Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 17:14:44 (4574)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. óskaði eftir áætlunum um kostnað vegna aðildar Íslands að Evrópsku efnahagssvæði á næsta ári og árum. Upplýsingar um það hafa verið birtar alloft. Nýjustu upplýsingar sem ég hef eru þær að kostnaður frá árinu 1989 fram undir lok ársins 1992 var 161 millj. kr. Þar af um 90 millj. vegna ferðakostnaðar sem ætla má að hefði fallið til að mjög verulegu leyti vegna samskipta við viðkomandi ríki án tillits til EES. Á næsta ári er áætlað þegar samningurinn kemur til framkvæmda að miðað við heilt ár þurfi Ísland að leggja til fé til sameiginlegs reksturs stofnana EES, þ.e. dómstóls og eftirlitsstofnunar, einnig leggja fram fé til þróunarsjóðs EES og loks leggja fram fjármagn til samstarfsverkefna á ýmsum sviðum utan fjórþætta frelsisins sem lúta að rannsóknum og þróunarverkefnum. Kostnaður vegna alls þessa er á næsta ári áætlaður samtals um 110 millj. kr. og skiptist þannig: Eftirlitsstofnun EFTA 14,8 millj., dómstóll EES 5 millj., þróunarsjóður EFTA 60 millj. og samstarfsverkefnin 30 millj. kr. Kostnaður vegna samstarfsverkefna mun aukast á árinu 1994 þegar Ísland verður aðili að fjórðu rammaáætlun Evrópubandalagsins á sviði rannsókna og þróunar og er þá áætlað að hann verði allt að 100 millj. kr. á ári. Á það skal bent að gera má ráð fyrir að þetta fjármagn skili sér aftur í gegnum styrki til rannsóknaverkefna hér á landi og jafnvel gott betur.
    Upplýsingar um hugsanlegan kostnað vegna sveitarfélaga hef ég því miður ekki.