Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 13:34:39 (4556)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í því mikla málþófi, sem stjórnarandstaðan hefur sett á svið og á sér stað í augsýn mikils hluta þjóðarinnar sem á þess kost að fylgjast með þessum umræðum í sjónvarpi, í þessu mikla málþófi, sem sett hefur verið á svið til að tefja fyrir þessu mikla hagsmunamáli, er auðvitað komið víða við. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson nefndi sérstaklega umhverfismálin í sinni löngu ræðu, sem við höfum heyrt nær alla hér áður, og það oftar en einu sinni raunar, og það er óhjákvæmilegt að svara fáeinum af þeim rangfærslum sem hann viðhafði hér í þessum ræðustól.
    Í fyrsta lagi er á það að benda að í málflutningi stjórnarandstöðunnar rekur sig eitt á annars horn þegar rætt er um umhverfismálin og Evrópska efnahagssvæðið. Annars vegar er sagt, og það gerði hv. þm. sig sekan um í sinni löngu ræðu, að allt horfi nú til verri vegar í umhverfismálum ef við gerumst aðilar að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Í hinu orðinu er svo viðurkennt að þar verðum við að ýmsu leyti að taka upp mun strangari kröfur en við nú höfum og eins og hv. þm. sagði mundum sjálfsagt gera hvort sem þessi samningur kæmi til eða ekki. Hann verður einungis til að flýta því. Þarna rekur sig hvað á annars horn og svona málflutningur gengur einfaldlega ekki upp. Hann nefndi það að samtök eins og Landvernd hefðu ályktað um þessi mál. Mig rekur raunar ekki minni til þess, nema hvað Landvernd var aðili að norrænni samþykkt sem var svona heldur andsnúin þessu. Hins vegar hefur formaður Landverndar talað um þessi mál og skrifað og ég veit ekki til þess að hann geri það í nafni þeirra samtaka. Það er hins vegar erfitt að greina á milli þess hvort sá ágæti maður er að tala sem varaþingmaður Alþb. eða formaður Landverndar, það er ekki skýrt og það er ekki heppilegt þegar formenn félagasamtaka tala á þann veg sem þessi einstaklingur hefur gert. Hv. þm. sagði líka að Norðurlöndin hefðu tekið forustu á alþjóðavettvangi í umhverfismálum. Norðurlöndin fjögur, ekki Ísland. Það er ótrúleg vanmetakennd sem kemur fram af hálfu þingmanna Alþb. þegar þeir ræða þessi mál, það er ótrúleg vanmetakennd og lítið álit á sinni þjóð sem kemur fram í þeirra máli.
    Hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni skal ég segja það að Ísland hefur tekið forustu meðal Norðurlandanna, meðal Evrópuþjóða og meðal þjóða í veröldinni til að berjast gegn mengun sjávar. Það gerðum við á undirbúningsfundum Ríó-ráðstefnunnar sem haldnir voru í New York í fyrra, það gerðum við í nefndastarfi á Ríó-ráðstefnunni, það höfum við gert varðandi Parísarsáttmálann um varnir gegn mengun sjávar. Og ég neita að hlýða á fullyrðingar eins og hv. þm. viðhafði hér áðan að okkar hlutur liggi eftir í þeim efnum. Þvert á móti höfum við haft þar forustu. Og það er ótrúleg, óttaleg og óheyrileg vanmetakennd og minnimáttartilfinning gagnvart samstarfi við aðrar þjóðir sem einkennir málflutning hv. þm., sem og raunar fleiri þingmanna Alþb. og andstæðinga þessa máls og þá ekki síður Kvennalistans.