Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 19:04:53 (4537)

     Kristín Einarsdóttir (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég veit ekki hvernig ég á að taka því þegar talað er um fundi Kvennalistans með svo mikilli lítilsvirðingu. Ég vil benda hv. 8. þm. Reykv. á að við höfum ekkert sem heitir miðstjórn eða neitt þess háttar þannig að hann getur kannski reynt að samsvara samráðsfundum Kvennalistans miðstjórn síns flokks. Ég viðurkenni að við erum heldur færri á þingi en sjálfstæðismenn eru, en það breytir ekki því að við eigum að hafa a.m.k. álíka mikinn rétt þó þeir þykist hafa meiri rétt en við. Mér þótti leiðinlegt að heyra hvernig hann talaði um fundi (Gripið fram í.) --- þrisvar til fjórum sinnum á ári, já. ( GHH: Landsfundur sjálfstæðismanna er á tveggja ára fresti.) Ég sagði miðstjórn. (Gripið fram í.) Eða fulltrúaráðsfundir. Ég veit ekki hvað þetta allt saman heitir. En ég kom hérna vegna þess að ég taldi að þetta væri það mikilvægt mál sem við erum að ræða, aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði, og þess vegna get ég ekki verið á báðum stöðum. Ég ætlaði að sjálfsögðu að taka Alþingi fram yfir. Það er þess vegna sem ég var að kvarta því að mér þótti mjög slæmt að geta ekki verið á fundi hjá Kvennalistanum, ég hélt að ég hefði skýrt það áðan að mér þætti mjög slæmt að geta ekki verið þar vegna þess að ég tel að ég eigi að vera hér. Það er til þess að skýra þetta út sem ég kveð mér hljóðs um þingsköp. Mér finnst mjög slæmt að geta ekki verið þar þannig að þingmaðurinn hlustaði ekki almennilega á það sem ég sagði.
    En ég vildi fyrst og fremst benda á það að einhvern tímann fyrir jól var talað um það að hæstv. utanrrh. þyrfti að fara á fund --- mig minnir að það hafi verið sagt 9. og 10. jan., það er kannski búið að breyta því í 9., 10., 11., 12., 13., 14. og 15., en það var talað um 9. og 10. Eftir mínu dagatali þá er það á morgun og hinn daginn. Síðan var mér sagt að það væri á sunnudaginn, það er 10., og þá reikna ég með að það sé 10. og þá hugsanlega 11. og þá kemur hann auðvitað á þriðjudaginn og þá ljúkum við þessu máli. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við getum lokið öllum þeim málum og þeim verkum sem við ætluðum okkur að gera með eðlilegum hætti í næstu viku. Við þurfum ekkert að vera að vinna á kvöldin eða um helgar, við getum gert það bara í næstu viku. Þetta eru ekki það mörg mál. Okkur verður ekki skotaskuld úr því, sérstaklega ef við samþykkjum að mæta kl. hálfellefu og vera til sjö. Það er meira en nógur tími ef ég get metið málin rétt. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við tökum önnur mál á mánudaginn meðan hæstv. utanrrh. er í burtu og e.t.v. þriðjudaginn ef hann er þá líka í burtu. Mig minnir að einhvern tímann hafi verið talað um 14. jan., mitt dagatal segir að það sé ekki fyrr en undir lok næstu viku, þannig að það sé allt í lagi ef þessi 14. er svo heilagur dagur fyrir þetta mál þá ættum við örugglega að geta lokið því fyrir þann tíma ef það er alveg nauðsynlegt.