Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 19:37:14 (4602)

     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þetta og ég dreg ekki í efa þessar tölur um atvinnuleysið því að við vitum að staðan er mjög erfið fram undan og ástandið í efnahagsmálum mjög svart. Ég hef sagt það sjálf í ræðustól á hér á Alþingi að það sé ekki aðeins ein skrúfa laus í þessu efnahagskerfi Vesturlanda, hinu kapítalíska efnahagskerfi Vesturlanda, heldur séu mörg tannhjól orðin ansi illa farin. En þá hlýtur maður samt að spyrja sig, og ég vil spyrja þingmanninn að því vegna þess að Alþb. hefur gefið út þá stefnu að það vilji viðskiptaþátt þessa bandalags, það vilji opna og koma á fjórfrelsi, heldur þingmaðurinn að þetta atvinnuleysi mundi ekki fylgja með, ef það er svona smitandi yfir á íslenskt hagkerfi, að það mundi ekki fylgja með ef aðeins væri gerður samningur um viðskiptaþátt hins Evrópska efnahagssvæðis?