Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 19:13:12 (4596)

     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hafði fyrr í dag tekið mig af mælendaskrá til þess að reyna að flýta fyrir þingstörfum en svo lengi má deigt járn brýna að bíti og eftir að hafa hlustað á ýmsa alþýðubandalagsmenn tala í dag þá sá ég að ekki var annað hægt en stíga í stólinn og svara ýmsu af því sem þar hefur komið fram. Kannski ekki síst vegna þeirrar --- hvað eigum við að segja --- þarfar til að stimpla fólk sem hefur birst í ræðum þeirra með því að tala alltaf um hjásetuliðið á þingi. Hér hafa sex einstaklingar lýst því yfir að þeir ætli að sitja hjá en hvort þeir eru sérstakt hjásetulið er önnur saga. Það er kannski rétt að leggja aðeins út af því að það birtist oft í ræðustól Alþingis einhver sérstök þörf ýmist fyrir að stimpla fólk eða einhver --- ég vil kalla það frumstæða þörf til þess að teygja og toga nöfn fólks. Það hefur líka komið fram í ræðustól. Ég held að þetta sé mjög frumstætt fyrirbæri sem hér er á ferðinni. Svo ég lýsi því aðeins fyrir þingmönnum hvað ég á við með þessu kemur það t.d. fram í því að ef menn vilja koma sérstöku höggi á Steingrím J. Sigfússon þá heitir hann allt í einu Steingrímur Jóhann og ráðherra sem heitir Ólafur G. heitir Ólafur Garðar. Nú í máli Hjörleifs Guttormssonar heiti ég, sem hér stend, aldrei Ingibjörg Sólrún sem er þó mitt rétta nafn og það nafn sem ég nota heldur er það þingmaðurinn Ingibjörg Gísladóttir og það er þingmaðurinn Tómas Olrich en ekki þingmaðurinn Tómas Ingi Olrich og það er ráðherrann Jón Hannibalsson. Það er dálítið sérstakt að geta ekki notað nafn manns eins og það kemur fyrir og eins og maður vill að það sé notað og eins og maður er skráður á lista fyrir framan þingmanninn í ræðustól. Mér finnst þetta bera svolítinn keim af því að menn vilji með þessum hætti einhvern veginn koma höggi á persónuna í gegnum nafn hennar því þetta tvennt er auðvitað mjög tengt og verður ekki aðskilið.
    En þetta var útúrdúr sem mér fannst samt tímabært að koma á framfæri.
    Það kom fram í máli Hjörleifs Guttormssonar, reyndar í andsvari, að það mál sem hér væri á ferðinni væri ekki mál einnar ríkisstjórnar og því gætu menn ekki tekið afstöðu í málinu vegna þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr einvörðungu. Það held ég að enginn hafi gert af þeim sem hér hafa lýst því yfir að þeir ætli að sitja hjá heldur hafa verið fjölþættar ástæður færðar fyrir því og að ýmsu leyti mismunandi. En ég er alveg sammála þingmanninum. Þetta er ekki mál einnar ríkisstjórnar. Þetta er meira að segja mál tveggja ríkisstjórna. Það hafa tvær ríkisstjórnir komið að þessu máli og fjórir flokkar og er nær að segja kannski að ýmsir sem nú hafa snúist til andstöðu við málið og geri það að máli þessarar ríkisstjórnar séu að taka afstöðu í málinu á forsendum ríkisstjórnanna, þ.e. forsendunni hver er í ríkisstjórn á hverjum tíma. Það er eiginlega nær að setja málið upp með þeim hætti.
    Þegar menn taka afstöðu í þessu máli á þingi er ekki verið að taka afstöðu til þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Það ætti öllum að vera ljóst því það fólk sem á hér mjög sterka málefnalega samstöðu andspænis þessari ríkisstjórn á ekki endilega sameiginlega afstöðu í þessu tiltekna máli. Þessi misskilningur koma líka fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar í gær að þarna væri ríkisstjórninni að bætast einhver liðsauki. Mér finnst það mjög sérkennilegur málflutningur hjá alþýðubandalagsmönnum að hafa svona óskaplega löngun til þess að reka þessa sexmenninga sem ætla að sitja hjá inn í einhverja ríkisstjórnarrétt og vil ég frábiðja mér þess. Það væri í rauninni mjög óábyrg afstaða ef tekin væri afstaða til málsins einvörðungu á forsendum þess hver situr í ríkisstjórn.
    En ég er sammála þingmanninum um að þetta er ekki mál einnar ríkisstjórnar. Þetta er málefni a.m.k. tveggja ríkisstjórna og fjögurra flokka og Kvennalistinn einn hefur ekki tekið þátt í því að semja um þetta Evrópska efnahagssvæði. Ég færði fyrir því nokkur rök í mínu nál. hvernig þetta mál hefði komið til og mig langar til að tæpa aðeins á því því hér er ekki tími til að ræða það til neinnar hlítar. Það kemur m.a. fram í svokallaðri Óslóaryfirlýsingu frá mars 1989 þegar menn ákváðu að fara inn í þetta samningaferli með svofelldum orðum, með leyfi forseta:
    ,,Við gerum ráð fyrir því að samningaviðræður leiði til fyllsta mögulega samkomulags um óhindraða flutninga á vöru, þjónustu, fjármagni og fólki`` --- þ.e. fjórfrelsið --- ,,með það að markmiði að koma á einu samræmdu Evrópsku efnahagssvæði.`` --- Þetta getur ekki verið ljósara.
    Markmið EFTA-ríkjanna með samningaviðræðunum, og það var strax alveg ljóst á þingi og það veit auðvitað þingmaðurinn Hjörleifur Guttormsson eins vel og ég, var að tryggja aðild þeirra að innri markaði EB þegar hann yrði að veruleika 1. jan. 1993 og grundvöllur viðræðnanna allt frá upphafi voru þær samþykktir Efnahagsbandalagsins sem vörðuðu hið svonefnda fjórfrelsi og mörkuðu rammann um hin innri markað. Allar þessar gerðir sem menn sjá núna sem óalandi og óferjandi og ómögulegt að taka yfir. Þetta var ramminn. Þetta var grundvöllurinn sem samið var á. Að þessu hafa nú komið tvær ríkisstjórnir og menn voru þá að fara inn í þessar viðræður á þeim forsendum að þeir ætluðu að semja um aðild að innri markaði og um fjórfrelsið.
    Mér finnst einmitt að á þessari forsendu geti þeir menn sem vildu reyna að fara þessa leið fyrir tveimur til þremur árum ekki lýst samningnum núna eins og hálfgerðum ragnarökum sem munu yfir okkur dynja ef hann verður að veruleika. Það er ekki trúverðugur málflutningur. Þ.e. ekki ef þeir gengu að málinu og til leiks á sínum tíma með opin augu en ekki eins og blindir kettlingar. Þá geta þeir ekki gert það. Þeir geta verið ósáttir við samningsniðurstöðuna. Þeir geta sagt: Við fengum ekki út úr þessu það sem við vildum. Fiskveiðisamningurinn er vondur, stofnanaþátturinn er ekki nógu góður, tollalækkunin er ekki nógu mikil o.s.frv. En þeir geta ekki komið og dregið eðli samningsins algjörlega í efa, sjálfa forsenduna sem samið var um, fjórfrelsið, innri markaðinn, ef þeir ætluðu á annað borð að gera þennan samning á sínum tíma. Ef þeir voru ekki teymdir nauðugir til þess með einhverjum hætti og það hefur enginn sagt að hann hafi verið teymdur nauðugur til stuðnings við það að farið væri inn í þetta samningaferli. (Gripið fram í.) Það var reynt að fá fram stuðning á þingi og lögð fram sérstök tillaga um að umboð yrði fengið frá Alþingi. Það voru sjálfstæðismenn og kvennalistakonur sem fluttu slíka tillögu en henni var hafnað af stjórnarliðinu, sem var m.a. flokkur hv. þm. sem kallaði hér fram í. Þeir vildu ekki leita eftir umboði og vita hvort það væri vilji á þingi fyrir þessari leið. Það var nú lýðræðishugsjónin a.m.k. þá.
    Ég get alveg tekið undir það að ég finn bæði Evrópska efnahagssvæðinu og EB ótal margt til foráttu. Mér finnst margt af því sem þessu fylgir ekkert fýsilegt. Markaðskerfið, eins og það er, er ekki kerfi eins og ég vildi sjá það. En við getum ekki sagt okkur algjörlega úr lögum hvorki við EES né EB. Það er ýmislegt athugavert við þetta en þarna getum við þó haft áhrif. Þarna munu hlutirnir gerast til góðs og ills líka.
    Ég finn þessu þingi ýmislegt til foráttu. Það er ýmislegt við starfsstíl Alþingis og starfshætti sem mér finnst ekkert fýsilegt og mér finnst ekkert gaman að taka þátt í. Hingað er ég samt komin vegna þess að ég vil hafa áhrif. Ég vil breyta hlutunum og leggja mitt af mörkum og þess vegna er ég hingað komin. Á svipuðum forsendum tel ég að við þurfum að fara þarna og reyna að leggja okkar lóð á vogarskálarnar. Ég veit að þarna er starfandi fullt af fólki sem hugsar á svipuðum nótum og menn sem eru að tala gegn samningnum og hugsar á svipuðum nótum og ég og eru að reyna að hafa áhrif á innihald þessa máls. Þegar ég segi þetta felst ekki í þessu sú nauðhyggja að við verðum að fara þarna. Við getum auðvitað alveg staðið utan við. Við eigum þann kost. Við getum þá bara búið við það sem við höfum. En mér finnst það ekki vænlegur kostur miðað við stöðuna sem uppi er í dag.
    Hér hafa menn verið með áfrýjunarorð varðandi hjásetuliðið sem þeir hafa kallað svo og sagt: Nú er staðan sú að annaðhvort eru menn með eða á móti og það á ekki við að sitja hjá í þessu máli. Þetta kom m.a. fram í máli Guðrúnar Helgadóttur og Margrétar Frímannsdóttur í dag. Ég ætla að biðja þessa þingmenn að líta yfir sinn eigin þingferil og skoða það hvenær þeir sátu hjá í málum. Það er ekki alltaf sama ástæðan fyrir því að menn sitja hjá. Það getur verið margvíslegt efnisinnihald í hjásetu. Það þýðir ekki endilega afstöðuleysi. Allir þeir sem hafa ákveðið að sitja hjá í þessu máli hafa sagt á hvaða forsendum það er. Þeir hafa fært fram ástæður fyrir hjásetu sinni. Menn hafa ekki yppt öxlum og sagt: Æ, ég hef ekki afstöðu. Ég nenni ekki að taka þátt í þessu. Ég nenni að spekúlera í þessu. Þetta fólk hefur lagt mikla vinnu í það að setja sig inn í þetta mál. Ég segi það hvað mig varðar og ég held að það hafi komið alveg skýrt fram að ég er efnislega fylgjandi því að fara þessa leið miðað við þá stöðu sem uppi er núna en ég sé annmarka, bæði á ýmsum formsatriðum og framkvæmd samningsins og hvernig haldið hefur verið á því máli. Mín niðurstaða er sú að rétt sé að þeir ráði úrslitum í þessu máli þar sem saman fer formsafstaða og efnisafstaða. Þeir ráði niðurstöðunni.
    Ég bað menn að líta yfir þingferil sinn. Ég hef áður tekið dæmi af því þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sat hjá þegar bráðabirgðalögin á BHMR voru lögð fyrir Alþingi. Í því fólst einhver afstaða væntanlega en ekki bara afstöðuleysi. Mér dettur ekki í hug að sá þingmaður hafi yppt öxlum og ekki haft neina skoðun á því máli. Hjáseta er auðvitað afstaða. Við getum séð það á töflunni. Menn geta sagt já, nei, eða ekki greitt atkvæði. Það er afstaða. Það er þátttaka í atkvæðagreiðslu. Ég ætla að biðja menn að tala ekki á þessum nótum.
    Ég sagði áðan að þeir sem á sínum tíma vildu fara þessa leið gætu ekki vísað henni algjörlega á bug núna sem óalandi og óferjandi og gætu ekki komið og séð innri markaðnum allt til foráttu. Ég veit vel allt það sem kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Ég veit alveg hvað er að gerast úti í Evrópu. Þetta atvinnuleysi sem er að koma yfir. Að hluta til tengist það auðvitað innri markaðnum og þeim samruna í efnahagskerfinu sem þarna hefur verið, aukinni samkeppni o.s.frv. Það atvinnuleysi sem menn eru að spá á næstu árum er ekki þrátt fyrir innri markaðinn. Það er kannski vegna innri markaðarins. Það vissu menn. Það kom fram í Cecchini-skýrslunni sem hér hefur verið nefnd

að fyrst eftir að innri markaðnum yrði komið á mundu tapast ákveðin störf vegna aukinnar samkeppni. Þessi spá um að störf mundu tapast með aukinni samkeppni á innri markaði lá fyrir þegar menn fóru út í þessar viðræður. Þetta vissu allir.
    Kvennalistakonur hafa tekið afstöðu gegn EES-samningnum og þær hafa heldur ekki lýst því yfir að þær vilji láta semja um aðild að innri markaði eða fjórfrelsi. Það er þó afstaða sem er sjálfri sér samkvæm. Hitt er ekki að vera sjálfum sér samkvæmur. Menn geta ekki, eins og ég hef sagt áður, krafsað hvert sem er eftir rökum.
    Eitt af því sem menn segja þegar þeir eru að krafsa eftir rökum er: Við erum að opna þetta samfélag fyrir 380 milljónum manna, öllu atvinnulausu fólki úti í Evrópu sem hingað mun streyma. Þetta er auðvitað fræðilegur möguleiki en ef við lítum á það sem hefur verið að gerast í Evrópu á síðustu 10 árum er talið að núna séu 2 milljónir íbúa í Evrópubandalaginu í vinnu utan síns heimalands og þá einhvers staðar annars staðar innan Evrópubandalagsins. Þetta eru 2 milljónir manna sem er færra fólk en fyrir 10 árum. Það hefur fækkað í þessum hóp. Fólk er ekki eins hreyfanlegt og menn vilja vera láta því fólk á rætur, það á sér fjölskyldur og heimili. Þetta þekkja menn sem hafa búið úti á landi. Þó það komi atvinnuleysi þá fer fólk ekkert einn, tveir og þrír af staðnum.
    Ég hef í sjálfu sér enga sérstaka löngun til að munnhöggvast við alþýðubandalagsmenn út af þessu máli. Ég lít svo á að við eigum ákveðna samleið í stjórnarandstöðu og það skipti máli með þessa ríkisstjórn sem nú er að eiga þessa samleið. Hins vegar hvarflar ekki að mér að sitja þegjandi ef þeir vilja koma á skoðanaskiptum milli sín og okkar sem ætlum að sitja hjá. Auðvitað er ég meira en fús að taka þátt í því og vil koma minni afstöðu á framfæri, því eins og ég segi er hún algjörlega kinnroðalaus af minni hálfu. En mér finnst menn hafa fært þetta mál inn á dálítið sérkennilegar brautir í þessari umræðu og eins og þeir séu að reyna að reka mann inn í einhverja rétt. Og þá vil ég bara segja þessum ágætu mönnum það að það hefur aldrei gefist vel að berja konur til ásta.