Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 17:59:10 (4582)


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að gera betur grein fyrir afstöðu minni til þessa mikilvæga máls sem er til umræðu og brátt til afgreiðslu en mér var kleift með stuttri greinargerð með atkvæði mínu eftir 2. umr. um málið. Ég mun ekki fara út í minni atriði sem tengjast málinu heldur halda mig við aðalatriðin sem liggja fyrir en sannleikurinn er sá að mjög margt sem felst í samningnum verður ekki séð hvernig kemur til með að verka á þjóðfélagið fyrr en reynir á framkvæmdina.
    Mér hefur þótt heldur leiðinlegt að hlusta á öfgar í málflutningi ræðumanna í þinginu og á bæði við um hæstv. utanrrh. og einstaka þingmenn. Þó keyrði um þverbak sl. fimmtudagskvöld í útvarpsumræðum þegar hæstv. utanrrh. flutti ræðu sína. Mér leið hreinlega illa undir þeim ræðuflutningi og það er undarlegt að jafngreindur maður eins og ég vil nú halda fram að hæstv. utanrrh. sé skuli ekki átta sig á því að það er ekki svona framkoma og svona málflutningur sem þjóðin vill sjá og heyra frá háttsettum manni eins og hæstv. utanrrh. er hverju sinni, hver svo sem gegnir því embætti. Málflutningurinn var ótrúverðugur og auk þess fór hæstv. ráðherra með rangfærslur sem að sjálfsögðu er alvarlegt mál og hafa þær rangfærslur verið hraktar hér af ýmsum hv. þm. En ekki meira um það.
    En hvernig er gerist það að einstaklingur og í þessu tilfelli þingmaður myndar sér skoðun í máli sem þessu? Flestir gera það með því að kynna sér mál, hlusta á rök með og móti og gera síðan málið upp í lokin debet og kredit og komast síðan að niðurstöðu.

Þetta var a.m.k. sú aðferð sem ég beitti við að komast að niðurstöðu. Ég vona að engum detti í hug í alvöru að ég greiði ekki atkvæði gegn þessum samningi vegna þess að ég vilji styðja ríkisstjórnina. Svo er að sjálfsögðu ekki. En í svona stóru máli er ekki ábyrgt að mínu mati að taka bara afstöðu eftir því hvort maður er með eða á móti ríkisstjórn. En hitt er annað mál að ég treysti þessari ríkisstjórn illa til þess að framkvæma samninginn er og það ein ástæða þess að ég greiði honum ekki atkvæði.
    En fyrir því eru líka fleiri ástæður eins og ég hef þegar nefnt úr þessum ræðustóli og þar má nefna að ríkisstjórnarflokkarnir felldu það hér í þinginu að málinu væri vísað til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjávarútvegssamningurinn er ekki ásættanlegur fyrir okkur Íslendinga og eins er það skoðun mín að ekki hafi verið haldið nægilega vel á málum sem snerta íslenskan landbúnað. Þar hefði verið hægt að koma frekari vörnum við ef vilji hefði verið fyrir hendi af hálfu stjórnvalda. Síðast en ekki síst tel ég á því mikinn vafa að samningurinn standist ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar.
    Það sem ég hef talið upp snertir ekki fjórfrelsið sjálft sem slíkt en það snýr frekar að því hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur haldið á málinu. Þess vegna sit ég hjá við afgreiðslu málsins.
    Ástæða þess að farið var út í þessar viðræður í upphafi um að mynda Evrópskt efnahagssvæði og ástæða þess að við Íslendingar fórum út í þær viðræður í upphafi eru að mínu mati þær að við eigum gífurlegra hagsmuna að gæta á þeim markaði sem í EES-svæðinu felst og auk þess hlaut það að vera áhugavert þá eins og nú að aðskilja sig ekki frá okkar nágrannaþjóðum nema þá að vel athuguðu máli. Þetta hljóta allir að geta verið sammála um og það að við erum svona háð þessum markaði skerðir að sjálfsögðu á engan hátt okkar sjálfstæði. Viðskipti eru frjáls og verða áfram frjáls þó svo við gerumst aðilar að EES. Það hefur gengið illa að kveða niður þá mistúlkun að við Íslendingar getum ekki átt viðskipti við Ameríku og Japan eða aðrar þjóðir utan Evrópu áfram þrátt fyrir það að við gerumst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði.
    Svokölluð bókun 6, sem gerð var við Evrópubandalagið á áttunda áratugnum, er okkur að sjálfsögðu mjög mikilvæg og um það erum við flest sammála ef ekki öll. Hins vegar voru ekki allir sammála um það þá að þessi svokallaða bókun 6 væri okkur til góða. Hitt er annað mál að samningurinn var gerður með tilliti til aðstæðna í okkar þjóðfélagi á þeim tíma og það dugar okkur einfaldlega ekki í dag. Við þurftum þá að fá frekari tollaívilnanir inn á þennan markað og hafi það verið mikilvægt áður en umræðan hófst um EES þá er það nauðsynlegt eftir að EES er orðið að veruleika og t.d. Norðmenn komnir þar inn með frekari tollaívilnanir en við mundum hafa samkvæmt bókun 6.
    Ég get tekið undir að það er erfitt að telja í krónum og aurum hvað samningurinn mun gefa íslenskum sjávarútvegi. Það er á þessari stundu óljóst en það að íslenskur sjávarútvegur hafi ekki sömu þróunarmöguleika og t.d. norskur sjávarútvegur til aðgangs að Evrópumarkaði tel ég hættulegt fyrir þjóðina.
    En samningurinn snýst að sjálfsögðu um fleira en fisk. Hann snýst kannski fyrst og fremst um möguleika. Eitt af því sem mér finnst áhugavert er að með aðild að Evrópsku efnahagssvæði fær Ísland fulla aðild að rammáætlun EB á sviði rannsókna og þróunar. Rammaáætlun EB er heildaráætlun til ákveðins tíma um rannsóknir og þróun, einkum á sviði raunvísinda og tækni. Samkvæmt EES-samningnum geta rannsóknastofnanir, fyrirtæki og vísindamenn hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu sótt um styrk úr viðkomandi sjóðum áætlunarinnar til rannsókna- og þróunarverkefna. Þátttaka okkar mun að sjálfsögðu kosta einhverja fjármuni en ástæða er til þess að ætla að verulega hærri upphæðir fáist til baka í fomri styrkja.
    Ef við kysum að standa utan Evrópska efnahagssvæðisins þá er ljóst að aðgangur okkar að rannsókna- og þróunarstarfi innan EB yrði mjög erfiður. Þá þyrfti að semja tvíhliða um hvert verkefni fyrir sig sem tæki langan tíma.
    Eitt af því sem margir virðast óttast er að frjálst flæði vinnuafls sé hættulegt þjóð okkar og að engum vörnum verði við komið af hálfu okkar Íslendinga. Einn hv. þm. orðaði það þannig í gær að það yrði skipt um þjóð í landinu. Auðvitað kemur eitthvað af Evrópubúum hingað og reynir fyrir sér á hinum íslenska vinnumarkaði. En ég minni á að fái viðkomandi ekki vinnu innan þriggja mánaða þá þarf hann að fara. Og ætli dvöl þessa fólks í landinu okkar í þessa þrjá mánuði skapi ekki eitthvað jákvætt líka fyrir þjóðina? Það skyldi þó ekki vera að viðkomandi neytti einhverra landbúnaðarafurða hér sem við eigum meira en nóg af og okkur vantar markað fyrir? Auk þess hef ég ekki mikla trú á því að Miðjarðarhafsbúar flykkist hingað en Ísland muni frekar freista Mið-Evrópubúa.
    Eins og allir vita þá hefur norrænn samningur gert Norðurlandabúum þetta kleift í nokkuð mörg ár og hefur það á allan hátt verið jákvætt eftir því sem ég best veit og eftir því sem ég met málið. Við verðum að vera sanngjörn og við getum ekki ætlast til að Íslendingar eigi allan rétt hjá öðrum þjóðum en síðan sé bara lok, lok og læs hjá okkur.
    Íslensk þjóð byggir á sterkri menningararfleifð sem m.a. byggist á því að við vitum mikið um uppruna þjóðarinnar og baráttu í gegnum ellefu aldir. Við þekkjum sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og við berum virðingu fyrir þeim forfeðrum okkar og mæðrum sem háðu þá baráttu og við berum þökk í brjósti þegar við hugsum til þeirra einstaklinga sem þar lögðu mest af mörkum. Með því að sitja hjá við afgreiðslu samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og með því að telja samninginn mikilvægan fyrir framtíð þjóðarinnar og sjá þar fleira jákvætt en neikvætt er ég fyrst og fremst að bregðast við samkvæmt sannfæringu minni. Slíkt er skylda mín samkvæmt íslenskri stjórnarskrá.