Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 11:17:02 (4549)


     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. 2. þm. Austurl. var að gera grein fyrir sínu viðhorfi til málsins eins og það blasir við honum við 3. umr. Hann hafði við 2. umr. ekki gengið lengra en svo að greina frá því að hann ætlaði að sitja hjá við þá umræðu málsins og héldi því opnu að því er varðaði 3. umr. hvernig hans atkvæði mundi falla. Nú heyri ég ekki betur en hv. þm. ætli að halda sig við þá afstöðu sem hann hafði við 2. umr. að skipa hér í hjásetuliðið, sem svo er kallað á Alþingi um þessar mundir, og það þrátt fyrir það að ekkert hefur komið fram af hálfu ríkisstjórnar, sem mjög hefur verið lýst eftir af honum og fleiri framsóknarmönnum, um það að ríkisstjórnin vilji beita sér fyrir tvíhliða samningaviðræðum við Evrópubandalagið á þessu stigi máls og kanna það mál.
    Við 2. umr. upplýsti hæstv. forsrh. að engin drög lægju fyrir að bréfi sem minnst er á í áliti meiri hluta utanrmn. til Evrópubandalagsins með fyrirspurn varðandi þetta mál og slíkt bréf yrði ekkert sent fyrr en kannski eftir að samningurinn yrði samþykktur og lægi fyrir. Jafnframt hafa komið fram raddir, mjög einbeittar, um það á þingi að okkur beri að stíga skrefið til fulls eins og það er kallað og ganga í sjálft Evrópubandalagið. Hv. þm. orðaði það svo hér áðan eitthvað á þá leið að það yrði mál síns tíma og færi eftir pólitískri stöðu í landinu og pólitískum vilja. Ég held að hv. þm. hljóti að gera sér grein fyrir því að auðvitað skiptir aðdragandinn og staðan, ef að því kæmi að þetta yrði dagskrármálið sem við stæðum frammi fyrir, ekki minnstu máli, hvernig staðan er þá gagnvart Evrópubandalaginu og það er flestra mat og þar á meðal mjög margra andstæðinga þessa máls í Framsfl. svo ég nefni ekki Alþb. máli mínu til stuðnings að einmitt þessi samningur sé stórt skref inn í sjálft Evrópubandalagið.