Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 18:59:36 (4595)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Nú mun vera komið að lokum umræðunnar og mér þykir rétt að bæta tveimur atriðum inn í hana sem ég vildi gjarnan skerpa á og hafa ekki komið fram nema að nokkru leyti. Tilefnið kom einmitt fram í ræðu hæstv. utanrrh. í sjónvarpsumræðum á fimmtudagskvöld en þar fékk hæstv. utanrrh. þá einkunn hjá hv. 10. þm. Reykv. að vera pólitískur villimaður og ég tók eftir því að forseti gerði ekki athugasemd við þá einkunnagjöf.
    Það fyrra atriði sem ég vildi nefna er ávinningur Íslendinga af Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar sem fram kom í máli hæstv. utanrrh. að væru um 7 milljarðar, eða 1,5% af landsframleiðslu. Ég vil rekja það að í skýrslunni er annað uppi á teningnum og frásögn hæstv. utanrrh. er vægast sagt afar frjálsleg. Mat Þjóðhagsstofnunar byggir á útreikningum sem eru gerðir af gefnum tilteknum forsendum sem eru

í fyrsta lagi þær að markaðsverð innflutningsvöru lækki um 3%. Í öðru lagi að verðlag peningastofnana og tryggingafélaga lækki um 15%, að vextir lækki um 0,75% og framleiðni fyrirtækja annarra en sjávarútvegsfyrirtækja aukist um 3,7%. Í fimmta lagi er það forsenda að áhrif EES-samningins þýði 5% hækkun á verði sjávarafurða.
    Að gefnum þessum forsendum er það niðurstaða Þjóðhagsstofnunar undir dálknum svokölluð ,,mikil áhrif`` þegar reynt er að meta það bil sem áhrifin geta spannað yfir og teygt sig upp í hærri kantinn þá muni landsframleiðslan aukast um 0,6%--1,4% eftir því hvort miðað er við að áhrifin eru komin fram eftir fjögur ár eða átta ár. Þetta þýðir að samkvæmt þessu og þeirri spá að landsframleiðsla á þessu ári verði um 390 milljarðar kr. að ávinningurinn megi reiknast á bilinu 2,4 milljarðar til 5,4 milljarðar, ekki 7 milljarðar. Hæstv. utanrrh. hefur því skotið a.m.k. um helming yfir markið. Þá á eftir að draga frá þann kostnað sem við verðum fyrir vegna samningsins en það er dálítið einkennilegt og reyndar athyglisvert að af hálfu ríkisstjórnarinnar hafa ekki fengist svör um áætluð kostnaðaráhrif samningsins á Íslendinga, bæði hvað varðar sveitarfélög og áhrif þjóðarinnar eða áhrif á búsetuþróun innan lands. Ég minni á að ég bar fyrr í vetur fram fyrirspurn ásamt hv. 4. þm. Austurl. til félmrh. um áhrif á sveitarfélög og svarið var einfalt, stutt og laggott hjá hæstv. félmrh: Við höfum ekkert athugað málið. Það liggur ekkert fyrir.
    Hjá hæstv. forsrh., sem fer með byggðamál, hefur komið fram að engin athugun liggur fyrir af hans hálfu eða ráðuneytis hans á áhrifum samningsins á búsetuþróun innan lands og þeim kostnaði sem mun leiða af breytingu á búsetumunstri.
    Ég bendi á skýrslu Byggðastofnunar um þetta efni sem leiðir fram að verulegar hættur eru á að afar slæm áhrif á búsetuþróun verði á landsbyggðinni í kjölfar samningsins. Skýrslu Byggðastofnunar hefur ekki verið svarað af yfirmanni byggðamála á landinu og engin tilraun gerð til að færa fram rök um aðra niðurstöðu en þar er komist að.
    Þegar við metum ávinninginn á bilinu 2,4 milljarðar til 5,4 milljarðar tekjumegin þá eigum við eftir að meta mínusinn þar sem kostnaður hækkar og þar liggur ekkert fyrir eins og var viðurkennt af hæstv. umhvrh. í dag varðandi sveitarfélögin.
    Ég vil nefna líka að að gefnum þessum útreikningum Þjóðhagsstofnunar þá verða önnur áhrif en fram hefur komið í máli hæstv. utanrrh. og þau eru í fyrsta lagi að störfum hér á landi mun fækka. Ársverkum mun fækka um 0,3--0,5% eftir því hvort miðað er við áhrif samningsins eftir fjögur ár eða átta ár. Það þýðir að áhrif samningsins á atvinnulíf hér á landi, þau störf sem eru í boði, verða öfug við það sem hann hélt fram. Þeim mun fækka á bilinu 400--650. EES-samningurinn er svar hæstv. utanrrh. við núverandi atvinnuleysi, svar hans til atvinnulausa fólksins, með EES kemur vinna. En þegar skoðað er svar Þjóðhagsstofnunar þá er svarið að vinnan mun minnka. Þetta var fyrra atriðið sem ekki hefur komið fram í umræðunni en kemur fram í skýrslu Þjóðhagsstofnunar.
    Síðara atriðið, sem hæstv. utanrrh. nefndi í ræðu sinni, endemis óræðu eins og hér var nefnt áðan, er að kaupmáttur launa mun aukast. Það kemur fram í skýrslunni að hann muni aukast um 2--3,1%. En hvað er það mikið upp í þær aðgerðir sem núverandi ríkisstjórn hefur þegar gripið til, gengisfellingin og breytingar á skattalögum? Það nægir ekki upp í helminginn af kjaraskerðingunni. Það á að koma fram eftir átta ár. Eftir átta ár verður batinn ekki meiri en svo að hann nægir ekki fyrir helmingnum af kjaraskerðingunni sem núv. ríkisstjórn ákvað fyrir áramót. Er boðlegt að bera þessi rök fram fyrir fólk og það af hálfu Alþfl.? Ég segi nei.
    Þetta vildi ég nefna, virðulegi forseti, sem mitt fyrra atriði. Síðara atriðið sem ég nefni er innri markaður Evrópubandalagsins og hin blinda markaðshyggja, trú á markaðinn. Hér hefur verið nefnd í umræðunni skýrsla sem gefin var út fyrir nokkrum árum og unnin á vegum Evrópubandalagsins og kennd við Cecchini. Niðurstöður þeirra sérfræðinga sem unnu þá skýrslu voru þær í mjög stuttu máli að innri markaðurinn, markaðsbúskapurinn, mundi leiða af sér að landsframleiðsla ríkjanna mundi aukast, verðlag mundi lækka, að afkoma ríkissjóðanna mundi batna, að viðskiptajöfnuður yrði hagstæðari og í fimmta lagi að atvinnutækifærum mundi fjölga um 1,8 milljónir. Að störfum á Evrópusvæðinu mundi fjölga um 1,8 milljónir í kjölfar innri markaðarins. Það væru áhrif markaðsbúskaparins á atvinnulíf að störfum mundi fjölga um 1,8 milljónir.
    Nú berast fréttir sem gera það að verkum að maður hlýtur að draga þessar spár verulega í efa. OECD gerði nýlega spá um atvinnuleysi á næstunni í þessum löndum og spá OECD er að atvinnuleysi muni aukast úr 15 milljónum í 20 milljónir manns. Um 5 milljónir starfa munu tapast á næstunni þrátt fyrir innri markaðinn. Síðan gerði European, sem er fréttablað í Evrópu, sína eigin könnun og komst að þeirri niðurstöðu að á næstu þremur árum mundi störfum fækka um 8 milljónir eða atvinnulausum mundi fjölga úr 15 upp í 23 milljónir, þrátt fyrir innri markaðinn. Þá hefur atvinnuleysi ekki verið meira og slær öll met síðan 1930 í Evrópu.
    Enn fremur hafa forustumenn í iðnaði og verkalýðshreyfingum erlendis velt þessum málum fyrir sér. Einn talsmaður verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu segir í nýjasta tölublaði The European að útlit sé fyrir það að atvinnuleysi geti farið upp í 34 milljónir manna undir lok þessa áratugar þegar öll jákvæðu áhrifin af innri markaði byggðum á trúnni á markaðsbúskap eru komin fram. Er furða þó maður setji spurningarmerki við þá hagfræðikenningu sem hér hefur verið fylgt alveg skefjalaust undir forustu þessarar ríkisstjórnar og að nokkru leyti lengur.
    Þetta vildi ég að kæmi fram, virðulegi forseti, og enn fremur að menn eru svo svartsýnir í Evrópu að þeir segja sem svo að ef spár um aukið atvinnuleysi nái fram að ganga sé veruleg hætta á efnahagshruni í Evrópu sem er mín þýðing á ensku orðunum ,,economic meltdown``.
    Það virðist því vera mat sérfræðinga í Evrópulöndunum að staðan sé orðin svo veik, efnahagskerfið svo veikt, að það má ekki við neinu án þess í raun og veru að leka niður. Þetta er það sem við erum að fara að taka upp. Þýðir EES eitthvað annað en að við tryggjum okkur hlutdeild í vaxandi atvinnuleysi? Ég spyr. Það er eitt sem blasir við í mínum augum að fengnum þessum upplýsingum og Þjóðhagsstofnunar. Ég sé ekki annað en við séum að stefna á efnahagslegum forsendum inn í aukið atvinnuleysi og takmarka möguleika okkar á því að bregðast við þeim aðstæðum.
    Virðulegi forseti. Ég hef komið á framfæri þeim tveimur atriðum sem mér fannst nokkuð á skorta að kæmu glögglega fram í umræðunni í tilefni ummæla hæstv. utanrrh. Afstaða mín til þessa samnings liggur ljós fyrir. Ég þarf ekki að tíunda hana frekar og ég læt því máli mínu lokið.