Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 19:27:46 (4597)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er mjög athyglisvert að finna hvernig hv. 10. þm. Reykv., Ingibjörg Gísladóttir, ástundar það að tala við þingflokk Kvennalistans, þær fjórar sem sitja á þingi, í gegnum skammir á Alþb. fyrst og fremst. Hv. þm. hefur tekið upp þessa aðferð eftir því sem liðið hefur á umræðuna. Hún stundaði þetta í umræðunni í gær og hún stundar þetta hér og nú. Þetta er vegna þess að hv. þm. vill koma sér hjá því að ræða þann efniságreining sem liggur fyrir milli hennar og Kvennalistans. Hún hefur risið gegn stefnu síns flokks og tekur allt aðra stefnu. Í stað þess að eiga orðastað við þær sem eru í meiri hluta í þingflokknum og er þingflokkurinn utan hennar notar hún þessa aðferð.
    Hún sagði að þetta væri ekki spurning um ríkisstjórnir og við erum sammála um það efni að öðru leyti en því að það er ekki spurning um hvort þær voru tvær eða þrjár heldur á almennt séð að taka svo stórt mál sem þetta þeim tökum að menn meti það á eigin forsendum óháð því hvernig menn standa í afstöðu til ríkisstjórna.
    Það er ekki rétt sem þingmaðurinn sagði, enda kannski ekki von, líklega ekki kominn til þings þá, að Kvennalistinn og Sjálfstfl. hefðu lagt fram tillögu um einhvern annan grundvöll. ( ISG: Það sagði ég aldrei.) Það var ekki tillaga um samningsumboð. Jú, þingmaðurinn lét að því liggja að það hefði verið, en það er ekki rétt. Það er það sem þingmaðurinn ætlaði að segja að hefði verið gert en Kvennalistinn stóð ekki að slíkri tillögu. Kvennalistinn var ekki andvígur því, eins og ég þekkti málflutning Kvennalistans á þeim árum, að það væri látið reyna á einhverja samninga, enda væru þær forsendur virtar sem lagðar voru fyrir og ítrekaðar m.a. af talsmönnum Kvennalistans.