Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 10:43:42 (4548)


     Jón Kristjánsson :
    Frú forseti. Þessi fundahöld í dag eru auðvitað dæmigerð um þá málsmeðferð sem verið hefur í þessu máli hjá hæstv. ríkisstjórn sem veitir því forustu. Það er rétt sem hér hefur komið fram að auðvitað rekur engin nauður til að ljúka þessu máli í dag og ég mun koma að því síðar í þeim orðum sem ég vildi segja við þessa umræðu.
    Þessi 3. umr. þessa stóra máls hófst með umræðu í fyrrakvöld sem var útvarpað og sjónvarpað til allrar þjóðarinnar og þar fékk hæstv. utanrrh. óvenjulegt tækifæri. Hann er sannfærður um það, hæstv. ráðherra, að þetta sé góður samningur og það efast enginn um það að hann hefur eytt mörgum vinnustundum í þennan samning um árabil og er að kynna þennan afrakstur sinn fyrir þjóðinni.
    Ef ég hefði verið í hans sporum þá hefði ég notað þennan ræðutíma til þess að reyna að sameina þjóðina um þennan gerning ef unnt er, eða a.m.k. slá á þær deilur sem eru í þjóðfélaginu um þennan samning eins og allir vita. Það var mikið tækifæri fyrir hæstv. utanrrh. að reyna að beita sinni mælsku í það og sannfæringarkrafti að sameina þjóðina eða reyna að sameina hana um þetta mál. En það var ekki aldeilis svo að slík leið væri farin. Ræða hæstv. ráðherra í málinu var alveg með endemum. Það var ausið fúkyrðum í allar áttir, eins og hér hefur komið fram í umræðu í gær, og það sem var verst var að í ræðunni var talað niður til bæði stjórnmálamanna og fræðimanna sem hafa vogað sér að gagnrýna þetta mál eða benda á einhverjar aðrar leiðir heldur en hæstv. ráðherra eru þóknanlegar. Ég var steinhissa þegar þessi ræða hófst og ég er undrandi enn.
    Ég hef ekki eytt löngum tíma þingsins í þetta mál. Þó gerði ég nokkuð ítarlega grein fyrir afstöðu minni við 2. umr. málsins. Hins vegar lét ég svo um mælt við lok þeirrar ræðu að ég mundi fylgjast með framvindu þess og gera grein fyrir afstöðu minni á ný við 3. umr. málsins en ég var einn af þeim sem sat hjá við atkvæðagreiðslu við 2. umr. þess. Ég er enn þá þeirrar skoðunar að sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins þegar hún fer fram.
    Því hefur verið haldið fram að slík afstaða sé stuðningur við ríkisstjórnina í málinu og stuðningur við þá forustu sem er í málinu nú um þessar mundir. Slíkt er auðvitað fjarri öllu lagi. Sú afstaða felur ekki í sér slíkan stuðning. Það hefur komið fram, það er eitt af því sem hefur komið fram síðan ég hélt mína ræðu við 2. umr., að ríkisstjórnin hefur fullan þingstyrk til að koma þessu máli fram án þess að aðrir hafi þar áhrif á. Ríkisstjórnin hefur þingmeirihluta fyrir málinu og í skjóli þess þingmeirihluta getur hún klárað málið þó hún ætli að gera það með slíkum endemum eins og hér virðist vera í uppsiglingu í dag.
    Auðvitað er þessi afstaða mín komin til af því að ég tel að ýmsir þættir þessa samnings séu jákvæðir. Ég mun ekki leggjast gegn honum þess vegna. Hins vegar eru í þessum samningi bæði kostir og gallar og það er allt óvíst um framhaldið þó samningurinn verði að veruleika, mál hafa þróast á þann veg.
    Ég el enn þá von í brjósti að sú framvinda sem verður næstur vikur, næstu mánuði og næstu ár í þessum málum verði á þann veg að þátttaka í Evrópusamstarfinu og sú niðurstaða sem af þessu verður geti forðað okkur frá því að ganga í Evrópubandalagið. Ég er eindreginn andstæðingur þess og sú afstaða mín að leggjast ekki gegn þessum samningi er m.a. til komin af því. Auðvitað er deilt um það mál og um það eru skiptar skoðanir sem og aðra þætti þessa máls. Margir álíta einfaldlega að þetta sé fordyrið að Evrópubandalaginu. Það verður auðvitað ekki fordyrið að Evrópubandalaginu nema stjórnmálamenn og þjóðin vilji það sjálf. Einn af jákvæðu punktunum sem hefur komið fram í þessari umræðu er sá að hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að aðild að Evrópubandalaginu sé ekki á dagskrá nú. Hins vegar hafa komið fram enn á ný aðrar raddir, t.d. í umræðunni í gær um að við eigum að sækja um slíka aðild sem fyrst. Einnig lét hæstv. forsrh. svo um mælt við sjónvarpið að við yrðum að gera okkur grein fyrir af hvaða vagni við værum að missa en fór síðan eftir það viðtal með yfirlýsingu í Alþingi um málið.
    Eins og ég sagði er löng atburðarás eftir í þessu máli og við komumst ekki hjá því að mínum dómi að tryggja samskipti okkar við Evrópu, taka þátt í Evrópusamrunanum með einhverjum hætti og yfirgnæfandi líkur eru nú á því að þetta ferli endi í tvíhliða viðræðum. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það ætti að marka slíka stefnu strax á grundvelli þeirrar tillögu sem hefur verið flutt af hv. þm. Steingrími Hermannssyni og Halldóri Ásgrímssyni og liggur fyrir Alþingi. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að þær tvíhliða viðræður verði að vera í framhaldi af þessu samningaferli vegna þess að það er einu sinni svo að við getum ekki haft þessar viðræður algjörlega á okkar forsendum. Það sitja aðilar hinum megin við borðið. Hins vegar styð ég það eindregið og tel það heppilegasta farveginn eins og nú er málum komið að taka upp tvíhliða viðræður um málið.
    Eins og ég sagði í upphafi þá gagnrýni ég harðlega málsmeðferð ríkisstjórnarinnar á þessu stóra máli og þeirrar forustu sem hefur verið fyrir því. Ég gagnrýni kynningu málsins, hún hefur ekki verið til þess fallin að sameina þjóðina eða slá á deilur. Kynning málsins hefur verið í svart/hvítu og það hefur verið dregið fram að þessi samningur færi okkur allt fyrir ekkert o.s.frv. Auðvitað gerir hann það ekki. Ég lét þess getið í fyrri ræðu minni um málið að með þessum samningi er verið að ganga inn í nýtt umhverfi og ágóðinn af honum fer algjörlega eftir því hvernig er spilað úr því. Það er náttúrlega alveg fádæma málsmeðferð að standa hér í ræðustól, eins og hæstv. utanrrh. gerði í fyrradag, rétta út hendurnar og segja: Fólkið bíður hér fyrir utan eftir þessum 7 milljörðum sem verður ágóði af þessum samningi. Fólkið hér fyrir utan bíður eftir að þingið geri skyldu sína og

samþykki þennan samning í dag, eftir þessum 7 milljörðum sem menn eru að reyna að skjóta á að verði eftir átta ár ágóðinn af þessum samningi. Allir slíkir útreikningar eru út í bláinn og menn skyldu gera sér grein fyrir því. Hins vegar er þjóðin með þessum samningi að ganga inn í nýtt umhverfi sem er ókunnugt að mörgu leyti og það er eðlilegt að menn vilji ganga þar um dyr með varfærni. Það er einnig alveg með ólíkindum að ætla að knýja þetta mál í gegn í dag án þess að endanlegur texti samningsins liggi fyrir. Og það sem meira er, það hefur komið fram í máli hæstv. iðnrh. í umræðum að það standi til að leggja þennan viðbótartexta fram í þinginu í þingsályktunarformi, að viðbótartextinn eigi ekki einu sinni að vera í lagaformi. Ég er ekki lögfræðingur og hef enga sérþekkingu á þessu máli, það getur vel verið að það sé hægt að teygja lagatexta svo að hæstv. ráðherrar geti réttlætt slíka málsmeðferð. Hins vegar er það náttúrlega alveg með ólíkindum ef hæstv. ráðherrar ætla að gera það.
    Eins og fram hefur komið þá rekur engin nauður til að ljúka þessu máli í dag og hv. 7. þm. Reykn., Steingrímur Hermannsson, rakti það í gær og ráðlagði hæstv. utanrrh. hvernig væri skynsamlegt að vinna að þessu máli úr því sem komið er að leggja fram þær breytingar sem verða í brtt. við málið og ljúka því í endanlegri gerð, ljúka þessari umræðu með samninginn í endanlegri gerð. Það er náttúrlega ómögulegt, þó það hefði verði svo, að einhver hefði viljað standa að samningnum, að standa að honum eins og hann er og mér finnst það alveg furðulegt að hæstv. stjórnarliðar skuli ljá samningnum atkvæði sitt eins og hann er úr garði gerður. Þetta atriði eitt ræður ekki minni afstöðu til málsins en ég get náttúrlega með engu móti tekið þátt í slíkri afgreiðslu.
    Ríkisstjórnin gæti auðvitað sýnt það, með því að fara þessa leið, að hún vildi hafa þessa lagsetningu með eðlilegum hætti en það hefur verið teflt á tæpasta vað í fleiru en þessu og mun ég koma örlítið að því síðar.
    Í tengslum við þennan samning eða vegna hans, þó það séu ekki bein tengsl þar á milli, hefur verið gerður tvíhliða samningur um sjávarútvegsmál við Evrópubandalagið, sem reyndar mun verða endurskoðaður, en sá samningur er þannig úr garði gerður að hann eykur ekki traust á þessu máli. En það hefur náttúrlega ljóslega komið fram að það er ekki um jafngildar veiðiheimildir að ræða í þeim samningi og það hefur komið fram í yfirlýsingum hagsmunaaðila í sjávarútvegi í fjölmiðlum að svo væri ekki. Það kom fram í sjónvarpsviðtali við formann LÍÚ að hann var að reyna að verja það að þetta væru jafngildar veiðiheimildir. Hann sagði að það væri ósanngjarnt að reikna verð á loðnu eins og það væri nú vegna þess að loðnuskipin hefðu nógan kvóta og það væri ekkert séð um það hvort þau mundu ná þessum kvóta. Það er náttúrlega þá um leið ekkert séð um það hvort þessar loðnuheimildir eru nokkurs virði og það liggur alveg fyrir. Það er alveg ljóst að þessi samningur er óhagfelldur og hann þarf að breytast og hann eykur ekki traust á þessu máli.
    Það hefur auk þess ekki verið farið fram á tvíhliða viðræður um málið og vil ég enn spyrja hæstv. utanrrh. hvort það standi ekki til að ríkisstjórnin geri þá stefnumótun í málinu. Það væri nær að nota tíma þingsins til þess að ræða þá tillögu en að hafa mál með þeim hætti sem þau eru í dag.
    Það er auðvitað ljóst að deilur um þennan samning eru enn meiri en ella vegna þess að þjóðin treystir ekki núverandi ríkisstjórn til að hafa þá forustu sem þarf í þessu máli. Auðvitað verður að tala af meiri ábyrgð í þessu máli heldur en ýmsir stjórnarliðar hafa gert og það er náttúrlega eitt aðalatriði í þessu sambandi að atvinnuástandið í landinu er með þeim hætti að þjóðin óttast að ganga inn í slíkan frjálsan markað. Innanlandsmálin eru með þeim hætti að þau auka ekki traust á ríkisstjórninni. Þær aðgerðir sem hafa verið gerðar á undanförnum vikum auka ekki traust á því að við séum samkeppnisfærir í alþjóðlegri samkeppni vegna þess að það hefur verið svo að t.d. stærstu lánastofnanir þjóðarinnar treysta ekki á það að þessar efnahagsaðgerðir séu neinn bjarghringur fyrir atvinnuvegina. Vaxtahækkanir hafa dunið yfir, hæstv. ráðherrar hafa ýmsir látið þær skoðanir í ljós, þar á meðal hæstv. iðnrh., að bankarnir hafi gengið of langt í þeim, en það er vegna þess að þær lánastofnanir hafa ekki trú á þeim efnahagsaðgerðum sem gerðar hafa verið. Við erum ekki að fara sameinaðir inn í þetta samstarf. Við erum að fara sundraðir, við erum á leiðinni í innanlandsátök. Því fer nú verr að þess sjást engin merki að ríkisstjórnin ætli að reyna að ná samstöðu innan lands sem er auðvitað grundvallarforsenda þess að það sé hægt að ná einhverri samstöðu í utanríkismálum í þessu þjóðfélagi. Það væri öðruvísi að fara inn í slíkt samstarf með sæmilega þjóðareiningu innan lands, en að fara í það með veikburða atvinnulíf þegar því miður stefnir í átök á vinnumarkaði. Ef ég tala fyrir daginn í dag er það ekki mjög áhugavert, svo ekki sé meira sagt. Það væri nær að fresta þessu máli, klára það með eðlilegum hætti og nota tímann til að reyna að koma á einhverri sátt í þessu þjóðfélagi um efnahagsmál, um atvinnumál þannig að þjóðin gengi eins sameinuð og hægt er í innanlandsmálum að þessu samstarfi sem meiri hluti Alþingis hefur ákveðið eða mun væntanlega ákveða að við skulum ganga í.
    Afstaða mín til málsins í ljósi þessa og fleiri atriða er sú að ég vil ekki taka neina pólitíska ábyrgð á þessum samningi né lýsa trausti á þá forustu sem nú er í þessum málum og ég greiði ekki atkvæði í málinu m.a. þess vegna.
    Hér hefur einnig komið upp, eins og ég sagði áðan, í umræðu í gær ákveðin skoðun frá einum þingmanni Alþfl., hv. 6. þm. Reykn., að við eigum að ganga í Evrópubandalagið, sækja um það nú þegar. Þessi skoðun hefur áður komið fram hjá honum og hann telur ástæðu til að ítreka hana í þessari umræðu ofan í yfirlýsingar hæstv. forsrh. um að slík mál séu ekki á dagskrá. Ég þykist vita af því að hv. 6. þm. Reykn. hefur pólitískt nef að þessi yfirlýsing hans er ekki út í bláinn. Hann er að tala til ákveðins hóps í Alþfl. sem við vitum að eru yngri mennirnir en við vitum ekki hvað þessi hópur er stór. En ég þekki hv. 6. þm. Reykn. það vel að hann gefur ekki slíkar yfirlýsingar út í bláinn, hann er að tala fyrir ákveðinn hóp. Ég vil vara sérstaklega við þessu. Við verðum að ná þeirri stöðu gagnvart Evrópu að við verðum ekki neyddir á einhverju stigi málsins til þess að ganga í þetta bandalag. Þá erum við að ganga skref sem ég get alls ekki sætt mig við. Við erum þá að ganga inn í sameiginlega stefnumörkun í viðskiptum að öllu leyti, við erum að ganga inn í sameiginlega orkustefnu og sameiginlega landbúnaðarstefnu og sjávarútvegurinn mundi fara undir sameiginlega stjórn. Og sá sjávarútvegssamningur sem liggur fyrir gefur ekki tilefni til bjartsýni um það að við munum ná hagfelldri lausn fyrir sjávarútveginn með aðild að Evrópubandalaginu. Því yrði einfaldlega stjórnað í Brussel, fiskveiðum á Íslandsmiðum, hvað mikið mætti veiða og öll yfirstjórnin væri þar vegna þess að stefnan er sameiginleg. Skattamál mundu verða samræmd í slíku bandalagi. Sameiginleg tollastefna. Þá færum við auðvitað að fullu inn fyrir tollmúra Efnahagsbandalagsins. Sameiginleg utanríkisstefna er þar í undirbúningi með Maastricht-samkomulaginu sem smám saman er verið að knýja í gegn og einn gjaldmiðill er í undirbúningi í þessu bandalagi. En ég vildi nota tækifærið til að vara við þessum hugmyndum og ég tel að við þurfum að ná samningi við Evrópuþjóðirnar sem forðar okkur frá því að ganga í þetta bandalag. Ég tel að við verðum að ná slíkum samningum í framhaldi af því samningaferli sem við höfum verið í undanfarið þó mér sé fullkomlega ljóst að um það eru skiptar skoðanir. Hins vegar held ég að um það sé víðtæk samstaða meðal þjóðarinnar að ná tvíhliða samningi við Evrópubandalagið. Deilurnar eru um með hverjum hætti á að nálgast slíkt verkefni.
    Að lokum. Það hefur verið gert nokkuð mikið úr ágreiningi okkar framsóknarmanna í þessu máli og ýmsir hafa komið inn á þau málefni við 3. umr. málsins. Ég tel að það sé of mikið úr þessum ágreiningi gert, það hefur engum í þingflokki Framsfl. komið í hug að greiða atkvæði með málinu eins og það liggur fyrir Alþingi. Það er alveg ljóst. Og það er algjör samstaða um þá skoðun að málsmeðferð ríkisstjórnarinnar sé slæm á málinu og þess vegna vill enginn taka pólitíska ábyrgð á því með því að greiða atkvæði á þann veg. Það var allur þingflokkurinn sammála um það að vísa málinu í þjóðaratkvæði og telur það heppilega leið til þess að reyna að ná niðurstöðu í þessu máli með einhverjum friði og það voru allir sammála um að það þyrfti að breyta stjórnarskránni til þess að taka af allan vafa um stjórnskipulegan þátt þessa máls. Það er fullkomin samstaða um það að marka þá stefnu að taka upp tvíhliða viðræður nú þegar og það er skoðun allra þingmanna Framsfl. að sjávarútvegssamningurinn sé ekki hagstæður og það er alveg fullkomin samstaða um það í þingflokknum að það komi ekki til greina að ganga í Evrópubandalagið.

    Sá skoðanamunur sem er í þingflokknum er eingöngu um það hvernig á að nálgast það verkefni og einnig hvað stjórnarskrárþáttur málsins er alvarlegur því ýmsir þingmenn flokksins hafa ekki getað --- af þeim ástæðum að þeir telja málið brjóta í bága við stjórnarskrána --- annað en greitt atkvæði gegn þessum samningi og við sem hjá sitjum erum fullkomlega sammála um að það þarf að taka af allan vafa í þeim efnum.
    Eins og ég sagði þá er þessu máli langt frá því að vera lokið. Jafnvel þó svo fari, sem ég trúi ekki, að menn hafi ætlað að knýja fram atkvæðagreiðslu um málið á þessum degi, það hefur ekki einu sinni legið í loftinu í vikunni að það yrði þingdagur í dag og hér hafa þingmenn fjarvistarleyfi, en þó svo fari, þó slíkum vinnuaðferðum verði beitt, þá er löng leið eftir áður en þessi mál verða leidd til lykta. Forustan í því starfi skiptir mestu máli. Það getur auðvitað farið svo, mér er það alveg ljóst, að þjóðin þurfi að búa við þá forustu sem er í þessum málum í tvö ár í viðbót, en það verður aldrei lengur, það er alveg útilokað. Auðvitað getur farið svo eins og málum er háttað innan lands að sú forusta hrökklist frá fyrr og það vona ég svo sannarlega. Þá gefst vonandi tækifæri til þess að koma á einhverri trúverðugari forustu fyrir þessu máli. Ég hef deilt á hana hart, ég efast ekkert um það að hæstv. utanrrh. hefur unnið að þessu máli af dugnaði og sannfæringu en hann hefur hlaupið á sig í kynningunni og gengur að þessu máli með allt of miklum bægslagangi núna á lokastigunum eins og ég sagði í upphafi minnar ræðu. Ég vona að það komi önnur forusta í þessu mál og ríkisstjórnin auðvitað hrökklist frá sem fyrst því það væri best fyrir þjóðina og það kæmi ný ríkisstjórn sem tæki öðruvísi á þessu. ( EgJ: Hvernig vill ræðumaður hafa hana skipaða?) Ég ætla ekki að leggja það til á þessu stigi, hv. 3. þm. Austurl., en ég hef auðvitað mínar hugmyndir í því efni.