Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 18:50:02 (4531)

     Ragnar Arnalds (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég vil að það komi hér fram að þegar þinghald seinni hluta vikunnar hefur verið til umræðu á fundum formanna þingflokka núna í vikunni hefur því ávallt verið andmælt af okkur formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar að fundur yrði á laugardeginum.
    Nú er upplýst að Kvennalistinn heldur mikilvæga ráðstefnu á morgun og ég hygg að það sé alveg föst regla á Alþingi að taka fullt tillit til þess þegar stjórnmálaflokkur er með landsráðstefnu af einhverju tagi sem hann hefur boðað með löngum fyrirvara að þá sé ekki fundur. Ég spyr hvort nokkrum dytti í hug ef Sjálfstfl. ætti í hlut að fundur væri boðaður. Auðvitað væri það aldrei gert undir slíkum kringumstæðum og eru mörg dæmi þess. Ég trúi ekki öðru en forseti þingsins og talsmenn ríkisstjórnarinnar og þeir aðrir sem koma að þessu máli sjái að það er auðvitað mjög gerræðislegt að ætla sér að halda fund á morgun þegar einn stjórnmálaflokkanna hefur boðað mikilvæga landsráðstefnu á sínum vegum á morgun.
    Það hefur verið upplýst að hæstv. utanrrh. sé á förum til útlanda og er ekki nema gott eitt um það að segja að hann ferðist, en ekki trúi ég að hann ætli að vera alla vikuna í burtu og væri æskilegt að hann kæmi og upplýsti hvernig ferðum hans verður háttað. Hann hlýtur að sjálfsögðu að meta það meira að koma mikilvægum málum sem hann flytur fram, bæði EES-málinu og sjávarútvegssamningnum og enginn trúir því að hann ætli að vera í burtu alla næstu viku. Því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að þau mál yrðu tekin fyrir þegar hann kemur aftur. Það hlýtur að verða um miðja vikuna og þá ætti að vera hægt að ljúka þessum málum. Við erum því á einu máli um það í stjórnarandstöðunni að andmæla því mjög eindregið

að fundur verði á morgun og það með skýrum rökum.