Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 18:11:34 (4584)

     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það hefði komið mér mjög á óvart ef hv. 4. þm. Austurl. hefði ekki komið hér upp í andsvari. Hann hefur beðið eftir því að við héldum okkar ræður, þeir hv. þm. sem voga sér að sitja hjá í málinu, til þess að komast í andsvör og reyna að gera lítið úr þeirra málflutningi og telja þjóðinni trú um að hann einn hafi rétt á því að hafa rétta skoðun, aðrar skoðanir geti ekki gengið. Þetta er náttúrlega þvílíkur málflutningur að það er varla að það taki því að koma hér upp til þess að svara. Og að halda því fram að ég hafi fundið aðeins eina ástæðu fyrir því að ég styddi ekki þennan samning er náttúrlega alger rangfærsla því að ég tók það fram að það væru fjórar ef ekki fimm ástæður og ein var sú að málið fór ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Síðan lýsti ég því yfir að ég styddi ekki sjávarútvegssamninginn og ég lýsti yfir að stjórnvöld hefðu getað haldið betur á málum hvað snertir íslenskan landbúnað. Og auk þess taldi ég að það væri ekki málinu til framdráttar að ég treysti illa þeirri ríkisstjórn sem nú situr og fleira mætti nefna.
    Hv. þm. taldi að það þróunarstarf sem ég talaði um í mínu máli, að Íslendingar gætu átt fullan rétt á að aðild að því starfi þó svo við yrðum ekki aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Ég held að hv. þm. sem bar það hér á borð að ég hefði ekki kynnt mér þetta mál ætti að kynna sér það mál betur sjálfur og tala t.d. við framkvæmdastjóra Rannsóknaráðs ríkisins og vita hvort hann kemst þá ekki að annarri niðurstöðu.