Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 17:18:01 (4576)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegur forseti. Ég hélt að ég væri búin að koma því á framfæri sem ég taldi brýnast en það mætti halda að krötum væri það sérstakt kappsmál að draga umræðu á langinn með því að flytja slíkar dómadagsræður sem þeir hafa gert. Ég ætla ekki að feta í fótspor annarra og svara rangfærslum og hroka hæstv. utanrrh. enda hafa aðrir gert það á fullnægjandi hátt. Ég tek undir með þeim og læt það duga. En sérstaklega harma ég þó þann hroka sem hann sýnir samþingmönnum sínum og þá kvenfyrirlitningu sem hann hefur gert sig beran að.
    Það kom mér ekki sérlega mikið á óvart að heyra yfirlýsingu hv. 6. þm. Reykn. í gær vegna þess einfaldlega að ég var búin að lesa blöðin og hann eins og svo margir aðrir kýs að tala við okkur samþingmenn sína í gegnum blöðin. Þar hafi það komið fram, sem síðan staðfestist, að hann er fyrstur úr felum með sína sannfæringu að það sé heillavænlegast fyrir okkur að fara inn í Evrópubandalagið.
    Ég deili þessari skoðun ekki með honum. Ég er andvíg bæði Evrópubandalaginu og EES og tel mig hafa gert grein fyrir því þótt auðvitað mætti betur gera þar. Hins vegar komu fram allmargar rangfærslur og sleggjudómar í ræðu hv. þm. þannig að mig langar að spyrja virðulegan forseta hvort hv. þm. sé í húsinu. Ég sá hann hér áðan eftir að ég hafði spurt hvort hann hefði fjarvistarleyfi. Ég var að spyrja hæstv. forseta hvort hv. 6. þm. Reykn. væri í húsinu, það er Karl Steinar Guðnason. ( Forseti: Forseti getur upplýst að

samkvæmt töflu er hv. þm. ekki staddur hér í húsinu.) Þar fór í verra, hæstv. forseti. ( Forseti: Það er sjálfsagt að láta kanna hvort næst til hv. þm. í grenndinni ef þess er sérstaklega óskað.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir. Það væri þá bara hans vegna. Ég hef töluverðar athugasemdir við ræðu hans og þar sem ég var búin að spyrja í morgun hvort hv. þm. hefði fjarvistarleyfi, sem hann reyndist ekki hafa og hann var búinn að koma hingað hélt ég að hann vissi alveg að hann átti von á sendingu frá mér. Ég ætla ekki að fara að gerast barnapía fyrir forseta þannig að ég bið bara forseta að meta það hvort hann telji þörf á því þar sem ég geri athugasemdir við ræðu hv. þm. en ég legg ekki áherslu á það sjálf. Ég taldi það bara réttlætismál fyrir þingmanninn sjálfan. En ég held áfram máli mínu og ég ætla ekki að tefja umræðu. Ég hef ekki gert það fram til þessa og er orðin dálítið leið á þeim sleggjudómum sem hafa verið í garð okkar þingmanna.
    Það fyrsta sem ég hnaut um í ræðu hv. þm. var að hann telur að við stjórnarandstæðingar höfum verið að ræða málin án nokkurra tengsla við þá hugsun sem bærist með öðru fólki hjá Evrópuþjóðum. Ég verð að vísa þessu á bug og tel það ekki sæmandi hv. þm. að koma með slíka dóma. Hann hefur greinilega ekki haft mikil tengsl við það sem gerist á Alþingi og ég get varla ímyndað mér að hann hafi þá tíma til að hafa tengsl við það sem er að gerast í Evrópu. Því ég veit ekki betur en t.d. ræðan mín hafi að miklum hluta einmitt fjallað um málefni Evrópu og á þann hátt sem ég taldi að því samstarfi væri best fyrir komið. En ég hef kosið að afsaka hv. þm. með því að hann er formaður fjárln. og hafði í mörgu að snúast fyrir jól. En mér þykir hins vegar hart að hann skuli setja sig í dómarasæti og koma með fullyrðingar sem ekki standast. Ég kæri mig ekki um að sitja undir slíku og því geri ég þessa athugasemd.
    Þetta kom enn fremur fram í umræðu sem hann var viðstaddur en það var útvarpsumræða sl. fimmtudagskvöld. Þar varði ég meira en helmingi míns ræðutíma einmitt í þennan málaflokk. Ég held að þetta sé bara glöggt dæmi um undir hvers konar árásum við stjórnarandstæðingar höfum óverðskuldað setið.
    Ég held að hv. þm. hefði haft gott af að kynnast því einmitt hvernig verið er að ræða um Evrópumálin úti í Evrópu. Þar eru ýmsar hræringar í gangi m.a. meðal krata. Ég tók saman lista sem áreiðanlega væri fróðlegt fyrir hv. þm. að sjá þar sem ég bendi honum með nöfnum á ýmsa góða evrópska krata sem eru ekki einasta andvígir EB heldur einnig EES. Ég ætla bara að nefna hér Inge Staldvik, flokksbróður Gro Harlem Brundtland í Noregi, sem ég veit ekki betur en sé góður og gegn krati og bæði andvígur EB og EES. Ég nefndi í fyrri ræðu minni svissnesku þingkonuna Cecile Bühlman og annan svissneskan þingmann, Andreas Gross.
    Þetta er aðeins sýnishorn af þeim lista sem ég var með tilbúinn fyrir hv. þm. en sé ekki tilgang í að vera að skamma þá sem mæta þar sem ég á ekkert sökótt við þá að því er ég best veit. Ég hef áður sagt að ég tel ekki að það þjóni miklum tilgangi að eiga orðastað við hæstv. utanrrh. þar sem ég tel hann ekki hafa sýnt það í sínum ræðum að hann hlusti á neitt nema sjálfan sig.
    Í öðru lagi kom fram sú rangfærsla hjá hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni að hann taldi að verkalýðshreyfingin í Evrópu tæki Evrópsku efnahagssvæði, EB og innri markaðnum fagnandi. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Það hafa verið skiptar skoðanir innan verkalýðshreyfingarinnar víðs vegar um Evrópu og það ætti honum að vera ljóst eins og öðrum. Ég sit ekki undir slíkum rangfærslum og finnst ekki ástæða til að aðrir þingmenn sitji kannski uppi með þessa hugmynd þar sem hv. þm. á að teljast allfróður, alla vega um verkalýðsmál en hann virðist ekki vera með á nótunum um evrópsk verkalýðsmál. Það sem verkalýðsfélögin og verkalýðshreyfingin hafa verið að gera er það að reyna alltaf að fylgjast vel með. Að því leyti til er rétt að þeir hafa verið virkir í evrópsku samstarfi vegna þess einfaldlega að þar vilja þeir hafa puttana í málunum.
    En máli mínu til stuðnings vísa ég til nýlegrar fréttar í blaði sem seint verður víst vænt um að vera málgagn Evrópusamrunaandstæðinga en það er The European. Þar stendur þann 3. jan. sl., við þau tímamót er innri markaðurinn var opnaður --- það er stór fyrirsögn á forsíðu viðskiptablaðsins --- að þarna væri ógnun við 8 milljónir og á næstu síðu

er nánari fréttaskýring: 8 milljónir í viðbót bætast í hóp hinna atvinnulausu.
    Og vegna þess að hv. þm. nefndi sérstaklega félagsmálasáttmála Evrópu, sem hefur komið hér oftar en einu sinni á dagskrá í tengslum við skýrslu hæstv. félamrh. um Alþjóðavinnumálastofnunina, ILO, vil ég rekja í þessari frétt ummæli Herberts Meier þar sem hann segir sérstaklega í tilefni opnunar innri markaðarins. Þetta er sá sem er næstráðandi í Alþjóðavinnumálastofnuninni, hann er varaformaður, svo ég fari með allt rétt. Hann er hins vegar talsmaður á þessum tímamótum og segir: Ef ekki verður gripið strax til aðgerða þá er raunveruleg hætta á því að 34 millj. verði í lok þessa áratugar án atvinnu í Evrópubandalaginu --- sýnist mér af samhenginu sé frekar en öllum innri markaðnum. Evrópubandalagið vegur þar þyngst alla vega. Hann heldur áfram: Sá skaði --- hann segir: the pain, sársauki, sem við virðumst í þann mund að verða fyrir líkist ekki öðru en plágum og drepsóttum sem hafa farið yfir önnur meginlönd.
    Þetta, hæstv. forseti, með leyfi þínu var tilvitnun úr hinu virta blaði The European sem ég held að seint verði talið málgagn Evrópusamrunaandstæðinga. Þetta finnst mér alveg nauðsynlegt að komi fram í þessari umræðu.
    Ég hef þegar hrakið rangfærslur hv. þm. þar sem hann talar um fjölda opinberra starfsmanna þar sem hann lagði að jöfnu fjölda opinberra starfsmanna á Íslandi, að meðtöldum kennurum og löggæslumönnum, við það sem kannski væri hliðstætt starfsmönnum forsrn. og e.t.v. fjmrh. á Íslandi og taldi að um hliðstæða tölu væri að ræða. Það er auðvitað alveg út í hött enda treysti hv. þm. sér ekki til að fara nánar út í þessa sálma. En þarna er beinlínis verið að leiða menn á villigötur með slíkum málflutningi. Því miður er þetta alls ekki eina dæmið. Ég get farið nánar úr í þetta ef einhver kýs að fá frekari upplýsingar. Þær liggja hér fyrir.
    Þar sem hv. þm. er fjarstaddur og ég hef ekki gert þá kröfu að hann komi hingað --- mér finnst að hann dæmi sig sjálfur og sína þekkingu á umræðunni með því að vera fjarstaddur, koma hingað og varpa sprengjum og láta sig svo hverfa aftur --- ætla ég ekki að fara nánar ofan í saumana á þessari ræðu að öðru leyti en því að ég ítreka að það er dólgslega að okkur þingmönnum Reyknesinga vegið og enginn þar undanskilinn því hv. þm. taldi alla þingmenn Reyknesinga með og þar eru stjórnarsinnar í meiri hluta, því miður. Hann taldi að þingmenn Reyknesinga hefðu ekki sýnilegar áhyggjur af vandamálum sumra fyrirtækja á Suðurnesjum vegna þess að gildistaka samningsins hafi tafist og þeim atvinnutækifærum sem kunna að vera í hættu vegna þess. Ég spyr: Hvaða atvinnutækifærum? Ég hef ekki heyrt um þau og ég hitti líka fólk á Suðurnesjum alveg eins og hv. þm.
    Ég verð að segja að auðvitað munu menn reyna að moða úr þeirri stöðu sem verður. Menn binda ákveðnar vonir við nákvæmlega þetta alveg eins og menn hafa áður nýtt sér veru hersins, hvort sem þeir hafa verið með eða á móti því að hann væri á staðnum, og átt sér draumsýn um komu álvers á Suðurnes. Þetta einfaldlega hefur ekki gengið eftir og því miður er helsti vandi á Suðurnesjum og ástæða fyrir miklu atvinnuleysi þar að Suðurnesin hafa setið á hakanum einmitt vegna slíkra draumsýna eða staðreynda. Ég segi draumsýna eins og álvers og staðreynda eins og hersins. Það eru fyrst og fremst konur sem eru atvinnulausar á Suðurnesjum núna kannski vegna þess að hv. þm., sem ég hef vitnað til í ræðu, hv. 6. þm. Reykn., sagði fyrir nokkrum árum þegar hann var í forsvari fyrir verkalýðsfélög á Suðurnesjum að hann hefði ekki svo óskaplega miklar áhyggjur af atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum vegna þess að konur væru ekki fyrirvinnur. Ég veit að honum hafa verið núin þessi ummæli um nasir fyrr og er full ástæða til þess. Ég hefði gjarnan viljað fá það frá hv. þm. hvort hann hafi breytt um skoðun og fá að vita nánar um þetta en ég læt hér lokið þeim hluta ræðu minnar sem varðar nákvæmlega þetta.
    Það eru aðeins örfá atriði sem ég tel ástæðu til að fara út í til viðbótar. Vegna fjarveru þessa hv. þm. tel ég ekki viðeigandi að fara lengra út í hugleiðingar um ræðu hans þótt full ástæða væri til. Ég tel að ég hafi takmarkað mig við aðeins það brýnasta og ekki tekið allt með sem ég hefði getað. En fyrst ég er komin upp í stólinn verð ég að hlaupa lauslega á frekari innfyllingu í þessa Evrópuumræðu, þ.e. hverra annarra kosta við eigum völ og einkum að vekja athygli á því að það eru til Evrópudraumar og Evrópuvonir víðar heldur en innan þessa kerfis. Og kannski má segja að helsti vaxtarbroddur þeirrar umræðu standi utan við kerfið sjálft því ég sé ekki að þar hafi verið straumhvörf í frjórri hugsun. Þvert á móti þá hefur kerfið sífellt farið út í meiri smáatriði um veruleika sem er til staðar, veruleika sem við erum ekki sátt við, en gleymt öllum framsæknum hugmyndum sem full ástæða er til núna þegar við horfumst í augu við aukinn umhverfisspjöll, meiri mengun og vaxandi ótta fólks um það að við séum að ofbjóða lífkerfi jarðar með þessari hagvaxtarsókn, ógna friðnum sem við erum að reyna að byggja upp í heiminum með því að horfast ekki í augu við þann veruleika sem er í Evrópu og þann veruleika sem blasir við okkur í samskiptum norðurs og suðurs. Þetta mun reynast okkur hættulegt og ekki síst heimsfriðnum. Og sá veruleiki blasir við okkur. Við höfum séð hvernig fer fyrir miðstýrðum og stöðnuðum stofnanabáknum í austri og að ætla sér að fara að endurtaka þetta í vestri er ekki merki um framsýni.
    Það er annars staðar sem fólk er að bindast samtökum og taka höndum saman, fólk innan Evrópubandalagsins og utan Evrópubandalagsins, til þess að bjóða upp á betri kosti. Og mig langar til að renna yfir skjal sem 500 borgarar í 15 löndum Evrópu hafa skrifað undir sem eru að safna saman fólki sem er tilbúið að vinna saman að því að skapa betri samstarfskost í Evrópu. Í þessum hópi eru m.a. þingmenn og háskólafólk, fólk úr atvinnulífinu, fólk sem hefur verið í miklum tengslum og nánum við grasrótina víða, m.a. í Noregi er fólk sem hefur verið að starfa með hreyfingu bæði kvennanna á ströndinni og sjómannanna því að í Noregi hafa sjómannasamtök og öll samtök sem varða sjávarútveg og fiskvinnslu nema ein tekið afstöðu gegn Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópubandalaginu.
    Í þessari áskorun stendur m.a., með leyfi hæstv. forseta, í lauslegri þýðingu minni úr þýsku og ég bið menn að virða mér það til vorkunar ef hún verður örlítið óþjál:
    ,,Við gagnrýnum Evrópu Evrópubandalagsins þar sem þar er miðstýrt og ólýðræðislegt kerfi og þar getur almenningur alls ekki fengið að koma skoðunum sínum á framfæri né vilji almennings að koma í ljós.``     Í öðru lagi: ,,Þegar að átök austurs og vesturs hafa nú runnið sitt skeið þá blasir við að evrópska hernaðarkerfið gæti snúist gegn þriðja heiminum innan Evrópu Evrópubandalagsins.``
    Í þriðja lagi: ,,Það er augljóst að hin hömlulausa verslunarhugsun og hagvaxtardýrkun er ógnun við eðlilega lífshætti í sátt við náttúruna.`` Og í fjórða lagi er þessi hópur andvígur EB og EES, E-Evrópu, vegna þess að þar er verið að byggja nýja múra umhverfis forréttindahóp og útiloka aðra og það kemur í veg fyrir alþjóðlegt samstarf.
    Þessi yfirlýsing er mun lengri en þessir punktar eru. Þarna kemur fram gagnrýni sem er mjög sanngjörn og réttlát og þetta er fólk sem vill benda á betri kosti þar sem valddreifing er í öndvegi, virðingin fyrir náttúrunni og umhverfisvernd. Innan þessarar hreyfingar er mjög öflugur hópur fólks sem er hlynntur beinu lýðræði, þ.e. þessum þjóðaratkvæðagreiðslum sem gerðu Sviss kleift að fara að vilja þjóðarinnar en ekki að vilja þings sem er í andstöðu við vilja þjóðarinnar. Og þetta skiptir máli.
    Það er fleiri kosta völ og við eigum að vinna með þessu fólki. Vissulega þurfum við á viðskiptum okkar að halda en við höfum ranglega að mínu mati lagt afskaplega mikla áherslu á Evrópuviðskipti. Þetta gerðist vegna gengismála og ég ætla ekki að rekja það enn einu sinni. Fjöldamargir, þar á meðal Guðjón B. Ólafsson, fráfarandi forstjóri Sambandsins, hafa bent á að við höfum staðið okkur mjög illa í markaðsmálum gagnvart Bandaríkjunum einmitt vegna þeirrar áherslu sem við höfum lagt á verslun við Evrópu. Þetta er auðvitað dálítið alvarlegt mál. Eitt af því sem hann nefnir sérstaklega og ætla ég ekki að fara að rekja það í löngu máli er það er að innan Evrópu höfum við ekki auglýst vörur upp sérstaklega sem íslenskar vörur heldur fallið inn í rauninni án þess að gefa sjálfum okkur það kredit sem við ættum að gefa. Aftur á móti hefur Bandaríkjaverslunin sem betur fer að hluta til alla vega verið byggð upp þannig að þar hefur íslenskum sjávarafurðum verið gert hátt undir höfði. Þetta tel ég að sé mun réttari leið. Enda kom það fram á mjög merkilegri ráðstefnu sem ég sótti nýlega að eitt af því sem fólk telur að sé einna alvarlegast núna er það að við höfum vanrækt að markaðssetja íslenskar sjávarafurðir sem íslenskar

og jafnvel undir einu vörumerki.
    Virðulegur forseti. Það er aðeins eitt lítið efnisatriði sem ég ætla að koma inn á til viðbótar. Það tekur ekki langan tíma og síðan langar mig að leyfa ykkur í lokin að heyra örlítið um Hundrað ára einsemd Gabriel Garcia Marquez en í ræðu hv. þm. Maríu Ingvadóttur sagði hún réttilega hér í gær að kröfur EES varðandi iðnað standi hvort sem við förum inn í EES eða ekki. Við þurfum í rauninni ekki að fara í EES til að iðnaðurinn njóti þess sem hann þarf. Hún sagði enn fremur að ekki væri klókt að hafa öll eggin í sömu körfunni. Ég get ekki verið meira sammála. Það eina sem ég skil ekki er það að í þessari stuttu og hnitmiðuðu ræðu sem hv. þm. flutti hér í gær skuli niðurstaðan vera sú að við þurfum að fara í Evrópska efnahagssvæðið og jafnvel Evrópubandalagið en það voru ekki hennar orð.
    Ég lýk þá máli mínu með því að segja það sem mér finnst í rauninni hafa einkennt málflutning harðra EES-sinna hér á þinginu en þar kom í hug mér tilvitnun í bók Gabriel Garcia Marquez, Hundrað ára einsemd, eins og ég sé að verið er að byggja upp innan múra Evrópu, þar sem José Arcadía Bundia var að gera stórkostlega uppgötvun er hann lýsti því yfir að jörðin væri hnöttótt eins og appelsína.
    ,,Rödd skynseminnar á heimilinu missti þolinmæðina. Ef þú þarft að gera þig óðan gerðu það þá í einrúmi, æpti hún. Reyndu ekki að berja neinar hugmyndir sígauna inn í höfuð drengjanna.`` Þessi tilvitnun finnst mér eiga mjög vel við þar sem það virðist vera nokkuð sama hvaða röksemdir koma fram hér í umræðunni, þær hafa margar komið fram og margar verið gildar, jörðin skal vera flöt. Það má ekki gera neinar uppgötvanir, það má ekki bjóða upp á aðra kosti, þetta bara er svona og það skal vera svona og þetta skal keyra í gegn. Þetta finnst mér ekki góður málflutningur og ég dreg hér sérstaklega til ábyrgðar hæstv. utanrrh. vegna þess að mér finnst að hann hafi verið fremstur meðal jafningja í slíkum málflutningi. Og það er býsna hart þrátt fyrir að margar rangfærslur hans hafi verið hraktar og bent á marga hans fordóma og ranghugmyndir að við skulum enn sitja uppi með þetta.