Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 17:54:33 (4506)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Svavari Gestssyni var tíðrætt um afstöðu þeirra aðila sem sitja hjá og vildu fá nánari skýringu. Ég get ekki skýrt mína afstöðu betur en að lesa, með leyfi forseta, upp hluta af skýringu minni þegar ég gerði gerð fyrir atkvæði mínu fyrir tveim dögum síðan:
    ,,Í dag snýst málið um það á hvern hátt við getum tryggt viðskiptahagsmuni okkar við Evrópu sem best. Ég tel að það verði best gert með því að fara nú þegar fram á að teknar verði upp viðræður um að breyta viðskiptaþætti EES-samningsins hvað okkur Íslendinga varðar í tvíhliða samning við EB. Fyrir því getum við fært full rök og um slíka málsmeðferð gæti að mínu mati náðst pólitísk sátt í þjóðfélaginu. Ég skora á hæstv. forsrh. að beita sér fyrir slíkri málsmeðferð.``
    Síðan held ég áfram: ,,Það er skoðun mín að það að fella samninginn á Alþingi á þessu stigi geti skaðað hagsmuni okkar í þeim viðræðum sem fram undan eru auk þess sem það mundi gefa þeim öflum sem vilja sækja um aðild að EB byr undir báða vængi. Ég vil hins vegar ekki bera pólitíska ábyrgð á vinnubrögðum núv. ríkisstjórnar og þá sérstaklega hæstv. utanrrh. við lokafrágang samningsins og sit því hjá.``
    Hér er mín afstaða alveg skýr og væntanlega einnig alveg skýrt að ég er ekki á nokkurn hátt að aðstoða núv. hæstv. ríkisstjórn eins og þingmaðurinn lét að liggja. Og hann spyr hvað ég hefði gert ef þeir hefðu ekki haft meiri hluta. Það er einfalt mál, hv. þm. Þá hefði verið komin upp allt önnur staða í þinginu. Þá hefði verið komin upp sú staða að núv. hæstv. utanrrh. með þann meiri hluta sem hann hefur að baki sér hefði orðið að finna málinu annan farveg. Ég býst við, hv. þm., að við hefðum getað fundið málinu betri farveg undir þeim kringumstæðum því að þá hefði verið komin upp sú staða að bæði ég og hv. þm. Svavar Gestsson, sem vill eins og hann sagði í ræðu sinni gott samband og góða viðskiptasamninga við Evrópu, hefðum getað haft þar einhver áhrif á sem við höfum engin í dag.