Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 19:30:38 (4598)

     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er mjög sérkennilega lagt út af mínu máli að líta svo á að ég sé að tala við Kvennalistann gegnum skammir á Alþb. Það hefur bara ekkert með Kvennalistann að gera þó að ég skammi Alþb. og er furðulegt af þingmanninum að tengja þetta tvennt saman. ( HG: Þetta er nákvæmlega það sem þingmaðurinn er að gera.) Ja, það

verður að vera afstaða hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Auðvitað höfum við í Kvennalistanum farið í gegnum heilmiklar umræður um þetta mál og það er alveg feimnislaust af okkar hálfu að hér er ágreiningur, en hann hefur komið margsinnis fram. Hann hefur þegar komið fram hér í umræðum. Það er engin feimni hjá okkur gagnvart þeim hlutum. Við höfum rætt þetta ítarlega í Kvennalistanum. Og það þarf ekkert að fara í neinar grafgötur um þennan ágreining. En þetta er auðvitað gömul og gegn teoría sem þingmaðurinn er með þarna á ferðinni því að ég man ekki betur en það væri alltaf sagt að menn skömmuðu Albaníu ef þeir vildu skamma Kínverjana eða Rússana, ég man ekki hvort heldur það var þannig að hann þekkir sjálfsagt þessa fræðigrein mun betur en ég. En ég hef kannski eitthvað mismælt mig eða orðið fótaskortur á tungunni áðan þegar ég var að tala um umboð. Það sem ég átti við var að Kvennalisti og Sjálfstfl. lögðu á það áherslu að Alþingi tæki formlega afstöðu í málinu áður en lengra væri haldið í þessum samningaviðræðum, að það yrði leitað eftir umboði hér, að þetta yrði lagt með einhverjum hætti fyrir þingið. Það kann vel að vera að mér hafi orðið fótaskortur á tungunni í þessu efni, en það var þetta sem ég var að segja, hv. þm.