Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 18:39:24 (4527)

     Kristín Einarsdóttir (um þingsköp) :
    Herra forseti. Núna rétt áðan kom til mín þingvörður og tilkynnti mér að á morgun ætti ég að mæta hér til fundar kl. hálfellefu. Þessu hafði ég alls ekki reiknað með. Ég hafði ekki reiknað með að það yrði fundur hér á morgun kl. hálfellefu.
    Á mánudaginn var talað um það við okkur þingmenn að við mundum byrja hér kl. hálfellefu á hverjum degi og reiknað með að vera hér til kl. sjö sem ég held að við höfum verið alla vikuna og ég hafði ekki reiknað með að neinn fundur yrði hér á morgun og því vil ég mótmæla. Á morgun hefur verið boðað til samráðsfundar hjá Kvennalistanum. Það koma konur af öllu landinu til fundar hér í Reykjavík og okkur hafði ekki einu sinni hugkvæmst að það þyrfti að athuga það sérstaklega vegna þess að ekki var reiknað með neinum fundum hér á morgun. Og ég hélt að það væri venja að taka tillit til þess þegar slíkir fundir eru hjá flokkunum.
    Ég minnist þess þegar ég var í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili, þá var ég reyndar í stjórnarandstöðu með fleirum en einum flokki eftir því hvenær það var, en þegar ég var í stjórnarandstöðu með Sjálfstfl. var alltaf tekið fullt tilliti til þess sem talsmenn hans sögðu. Ef fundum var mótmælt hvort sem það voru næturfundir, kvöldfundir eða fundir á laugardögum þá var tekið tillit til þess, ég man ekki betur. Mér finnst það mjög sérkennilegt að núna þá er manni tilkynnt um fundi bæði um helgar, á kvöldin og á nóttunni og það skiptir engu máli þótt maður mótmæli. Og ef maður mótmælir þá er það talið röfl, málþóf eða ég veit ekki hvað. Mér er bara stórlega misboðið. Hvað er því til fyrirstöðu að ljúka þessu máli t.d. á mánudag eða þriðjudag? Einhvern tímann var talað um að hæstv. utanrrh. færi af landi brott á sunnudaginn og kæmi heim á mánudag eða þriðjudag hélt ég. Er ekki hægt að ljúka þessu máli þá? Það er ekki svo mikið sem liggur fyrir að við getum ekki lokið öllum þeim málum sem fyrir okkur liggja í næstu viku. Og hvers vegna er verið að boða okkur til fundar ef við eigum að ljúka öllum málum í þessari viku? Var ekki reiknað með að við yrðum a.m.k. í næstu viku líka? Mér þykir þetta mjög sérkennileg vinnubrögð, virðulegur forseti. Og ég ítreka mótmæli mín við því að ég sé boðuð hér til fundar á laugardegi og sérstaklega með tilliti til þess að Kvennalistinn er með samráðsfund þar sem við erum búnar að boða konur og þingflokkurinn getur þar af leiðandi ekki mætt á þann fund.