar skuldir og mikla erfiðleika. Ég er ekki viss um að þessir menn sjáist alltaf fyrir í því sem þeir eru að gera.