Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 18:54:07 (4533)


     Jón Kristjánsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hefur komið fram hjá þeim hv. stjórnarandstæðingum sem hafa talað um fundahaldið hér. Það er og hefur verið alveg föst regla að taka tillit til fundahalda stjórnmálaflokka. Svo rík hefð hefur það verið í þingstörfum að það hefur ekki verið bundið við laugardaga heldur hefur ávallt verið hliðrað til þó það væri á venjulegum virkum dögum, fimmtudögum eða föstudögum. Þetta er alveg ný regla sem er tekin hér upp og auðvitað er þetta yfirgangur, það er ekki hægt að segja annað. Hér á allt að snúast í kringum það að hæstv. utanrrh. er að fara úr landi á sunnudaginn. Ég hlýt að benda á að hæstv. utanrrh. lítur ekki á erindi manna úr landi stórum augum ef við hugsum til ræðu hans í gærkvöldi þar sem hv. 8. þm. Reykn. var fjarstaddur í gærkvöldi og hæstv. utanrrh. notaði báða ræðutíma sína til þess að ráðast á hann fjarstaddan fyrir að vera erlendis. Þetta er náttúrlega alveg einstök framkoma því að mér er kunnugt um að hv. 8. þm. Reykn. var staddur erlendis sem fulltrúi þjóðar sinnar þó á öðrum vettvangi væri en á vegum ríkisstjórnarinnar. Það hlýtur því að vera að hæstv. utanrrh. geti breytt þessum áformum sínum, a.m.k. leit hann ekki stórum augum á erindi hv. 8. þm. Reykn. úr landi. Því er óþarfi að fara fram með offorsi vegna þessa og þetta þinghald orðið undarlegt. Fundur hófst kl. hálfellefu í morgun og svo á að halda áfram hér til klukkan átta í kvöld og byrja aftur kl. hálfellefu á morgun. Mjög undarlegur háttur er hafður á þessu og ekki síst er auðséð á þessum umræðum að þetta hefur ekki verið borið undir forsætisnefnd heldur, hún hefur ekki samþykkt þessa skipan sem heild.