Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 19:34:50 (4601)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna þess sem fram kom í máli hv. 10. þm. Reykv. vildi ég gjarnan ítreka þær upplýsingar sem liggja fyrir í skýrslum bæði innlendum og erlendum um þróun atvinnumála í Evrópu og á Íslandi á næstu árum, verði EES að veruleika. Í þessari Cecchini-skýrslu er spáð --- og mörgum þótti hún bjartsýn --- að atvinnutækifærum mundi fjölga um 1,8 millj. (Gripið fram í.) Það getur vel verið rétt, hv. þm. En ég hygg að ég megi segja að innan átta ára eigi þau áhrif að vera komin fram að fullu, þ.e. við lok þessa áratugs.
    Nýlegar upplýsingar sem ég var að rekja í minni ræðu benda til þess að atvinnuleysi muni á næstu þremur árum aukast úr 15 millj. í 23 millj. og að það geti farið svo að atvinnulausir í Evrópu verði orðnir 34 millj. við lok áratugarins. Það gerist þrátt fyrir að fram séu þá komin öll hin jákvæðu áhrif af innri markaðnum. Þess vegna set ég spurningarmerki við hagfræðileið af þessari gerð sem kölluð er markaðsbúskapur og spyr: Erum við á réttri leið með þetta?
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, benda á það sem oftlega hefur komið fram, m.a. hjá þingmönnum Sjálfstfl. áður en þeir komust í ríkisstjórn að aðild að EES er fyrsta og annað skref inn í EB. Það kom m.a. fram hjá ekki ómerkari manni en þeim sem nú gegnir stöðu formanns utanrmn. og manni sem var formaður Sjálfstfl., þannig að ég held að við þurfum ekki að velkjast í neinum vafa um það hvert ferðinni er heitið.