Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 18:45:33 (4529)

     Páll Pétursson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Formenn þingflokka áttu fund með forseta kl. fimm. Á þeim fundi varð ekkert samkomulag um fundahald. Allir formenn stjórnarandstöðuþingflokkanna mótmæltu því að halda fund hér á morgun. Það er fáheyrt að halda fund á laugardegi og ég minnist þess ekki að það hafi verið gert nema þá í fullu samkomulagi allra þingflokka. Það hefur einstöku sinnum komið fyrir fyrir þinghlé að fundir hafa verið haldnir á laugardögum en það heyrir algerlega undantekningu til. Ég tel líka að það sé einsdæmi að fundir séu haldnir þegar einstakir stjórnmálaflokkar halda meiri háttar ráðstefnur eða fundi. Mig rekur ekki minni til þess þann tíma sem ég hef setið hér eða verið við hús.
    Forseti tekur sína ákvörðun gegn mótmælum stjórnarandstöðunnar, það vil ég að komi hér fram. Ég vil líka láta þess getið að tveir af þingmönnum Framsfl. eru farnir úr bænum. Þar af er annar, 1. þm. Austurl., á mælendaskrá en fór úr bænum í góðri trú
um að hann gæti flutt sína ræðu eftir helgi. Að minnsta kosti annar þessara þingmanna er að fara til að vera við jarðarför og mér þykir hart ef ég þarf að kalla hann til bæjarins og þá báða snemma dags á morgun vegna þessarar ákvörðunar forseta. En ég vil láta það koma fram, herra forseti, að ákvörðun forseta Alþingis er ekki tekin í samkomulagi við formenn stjórnarandstöðuflokkanna.