Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 18:34:51 (4524)

     Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hef að sjálfsögðu farið yfir skýrslu Þjóðhagsstofnunar og þar kemur greinilega fram að þeir gefa tvö álit. Annað sýnir fram á mikil áhrif og hitt minni áhrif. Og ég hef miklu fremur skilið skýrsluna þannig að mikil áhrif séu ekki varfærnislega metin áhrif. Og ég vek athygli á því að mat Þjóðhagsstofnunar er byggt á þekktri skýrslu sem var gerð fyrir Evrópubandalagið, svokallaðri Cecchini-skýrslu, og hún er orðin mjög umdeild. Það eru fjölmargir þekktir hagfræðingar sem halda því fram að þar séu áhrifin ofmetin. Og m.a. telja menn að það hafi sannast á síðasta ári og muni sannast á því ári sem nú er hafið að efnahagsleg áhrif verði ekki eins mikil eins og þessi mæti maður mat það. Ég man nú ekki í fljótu bragði hvað hann heitir sá þekkti ameríski hagfræðingur sem mjög hefur verið leitað til hjá MIT. ( Gripið fram í: Krugman.) Krugman, já, ég þakka hv. þm. fyrir. Hann er talinn einhver sá allra mætasti og athyglisverðasti sem um þetta hefur rætt. Hann telur að áhrifin séu e.t.v. þrefalt of hátt metin í þessari skýrslu, þau séu sem sagt aðeins um einn þriðji. Og reyndar kom þetta nokkuð fram í umræðu hér á Alþingi um gjaldeyris- eða ECU-hugmyndina sem hér kom fram í fyrra og þá birtist með í skýrslu Þjóðhagsstofnunar skýrsla eða álit þess manns. Svo ég get nú ekki tekið undir það að þetta sé varfærnislegt álit, ég held að það sé langtum fremur á hinn veginn.