Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 15:57:03 (4560)

     Karl Steinar Guðnason (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e., fulltrúi afturhaldsins og vanmetakenndarinnar, hefur lokið máli sínu. Hann hóf mál sitt kl. 13.45 og hefur talað síðan. Og hefur ekkert sagt nema það að hann át upp eftir þingmanni í gær að ég hefði talað um landráð þingmanna í ræðu minni. Mér fannst það ekki svara vert því að ég kannaðist ekki við að hafa sagt það. En ég fór nú samt að efast og gáði í ræðuritun hvort svo hefði verið að ég hefði mismælt mig. Það reyndist ekki vera. Hins vegar voru landráðabrigsl Þjóðviljans býsna algeng.
    Líklegt er að hv. þm. í dag og í gær hafi verið að vísa til þess þegar ég sagði, með leyfi forseta: ,,Þegar EFTA-samningurinn var gerður fullyrtu fulltrúar afturhaldsins og vanmetakenndarinnar að Ísland yrði fyrst og fremst útibú fyrir erlenda auðhringa og veiðistöð fyrir samevrópskan markað.``
    Tilefni þess að ég sagði þetta var það að í grein sem hv. þm. Ragnar Arnalds skrifaði 8. nóv. árið 1969 segir svo, með leyfi forseta: ,,Við skulum ekki gleyma því að Ísland er og verður útkjálki í Evrópu. Ef Ísland rennur inn í stóra efnahagsheild mun að því stefna að landið verði fyrst og fremst útibú fyrir erlenda auðhringa og veiðistöð fyrir samevrópskan markað. Aðildin að EFTA er einmitt spor í þessa átt.``
    Ég vildi að þetta kæmi hér fram, að svona er þetta. Annað er það að þann langa tíma sem hv. síðasti ræðumaður talaði þá notaði hann þó þann tíma til þess að rógbera fjarstatt fólk. Sérstaklega fannst mér athugavert við það er hann réðist að hæstv. ráðherra Jóni Sigurðssyni á svo ósmekklegan hátt að mörgum hér inni í húsinu lá við uppköstum. Nú er þetta vænsti maður í allri daglegri umgengni, hv. þm. Steingrímur Sigfússon, og ég undra mig á því hvernig svona getur gerst.
    En ég vil líka taka fram, ( Forseti: Tíminn er búinn.) ég hef lítinn tíma að vísu, að það er rangt sem hér hefur komið fram að verkalýðshreyfingin hafi lagst gegn EES. Það er rangt, mjög rangt.