Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 19:08:07 (4538)

     Eyjólfur Konráð Jónsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það er aðeins ein lítil spurning og hún er svona: Hvað er það sem knýr á um að viðhafa þessi óeðlilegu og óvanalegu vinnubrögð? Ég veit ekki til að það sé neitt sem knýr á um það. Ég held að hitt væri hyggilegra að við hefðum nokkurt tóm til að átta okkur á gjörbreyttri aðstöðu í Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópuráðinu sjálfu og við þurfum öll að huga að málum. Ég sé nákvæmlega ekkert sem getur knúið á um þessa ráðabreytni nema þá það að ráðherrann þurfi að fara út og að sjálfsögðu er hægt að bíða eftir honum í einn eða tvo daga. Er nokkur maður sem lætur sér detta það í hug að í öllu þessu Evrópusamstarfi núna þá gerist eitthvað sem knýr á um það að við fundum núna stíft? Ég sé ekki hvað það væri. Það er að vísu þannig að Spánverjar hafa dregið sig algjörlega út úr viðræðunum og það eru gjörbreytt vinnubrögð. Æskilegast væri fyrir okkur auðvitað að við gætum fengið nokkrar vikur til að átta okkur á öllum þessum breyttu aðstæðum og væri best fyrir alla aðila. Þetta sem nú er að gerast, að stjórnarandstaðan mótmælir því að þetta gangi svona til, er auðvitað ekki til þess að auðvelda vinnubrögð. Mér er það algerlega ljóst. Ég hef lagt það til í mínum flokki og því verið vel tekið að menn reyndu nú að hægja á og ræða saman og forustumenn allra flokka settust niður og tækju sér gott tóm til þess að reyna að leysa úr málum. En spurningin er: Hvað er það sem knýr á? Ég fæ ekki séð hvað það er.