Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 16:25:38 (4497)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Það var mjög sérstakt frammíkall hjá hv. samþingmanni mínum í Norðurl. e. en ég get hins vegar upplýst hann um það að ég mun lesa seinna í ræðu minni upp úr stefnuskrá Alþfl. greinargerð sem var afgreidd og staðfest á fundi miðstjórnar Alþb. 28. júní 1992 og færa þar nokkur rök fyrir því að líklega ef hv. þm. hefur staðið að þessari samþykkt hér, þá er nú ekki breitt bil á milli skoðana minna og hv. þm. og honum væri sæmra að spara sér hortugheitin. ( Gripið fram í: Það var nú Jón Baldvin.)
    Það vill þannig til að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var nú reyndar einn af þeim sem sat í fyrrv. ríkisstjórn og sömuleiðis annar hv. þm., Svavar Gestsson, sem líður hér illa undir umræðunni ( SvG: Ég er næstur.) og sem leiddu þetta mál þangað til fyrir þrem missirum síðan.
    Virðulegi forseti. Ég hefði hins vegar gjarnan viljað sjá hæstv. utanrrh. í salnum meðan ég flyt þá

ræðu sem annars á ekki að vera löng. Ég er ekki vanur að gera mjög stífar kröfur til þess að ráðherrar sitji undir ræðum mínum, en eftir makalausa ræðu hæstv. utanrrh. í gær mun ég, virðulegi forseti, gera ákveðið þá kröfu að hæstv. utanrrh. komi hér til salar. ( Forseti: Forseti vill geta þess að hann hefur gert ráðstafanir til þess að hæstv. utanrrh. verði hér í þingsalnum.) Ég met það og hlýt að reikna með því að hæstv. ráðherra birtist hér innan skamms.
    Meðan ég bíð eftir því að hæstv. ráðherra komi ætla ég að fara örfáum orðum um annars vegar fjölþjóðasamninga og hins vegar alþjóðasamninga. Mér finnst nefnilega oft og tíðum gæta verulegs tvískinnungs í málflutningi manna sem segja að alþjóðaviðskiptasamningar eru af því góða, en segja í næstu setningu að fjölþjóðasamningar, sem þá eru hugsaðir utan um viðskipti á þrengri svæðum, séu alfarið af því illa. Þetta er ekki svona einfalt. Ef menn eru þeirrar skoðunar að við sem mikil viðskiptaþjóð eigum mikið undir því að það takist góðar verklagsreglur um viðskipti í heiminum, þá hljótum við að skoða bæði alþjóðasamningana, svo sem GATT-samningana og ekki síður þrengri samninga. Og það er líka svolítið sérstakt að heyra menn tala mjög jákvæðum rómi um Bandaríkin sem eru nú kannski stærsta viðskiptaheild sem við þekkjum í heiminum í dag, tala mjög jákvæðum rómi um Bandaríkin í sama orðinu og menn ausa sér aftur yfir viðskiptasamstarf í Evrópu.
    Nú tek ég það skýrt fram að það er margt í uppbyggingu Evrópubandalagsins sem er mér mjög ógeðfellt og ég hef talið það skyldu mína sem þingmanns að beita mér eins og ég get gagnvart því að við sogumst ekki inn í Evrópubandalagið. Á því byggði ég m.a. fyrirvara minn þegar ég gerði grein fyrir mínu atkvæði við atkvæðagreiðslu hér fyrir tveim dögum síðan. En ég held að um leið og menn ræða hina jákvæðu þætti Bandaríkjanna, þá ættu menn aðeins að skoða félagslegu innviðina þar, þar sem hefur verið hent fyrir róða þeim félagslegu grundvallarþáttum sem þó Evrópuríki almennt, Íslendingar og nánast allar Vestur-Evrópuþjóðirnar, vilja halda í heiðri.
    Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. utanrrh. er kominn í salinn. Ég vil í fyrsta lagi lesa aftur upp fyrir hæstv. ráðherra tilvitnun sem ráðherra hafði í ræðu mína þegar ég gerði grein fyrir mínu atkvæði hér fyrir tveim dögum síðan. Virðulegi forseti. Það sem ég sagði þar var:
    ,,Það er skoðun mín að það að fella samninginn á Alþingi á þessu stigi geti skaðað hagsmuni okkar í þeim viðræðum sem fram undan eru auk þess sem það muni gefa þeim öflum sem vilja sækja um aðild að EB byr undir báða vængi.``
    Hér lauk hæstv. ráðherra tilvitnun sinni en áfram sagði ég: ,,Ég vil hins vegar ekki bera pólitíska ábyrgð á vinnubrögðum núv. ríkisstjórnar og þá sérstaklega hæstv. utanrrh. við lokafrágang samningsins og sit því hjá.``
    Ég vil einnig undirstrika það að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur traustan meiri hluta til þess að bera þetta mál fram þannig að hún þarf engan stuðning annarra til þess.
    Virðulegi forseti. Ég tel að það tækifæri sem hæstv. utanrrh. hafði í gær í opnum sjónvarpsumræðum við 3. umr. samningsins hafi verið eitt stærsta tækifæri sem stjórnmálamaður hefur fengið lengi. Ég mundi kannski orða það sem tækifæri aldarinnar. En því miður, hæstv. ráðherra reis ekki undir því og hann klúðraði því algjörlega. Það sá maður m.a. með því að horfa á svip hv. þingmanna Sjálfstfl. undir ræðu hæstv. utanrrh. í gærkvöldi. Hæstv. ráðherra hafði það tækifæri eftir að atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. var lokið að byggja brú milli hinna pólitísku afla sem að mínu mati liggja ekki svo langt hvert frá öðru í þessu máli. Í stað þess þá kaus hæstv. ráðherra að nota þetta tækifæri til þess að ausa alþingismenn og Alþingi auri. Ég ætla ekki að ræða frekar um ummæli hans um Alþingi, margítrekuð síðustu vikur, en virðulegi forseti, það er mín skoðun að hæstv. ráðherra hafi með makalausri ræðu sinni í gærkvöldi gert öll fyrri ummæli sín þar að lútandi dauð og ómerk, því við vorum svo lánsöm að þessi ræða var flutt í beinni útsendingu og vegna áhuga fólks á málinu þá horfði stór hluti þjóðarinnar á þennan málflutning.
    Það væri langur lestur að lesa þau ónefni og niðrandi ummæli sem hæstv. ráðherra hafði um einstaka þingmenn, fyrrv. ráðherra, þjóðréttarfræðinga, prófessora og fleiri þar sem hann kom við í sínu máli. Ég endurtek það sem ég sagði áður að þessi ræða hans, að mínu mati, dæmir dauð og ómerk öll fyrri ummæli hans varðandi sömu þætti og ég þarf ekki að hafa um það frekari orð.
    Hæstv. ráðherra hafði nefnilega það tækifæri þarna að móta og leggja línurnar fyrir framtíðina því það er það sem skiptir öllu máli í dag hvernig við stöndum að samningum okkar við Evrópu á næstu mánuðum og missirum. Um það hygg ég að nánast allir þingmenn séu sammála og ég mun m.a. til staðfestingar á máli mínu vitna seinna í yfirlýsingu þingflokks Alþb. og alls ekki á nokkurn niðrandi hátt. Þetta er það sem skiptir máli í dag og ég sagði við 2. umr. í ræðu minni að ég teldi að það væri grundvöllur fyrir verulegri pólitískri sátt í málinu sem byggðist á því að samningnum um EES --- það liggur fyrir að hann á hér traustan pólitískan meiri hluta --- yrði breytt í tvíhliða samning við Evrópubandalagið og Alþingi lýsti samhliða yfir þeim vilja sínum að þannig yrði unnið að málum, að samhliða aðildarviðræðum hinna þjóðanna í EFTA færu fram viðræður okkar Íslendinga um að breyta EES hvað okkur snertir í tvíhliða samning við Evrópubandalagið.
    Ég tel að með einfaldri þál. frá Alþingi Íslendinga þar sem þessi stefna kæmi fram, og ég er þess fullviss að hún á mikinn meiri hluta, væri hægt að færa málið í þennan farveg. Ég beini þeirri spurningu beint til hæstv. ráðherra, hann hefur enn tækifæri, hvort hann sé tilbúinn til þess að beita sér fyrir slíku.
    Ég vitna einnig í ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur í gær, að mínu mati einhvers samviskusamasta og duglegasta þingmanns Alþingis, þar sem hún kom einmitt fram með þessa stefnu, að samningurinn um EES, ef hann yrði mótaður í þá veru að breytast í tvíhliða samning við EB, væri það sem þjóðinni væri ásættanlegast. Ég vil nú biðja hæstv. ráðherra að taka verulegt mark á orðum þessa samþingmanns síns.
    Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að ég mundi rökstyðja það frekar að ég teldi að fyrir leið sem þessari væri mikill pólitískur vilji. Alþb. ályktaði um samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði á sl. sumri. Þeirra ályktun fólst í því að það bæri að hafna samningnum, hann væri ekki lengur í takt við tímann og við ættum að leita eftir tvíhliða samningum við EB. Þessa skoðun Alþb. virði ég fullkomlega, ég held að hún hafi verið sett fram á heiðarlegan hátt. Það vantar hins vegar verulega á það að allir hv. þingmenn Alþb. hafi það umburðarlyndi að geta virt skoðanir annarra. Það hefur kannski lýst sér best í ummælum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar þegar hann hefur komið upp með andsvör.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, sem ég sakna að er ekki hér í salnum, hefur sagt réttilega að í þessu máli tali þingflokkur Alþb. einum rómi og það er alveg hárrétt. En hver er þá þessi eini rómur þingflokks Alþb.? Ég hafði ekki áttað mig á því að fullu, ég vissi um það að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson skrifaði í Morgunblaðið í sumar og birti þar drög að tvíhliða samningi. Ég hafði hins vegar heyrt að nokkrir hv. þm. flokksins vildu ekki fullkomlega kannast við þann gjörning, þannig að ég var eilítið ráðvilltur gagnvart því hver væri sú stefna sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur margítrekað vitnað í sem sameiginlega stefnu þingflokks Alþb. Það var ekki fyrr en í morgun að ég lét senda mér ofan frá skrifstofu Alþb. þennan bækling sem heitir ,,Sjálfstæður samningur Íslands og EB, framtíðarskipan samskipta Íslands og Evrópubandalagsins, greinargerð þingflokks og framkvæmdastjórnar``. Hér stendur undir: Afgreitt og staðfest á fundi miðstjórnar Alþb. 28. júní 1992.
    Í lok bæklingsins segir svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Í tvíhliða samningi Íslands og EB verður m.a. byggt á hugmyndum um frjálsa vöruflutninga, fólksflutninga, þjónustustarfsemi, fjármagnsflutninga og almenna samkeppni.`` --- Þarna er fjórfrelsið komið eins og það leggur sig. Ég vil gera þetta á fullkomlega heiðarlegan hátt og til þess að þeir njóti fulls sannmælis þá stendur hér áfram:
    ,,Auk þess sem hafðar verða til hliðsjónar reglur Norðurlanda um vinnumarkað og búseturétt og afdráttarlaus réttur Íslendinga til að skipa forræði og eignarhald á auðlindum til lands og sjávar verði tryggður með sérstökum lögum.`` En eftir stendur að samningurinn á að byggjast í grundvallaratriðum á fjórfrelsinu sem veitir þann rétt m.a. til annarra íbúa á svæði Evrópubandalagsins, rétt til vinnu og starfsemi hér á landi.
    Auk þess segir hér um það, og þar er ég þeim alveg sammála, að ef við gætum komið málum í þetta horf þá mundi það auðvelda mikið framkvæmdina. Þar segir um framkvæmdina:
    ,,Framkvæmd tvíhliða samnings milli Íslands og Evrópubandalagsins verði einfaldari í sniðum heldur en samkvæmt EES-samningnum. Eingöngu verði sett á fót samstarfsnefnd um eftirlit og gerðardómi beitt verði deilumál um framkvæmd samningsins ekki útkljáð.`` Síðan segir: ,,Pólitísk vandamál verði leyst í ráðherraviðræðum.`` --- Það er ekkert nefnt að þegar kæmi að pólitískum ágreiningsmálum þá ætti að vera að blanda Alþingi Íslendinga í það, það á að leysast á ráðherragrunni.
    Þetta dreg ég hér fram, virðulegi forseti, ekki til þess að hleypa hér nokkurri hörku í umræður heldur fyrst og fremst til þess að sýna fram á það hvað í raun ber lítið á milli aðila varðandi þetta mál. Því miður hefur hæstv. utanrrh. ekki fengist til þess að taka undir sjónarmið í þessa veru. Ég segi hins vegar að það sem ber á milli mín og þeirrar stefnu sem kemur fram í þessu plaggi Alþb. frá síðasta sumri er ekki annað en það að ég hef talið að það væri ekki raunhæft að ná slíkum tvíhliða samningi öðruvísi en í gegnum viðskiptaþátt samningsins um EES. Það er það eina sem ber á milli. ( Gripið fram í: Stjórnarskráin.) Stjórnarskráin, segir hv. þm, ég hef með vilja, hv. þm., ekki nefnt stjórnarskrána í þessu, ég er að nálgast það sem menn geta verið sammála um. Ég er hins vegar sammála því að það er vafi varðandi stjórnarskrána í þessu máli og auðvitað hefðu menn átt að ganga í það verk að leysa það eins og annað. Það er einu sinni svo að það eru næg ágreiningsefni í okkar þjóðfélagi til að takast á um þó að við settumst niður og leituðum þeirrar lausnar sem sameiginleg niðurstaða gæti verið um varðandi Evrópusamningana. Ég er þess fullviss að hv. þm. Svavar Gestsson er mér sammála í þessu efni og þetta nefni ég vegna þess að hann hefur verið iðinn við að hjálpa mér áfram með framgang minnar ræðu með jákvæðum framíköllum. ( SvG: Ég er næstur.) ( Gripið fram í: Það er óþreyja í honum.) Já, virðulegi forseti, það er komin óþreyja, þetta er eins og með gæðinginn sem bíður eftir að verða hleypt.
    Virðulegi forseti. Ég hef komið á framfæri þeim sjónarmiðum sem mér lágu á hjarta varðandi 3. umr. Ég lýsti þeirri skoðun minni fyrir 2. umr. að ég mundi sitja hjá við atkvæðagreiðsluna. Sú skoðun mín byggist á því sem ég hef verið að lýsa hér áður í minni ræðu að leiðin til tvíhliða samnings okkar við EB lægi í gegnum samninginn um EES. Eftir að við höfum farið fram á það að fara í tvíhliða viðræður samhliða aðildarviðræðum hinna ríkjanna að Atlantshafsbandalaginu, þá gætum við á þeim vettvangi unnið að því að festa í sessi þá fyrirvara sem við viljum hafa en sem var mjög erfitt meðan við vorum í samfloti við hinar EFTA-þjóðirnar. Það vita örugglega allir ráðherrar hæstv. fyrrv. ríkisstjórnar.
    Virðulegi forseti. Ég ítreka svo að lokum spurningu mína til hæstv. utanrrh., hvort hann sé tilbúinn til þess, þrátt fyrir það sem hér gekk á í gærkvöldi, að vinna að því að sá vilji, sem ég tel fullvíst að

sé vilji mikils meiri hluta Alþingis að ganga til samninga um að breyta samningnum í tvíhliða samning okkar við EB, hvort hann vill beita sér fyrir því að sá vilji Alþingis komi fram. Það getur vel verið að það tækifæri sem ég nefndi að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn hafi fleygt frá sér í gærkvöldi sé ekki að fullu liðið hjá.