Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 18:13:12 (4585)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er nokkuð sérkennileg túlkun að telja að rökræða hér í þinginu um þennan samning og ábendingar um það hversu holt er undir röksemdafærslunni hjá hjásetuliðinu í þessu máli sé vegna þess að ég hafi einhvern einkarétt á sjónarmiðum í þessu máli. Það er mjög langt frá því. Hér er hver frjáls að gera hvað sem hann vill mín vegna en ég hef þann rétt að gera athugasemdir við rökstuðning fólks þegar ég tel að það sé ástæða til og hv. þm. verður að búa við það.
    Já, hv. þm. tíundar ýmsar ástæður, m.a. þá ástæðu að við værum að aðskilja okkur frá nágrannaþjóðum. Það er auðvitað sjónarmið. En eigum við að gera alþjóðasamninga og binda okkur inn í kerfi eins og hér er verið að gera vegna þess að Svíar gera það, vegna hagsmuna sænska stóriðnaðarins? Eigum við að kaupa það því verði að elta Svía og Norðmenn inn í þetta bandalag, ég hef að vísu ekki trú á að Norðmenn lendi þangað á þessari öld a.m.k., vegna þess að við ekki þorum að greina okkur frá þeim og halda hér í horfinu út frá íslenskum forsendum.
    Þetta með frjáls viðskipti út á við --- þau eru ekki frjálsari en svo að það verða um sinn a.m.k. verulega hærri vörugjöld á varningi frá löndum utan þessa svæðis, 6 eða 7% á ýmsum vörum, t.d. eins og Norður-Ameríku þannig að það er ekki svo að þetta sé alveg jafnt og frjálst þó að það sé ekki bannað samkvæmt samningnum. Þannig rekur hvað sig á annars horn hjá hv. þm. Ég hvet hv. þm. til þess að kynna sér þskj. 961 frá síðasta þingi sem er svar frá utanrrh. við fsp. frá mér um það hvaða samningar hafa þegar verið gerðir og eru í höfn samkvæmt Lúxemborgaryfirlýsingunni frá 1984.