Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 18:17:33 (4588)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það hefur mikið verið talað um málþóf í þessu mikla og örlagaríka máli. Þó er það svo að ég er hér að halda mína fyrstu ræðu og hef ekki komist að fyrr en nú þar sem eins og eðlilegt er hafa gengið fyrir þeir hv. þm. sem unnið hafa í þeim nefndum sem fjallað hafa fyrst og fremst um þessi mál. Það er hins vegar svo að ég hygg að í fáum málum hafi verið fluttar eins góðar og efnismiklar ræður og í þessu máli, byggðar á mikilli vinnu og mikilli þekkingu, a.m.k. hjá þeim hv. þm. sem hafa lýst sig andvíga þessu máli.
    Ég get ekki stillt mig um að benda hv. 3. þm. Norðurl. e. og öðrum þeim sem hyggjast sitja hjá í þessu máli að það er kaldhæðnislegt einmitt í þessu máli að sitja hjá vegna þess að við erum hér að lögfesta mál, lögfesta samninga sem aðrir hafa gert og meira að segja þeir sem ekki eru lengur aðilar að málinu. Við höfum ekki átt þess nokkurn kost að hafa minnstu áhrif á málið. Við áttum einungis að segja já eða nei. Þar var engin hjáseta í boði né neinn réttur til brtt. Þetta mál er þess eðlis að menn eru annaðhvort á móti því eða með því. Það er ekki góð staða en það er sú staða sem við erum í. Við getum ekki haft nein áhrif á þetta mál. Það er lagt fyrir okkur svona og eins og það kemur hér fyrir og annaðhvort eru menn með því eða á móti þannig að einmitt í þessu máli er það vesælli afstaða en í nokkru öðru máli að vera að hvítþvo sig með því að sitja hjá. Það á óvenjulega illa við í þessu tilviki.
    Það er eðlilega mikið búið að segja í þessari umræðu sem hefur verið eins og vænta mátti alllöng þó ekki svo að það beri að undrast það á nokkurn hátt. Hér eru þó ótal atriði enn sem enginn hefur minnst á og er enn þá gersamlega ósvarað. Og nú langar mig aðeins að víkja að því. Ég skal reyna að stilla mig um að setja hér á langa ræðu um það sem þegar er búið að þrautræða. En auðvitað er megininntak þessa máls að við erum að fara út í þróun sem við höfum ekki minnstu hugmynd um hvernig kemur til með að verða. Við vitum ekki hvers konar ævintýri við erum að leggja út í og það sýnir auðvitað lítilsvirðingu fyrir vitsmunalífi bæði þjóðarinnar og ekki minnst hv. þm. að síðan skuli hrokafullir ráðherrar undrast það að menn þurfi að ræða mál sem þetta. Það er með ólíkindum og sýnir auðvitað ekki annað en skort á stjórnvisku og reynsluleysi nýrra þingmanna, sem taka að sér að ráða löndum og þjóðum hafandi ekki nokkra þjálfun til þeirra verka, að setja sig hér á háan hest og ráðast að vinnusömum þingmönnum sem hafa lagt í það eljusemi og skynsemi að reyna að kynna sér mál eins og þetta.
    Það sem við erum hér að gera og er auðvitað höfuðatriði málsins að við erum að lögfesta samning sem er þegar einskis nýtur vegna þess að það er ekki hægt að láta hann taka gildi. Það vill svo til að ég á sæti í þeirri aumu nefnd sem heitir EFTA-nefnd íslenska þingsins og hefur auðvitað aldrei skipt neinu máli, enda skiptir EFTA engu máli í þessum samskiptum. Þar ræður Efnahagsbandalagið. En ég og hv. frelsari þessa máls, Vilhjálmur Egilsson, hv. 5. þm. Norðurl. v., ég mun af trúmennsku fylgja honum suður til Genfar í næstu viku og hér liggur fyrir það sem okkur er ætlað að ræða. Þar stendur í lið tíu af þeim málum sem fyrir fundinum liggja og ég hlýt að þýða það á íslensku og vona að ég geri það rétt:
    ,,Í Bergen er engin leið að halda fund um þá nefnd, samvinnunefnd þingmanna [the joint committee, sem mig minnir, þrátt fyrir inflúensu, að heiti samstarfsnefnd EFTA og EB] eins og áætlað var þar sem samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði mun ekki hafa komist til framkvæmda.`` Þennan fund á að halda 29. júní nk. Þarna suður í Evrópu eru menn ekki með þennan æðibunugang. Þeir gera sér ljóst að það er enginn samningur væntanlegur á næstu mánuðum þannig að við höfum nógan tíma til að fjalla um þennan samning og höfum alltaf haft. Það er svo jafnljóst að allt þetta mál hlýtur að verða að taka upp

vegna þess að upphaflega var þessi samningur gerður milli EFTA-ríkjanna og eitt EFTA-ríkið er ekki lengur með, sem eru Svisslendingar eins og margsinnis hefur komið hér fram, þannig að það sem við erum að gera er að lögfesta einskis nýtt plagg og ætlum forseta lýðveldisins að undirrita þau lög þó að hún viti jafn vel og við öll að þetta er einungis pappírsgagn sem hlýtur að verða að koma hér inn í þingið aftur í breyttri mynd.
    Öll meðferð þessa máls hefur markast af því sem við verðum því miður svo oft að horfast í augu við sem er heimóttarháttur okkar Íslendinga, hroki okkar og rangar hugmyndir um eigið ágæti. Auðvitað fer ekkert hjá því hvar sem maður ferðast og fer suður í Evrópu að það tekur enginn minnsta mark á Íslandi. Fyrir þessu fólki er Ísland slík hjáleiga að það tekur því ekki að tala um hana og ég get alveg fullvissað hv. þm. um að suður á hótelinu í Genf þar sem stjórnmálamenn vorir gista aftur og aftur hefur ekki nokkur lifandi maður hugmynd um hvar Ísland er, hvað þá að nokkur lifandi maður þekki nú hæstv. utanrrh. sem talar stundum eins og hann sé einn af æðstu mönnum í evrópskri pólitík. Það þarf mikla sjálfsblekkingu til þess að hafa slíkar hugmyndir um sjálfan sig.
    Þegar maður er búinn að vera í stjórnmálum, hæstv. forseti, í nokkur ár þá fær maður stundum undarlega óttatilfinningu af að sjá til stjórnmálamanna og ekki síst karlmanna í stjórnmálum og ekki síst ungra karlmanna í stjórnmálum sem fá glýju í augun þegar þeir sjá pússaða skó sína í bónuðum gólfum fyrrv. konungshalla og glæsihúsa Evrópu. Það þarf kvenlega skynsemi til að láta slíkt ekki rugla sig í ríminu. Þessir ungu menn halda að þeir fari allt í einu að skipta alveg ógnarlega miklu máli og fá ýmsar hugmyndir um sjálfan sig. Einn af þessum mönnum, sem er kannski ekki svo ungur að það ætti að há honum, heitir Jacques Delors sem fékk þá hugmynd að það gæti nú verið gaman að verða forseti Frakklands. Og hvernig gerir maður það? Maður finnur upp eitthvað sem eilíflega er hægt að merkja manni og hann fékk þá snjöllu hugmynd að búa til Evrópskt efnahagssvæði. Reyndar gekk honum ýmislegt betra til en nú er orðið vegna þess að fyrstu hugmyndir hans voru ekki eins og þær hugmyndir sem eru núna uppi, enda hefur svo ótal margt breyst í Evrópu síðan. Sorgarsaga Jacques Delors er að hann verður ekki forseti Frakklands. Hann hefur minni möguleika á því en nokkru sinni áður vegna þess að a.m.k. kýs frönsk bændastétt hann ekki, svo mikið er víst. En þessir litlu karlar æsa hver annan upp í svona vitleysu að lítt hugsuðu ráði og áður en við er litið er búið að flækja hálfa Evrópu, þjóðþing álfunnar í mál sem enginn hefur lagt á sig að reyna að skoða í einhverju ljósi framtíðarinnar. Og þetta er auðvitað enn einu sinn orsök allrar okkar ógæfu fyrr og síðar. Svona hafa heimsstyrjaldir byrjað, svona hefur hrun þjóða hafist og þetta er ekki í fyrsta skiptið og þetta verður ekki það síðasta. En það kann að vera auðvelt að segja: Þetta er nú málþóf ef eitthvað er. Það er það bara ekki vegna þess að við verðum stundum í stjórnmálum að hugsa ofurlítið út fyrir þennan sal, út fyrir landamæri þjóða og reyna að sjá framtíðina í einhverju samhengi og gera okkur grein fyrir hvers konar líf viljum við búa okkar þjóð og nágrannaþjóðum okkar og þjóðum heims. Og við skulum ekki gleyma því að enginn er eyland og við höfum ábyrgð á öllum þjóðum heims, þ.e. ef við erum manneskjur með einhverja siðferðisvitund.
    Meðferð þessa máls hér á hinu háa Alþingi er því með ólíkindum og stundum trúir maður ekki sínum eigin eyrum þegar í lok 2. umr. þessa mikla máls, sem svo sannarlega hefur ekki verið vanrækt af þingheimi og menn hafa svo sannarlega lagt vinnu á sig til að afgreiða, þá kemur hæstv. utanrrh. sem hefur stundum virst hafa lagt litla vinnu í þetta mál og falið það öðrum drengjum í ráðuneyti sínu og hellir svívirðingum yfir lifandi menn og látna og ekki síst þá menn sem mest hafa gert fyrir íslenska alþýðu þessa lands, íslenska alþýðu fyrr og síðar, eys þá hér svívirðingum og gerir lítið úr þjóðþinginu fyrr og síðar. Og síðan halda þessir menn að það verði engin umræða við 3. umr. máls. Það sem hæstv. utanrrh. hefði átt að gera hefði hann einhverja reynslu í að stjórna löndum og þjóðum hefði verið að þakka þingheimi fyrir vel unnin störf. En þess í stað koma menn hér og hella yfir þjóðina einhverri vitleysu, óraunhæfum tölum um ágóða af þessu öllu --- og ég skal koma dálítið að því síðar hvað vel það er nú grundað --- en fyrst og fremst níði og rógi á stjórnmálamenn, bæði núv. stjórnmálamenn og lifandi menn og látna.

    Þetta er með slíkum ólíkindum að það liggur við að maður fyrirverði sig fyrir að eiga heita fulltrúi þessarar samkundu. En auðvitað hljótum við að biðja þjóðina um að mæla okkur ekki og meta öll eftir framkomu þessara manna. Vitaskuld er hópur af fólki sem vill þjóðinni vel, vill setja sig inn í þessi mál og vill hugsa sig vel um áður en ákvörðun er tekin um að ganga í Evrópska efnahagssvæðið. Smámál eins og það hvort þetta mál stangast á við stjórnarskrána er afgreitt með fyrirlitningu. Lærðustu lögmenn landsins, prófessorar við Háskóla Íslands, sem bera ábyrgð á menntun lögfræðinga framtíðarinar, eru hunsaðir og hafðir að engu og ef þeir samvisku sinnar vegna og sóma hafa áhyggjur af því sem Alþingi er að gera og skrifa því bréf þá eru þeir afgreiddir með annarlegum sjónarmiðum og fullkominni lítilsvirðingu. Þetta er með slíkum ólíkindum að það er áreiðanlega fáheyrt í nokkru þjóðþingi.
    Síðan kemur samanburðurinn á tímalengd og þeim tíma sem menn þurfa til að ræða mál og ég skal ekki endurtaka. Ég hefði sagt nákvæmlega það sama og hv. 4. þm. Norðurl. e. benti mjög skilmerkilega á í dag að ástæðurnar fyrir því að það er fullkomlega eðlilegt að íslenska þingið ræði þetta miklu meira en önnur þing eru fyrst og fremst uppbygging þingsins sjálfs, þ.e. að við höfum ekki þær aðferðir sem önnur þjóðþing hafa til þess að standa í ístaðinu í máli sem þessu. En þetta hefur hæstv. utanrrh. sjálfsagt ekki haft hugmynd um. Ég á ekki von á að hann kynni sér mikið starfsemi þjóðþinga þegar hann hittir ríkisstjórnir evrópskra þjóðþinga. Það eru þingmennirnir sjálfir sem vita eitthvað um það enda eru ráðherrar, sem hann hittir, fæstir starfandi þingmenn eins og þeir eiga að vera hér.
    Ég skal reyna að stytta mál mitt. Um það hafa tekist einhverjir samningar að mér skilst og ég skal ekkert spilla þeim. En ég hlýt þó að minnast á örfá atriði sem mér finnst hafa fengið litla umfjöllun og eiginlega ekki fyrr en hv. 4. þm. Suðurl. innti eftir því í kvöld hvort reynt hefði verið að kanna það hver kostnaður sveitarfélaganna yrði við samninginn. Við höfum margspurt um þetta og ekki síst hv. 4. þm. Suðurl. sem er enda þaulvanur sveitarstjórnarmaður en engin svör fengist t.d. í hv. fjárln. og enn minni svör fengið hjá hæstv. ráðherra sem varð að standa hér og segja ósköp einfaldlega við 3. umr. málsins: Ég veit ekkert um kostnað sveitarfélaga. Það segir kannski dálítið um hvað menn vita mikið um þetta mál í heild.
    Einhvern tíma barði ég augum mikla reglugerð um sorp, mengunar- og frárennslismál sem gefin hefur verið út. Mig minnir að sá grunur hafi læðst að mér að ef Íslendingar eiga að fara að þeirri reglugerð sé ekki um að ræða neinn milljónakostnað heldur milljarðakostnað. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. eða hæstv. umhvrh. sem ég sá ekki betur en væri hér áðan: Hafa menn virkilega ekki sest niður og reynt að gera sér minnstu grein fyrir hvað er verið að fara út í? Síðan stendur hæstv. utanrrh. hér og talar um einhverja tugi milljóna. Auðvitað er löngu ljóst að kostnaður af þessum samningi er gersamlega úti í blámanum. Menn hafa ekki hugmynd hvað þeir eru að fara út í.
    Hér hefur ekki verið mikið minnst á stöðu t.d. flugfélagsins okkar. Menn hafa svarað því út í hött meira og minna. Þar er frjáls samkeppni og maður spyr: Eru Flugleiðamenn alveg vissir um að þar verði þeir með mjög sterka stöðu? Hefur þetta verið athugað? Það ætti kannski ekki að koma í minn hlut að hafa áhyggjur af krabbanum góða en ég mundi freistast til að spyrja líka: Hver verður staða skipafélaganna, farmflutninganna? Ég held að þetta viti ekki nokkur lifandi maður og það dettur ekki nokkrum í hug að spyrja að þessu.
    Hér sitja tveir hv. þm. sem kjörnir hafa verið til hins háa Alþingis tvímælalaust vegna þess að þeir eru fulltrúar stórra samtaka, hv. 16. þm. Reykv., formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Farmanna- og fiskimannasambandsins. Þessir menn leyfa sér að hafa enga skoðun á málinu, þeir taka ekki til máls. ( GHall: Það er ósatt. Ég tók til máls áðan.) Hv. 16. þm. Reykv. tók til máls áðan en svo var það nú efnislítil ræða að mér þótti það sama og ekkert og vænti ég að þingmaðurinn misvirði það ekki þegar miðað er við þær ræður sem hér hafa verið fluttar, margar hverjar, mjög góðar og efnismiklar, þá þótti mér það nú ekki eftirminnileg ræða og heyrði ekki

betur en þingmaðurinn væri eindreginn stuðningsmaður samningsins án þess að ég hafi fengið að vita hvers vegna hann er það. Það vekur auðvitað athygli að atkvæðahjörðin sem hér birtist öðru hverju á tilskipuðum atkvæðagreiðslutíma, hefur setið betur í þessu máli en í flestum öðrum en illa þó, og alveg er ég sannfærð um að ástæðan fyrir því að þetta fólk talar ekkert í þessu máli er einfaldlega að það veit ekkert um það og hefur engar áhyggjur af því. Það gerir bara eins og því er sagt. Þetta er auðvitað slíkt ábyrgðarleysi að það verður áreiðanlega lengi í minnum haft og sú stund mun upp renna þar sem menn verða spurðir: Hvers vegna studduð þið þennan samning?
    Menn tala um það sorglega ástand sem er í íslensku atvinnulífi og sýnist vera á hraðri niðurleið, nú rísi það upp endurfætt vð samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Tollafrelsið á öllu að bjarga. Það hefur minna verið talað um hvað við ætlum að flytja út. Klaufaskapurinn í öllum þeim málum hefur orðið verri og verri með ári hverju og hér fyrir framan mig er viðtal við Guðjón B. Ólafsson, fráfarandi forstjóra Sambandsins sem segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Markaðsstarf Íslendinga í Bandaríkjunum hefur glatast.`` Svo sannarlega hefur það glatast. Ég sá með eigin augum fyrir nokkrum vikum þann aulaskap sem viðgengst í útflutningi frá Íslandi.
    Ég sá í nokkrum stórmörkuðum í Bandaríkjunum íslenskt vatn frá einhverju fyrirtæki sem ég hafði ekki þekkt fyrr, en m.a. mun Reykjavíkurborg vera aðili að því, sem heitir Thor Spring. Það hafði selst nokkuð vel, var með löngu lesmáli á miðum og ætlað menntaðri hópi, millistéttarfólki, sem hafði áhuga á að halda góðri heilsu og drekka holl steinefni í vatninu sínu o.s.frv. Það gerist síðan að til einnar stórborgar í Bandaríkjunum berst farmur af þessu ágæta vatni sem hefur selst nokkuð vel, en þá hefur það slys gerst að miðinn á flöskunum var á hvolfi. Í staðinn fyrir að henda þessu samstundis er þessu beint á stórmarkað í Bandaríkjunum á útsöluverði. Það liggur auðvitað á borðinu að aldrei mun neinn kaupa þetta vatn aftur. Þess háttar heimóttarskapur einkennir allt sem við gerum í útflutningsmálum. M.a. er ein ástæðan sú að það er verið að senda Íslendinga til starfa sem aldrei hafa verið í viðkomandi löndum, þekkja ekkert inn á lifnaðarhætti í löndunum. Mér var sagt frá öðru dæmi, ég held að það hafi verið önnur tegund af vatni eða hvort það var einhver ávaxtasafi, ekki man ég það nú, en þar var mér bent á af Íslendingum búsettum í borginni að það fyrsta sem menn þyrftu að vita um slíka vöru væri hvernig ísskápa hefur fólk almennt. Hvað hentar í ísskápana? Þar höfðu umbúðirnar verið eins ómögulegar eins og unnt var, til þess að geyma í ísskápum landsmanna. Allt svona lagað skiptir máli og þess vegna verðum við að hafa fólk sem býr í þessum löndum til að leiðbeina okkur um útflutning sem þennan. Ég held að engin tollafríðindi geti bjargað okkur ef við erum að senda frá okkur vöru sem þessa.
    Þarna situr hæstv. iðnrh. sem hefur nú ekki orðið til þess að lyfta íslenskum iðnaði í hæðir. Hann er allur heldur dapur þessa dagana og væri gaman að heyra frá honum hvað ætlar hann að fá mikið fé inn í landið vegna tollafríðinda á útflutningsvörum iðnaðarins. Ég held að það geti ekki verið mikið. Ég veit ekki hvað það er sem hann ætlar að flytja út. Í stuttu máli er þetta allt í rúst. Auðvitað væru vandamál okkar ekki sem þau eru ef við hefðum öflugt atvinnulíf, öflugan iðnað. Ekkert pappírsgagn um tollafríðindi bjargar þjóð sem hefur ekkert til að fá tollafríðindi fyrir þannig að menn eru áreiðanlega hér að vona að einhver guð komi út úr maskínunni sem við sem trúum lítu á happdrættisvinninga eru með mikilvægar efasemdir um.
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki endurtaka svo ótalmargt sem hér hefur verið sagt miklu betur af ýmsum öðrum hv. ræðumönnum og gæti ég nefnt þar marga sem hafa haldið upplýsandi og málefnalegar ræður um þetta mikilvæga mál sem menn vilja meina þjóðinni að taka ákvörðun um. En aðeins að lokum þetta: Er ekki full ástæða til þegar mál eins og þetta er á ferðinni að líta svolítið yfir þróun þess frá því að það komst fyrst á dagskrá og þar til nú og meta hver staða þessarar álfu er frá þeim tíma þó að hann sé ekki langur?
    Því miður er ekki mjög skemmtilegt að líta yfir Evrópu dagsins í dag. Sjálfsagt hefðu fæst okkar trúað því að styrjöld geisaði milli Evrópuríkja fyrir örfáum árum og menn

væru þar myrðandi hver annan, smábörn og gamalmenni en svoleiðis er það nú einu sinni. Við sjáum kynþáttahatur blossa upp og gamla krumlu rísa frá dauðum sem við, sem nokkuð erum komin til aldurs, héldum kannski og vonuðum að við sæjum aldrei aftur en það er nasistakrumlan í Þýskalandi. Ég fæ ekki betur séð en hún sé langt frá því aldauð. Sjálfsagt er að fagna því að skrifræði og þrúgandi þjóðskipulag Sovétríkjanna er ekki lengur til staðar. En það verður nú einu sinni að játast að ástandið þar virðist ekki hafa batnað mikið við það. Það sem mér finnst óskiljanlegast í öllu þessu máli, einkum þegar hv. sjálfstæðismenn eiga í hlut, er að þegar þetta óbærilega kerfi skrifræðis, kúgunar, boða og banna, sem ég býst ekki við að neitt okkar hefði lifað af, er lagt af eru menn að reisa nýtt og ekki betra. Steingelt embættismannakerfi þar sem stjórnmálamenn hætta að stjórna en embættismannakerfið tekur við. Ég hef sagt það áður og ég ætla að segja það enn til gamans að þegar við hv. þm. þessa þings komum á fund í EFTA-nefndinni þá liggur fundargerð fundarins, sem við ætlum að fara að halda, á borðunum hjá okkur. Þetta er það sem menn vilja sjá í framtíðinni. Ekki er ætlast til þess að við höfum neitt að segja og það er heldur til þess að trufla framvindu fundarins ef einhverjir þingmenn vilja fara að hafa einhverjar meiningar um hlutina. Ég held að við hv. 10. þm. Reykv. höfum aðeins orðið fyrir því að vera heldur til óþæginda á þessum annars rólegu fundum þar sem þegar er búið að ganga frá öllum málum áður en við komum á fundinn. Við höfum sjálfsagt ekkert verið sérlega vinsælar vegna þess að við höfum leyft okkur að taka til máls en til þess er ekki ætlast. Ekki síst þess vegna er það mér mikið undrunarefni að sá hv. þm. skuli virkilega geta hugsað sér að taka þátt í óskapnaði eins og þessum þar sem við komum ekki til með að hafa neitt að segja vegna þess að auðvitað er allur samningurinn eins og oft hefur komið fram áður gerður á forsendum Efnahagsbandalagsins. Aldrei hefur staðið til að EFTA hefði neitt að segja. Alvarlegar er nú kannski þegar við eigum svo að lúta dómum frá dómstóli sem er dómstóll þjóðabandalags sem við erum ekki aðilar að. Þetta er svo augljóst hverjum manni og svo margbúið að segja að kannski er óþarfi að endurtaka það enn einu sinni. En kannski er heilsumerki að þeir Íslendingar, sem hafa ráðið sig þangað suður eftir, góðkunningjar okkar sem við höfum hitt og hafa ætlað sér að vinna þarna hafa rekið sig illilega á það að þeir eru orðnir örlítið tannhjól í óhugnanlegri vél þar sem enginn veit neitt hvað verið er að gera og una sér illa og ég fagna því og vænti þess að þeir komi heim sem snarast aftur.
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þetta frekar. Ég hefði getað haldið miklu lengri ræðu en sjálfsagt verður þessu máli ekki bjargað héðan af. Menn koma hér eins og venjulega, atkvæðahjörðin birtist á réttum tíma og segir já við að ganga inn í þetta. Sú er von mín einust að eftir er þó að sýna réttan samning aftur því að við erum að samþykkja vitlausan samning. Hann hlýtur að koma í leiðréttri mynd og þá hefst umræðan auðvitað að nýju og þá vænti ég þess að hæstv. ríkisstjórn og hv. þm. verði búnir að reyna að hugsa ofurlítið lengra fram í tímann en menn virðast hafa gert hér með örfáum undantekningum og láti það ekki viðgangast aftur að 32 af 63 þingmönnum þingsins etji Íslendingum á þetta forað.