Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 19:38:13 (4603)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér er nú eiginlega spurt spurningar sem frekar er á færi hagfræðinga að svara. Mér er ekki kunnugt um að nein úttekt hafi verið gerð á hugsanlegri efnahagsþróun hér innan lands án fjórfrelsisins sem fylgir EES þannig að ég verð bara að viðurkenna að ég hef ekki þekkingu til að meta það af neinni þeirri kunnáttu að mark sé á takandi þó að ég setji fram einhverja skoðun á þessu að svo stöddu. Hitt vil ég taka fram --- og hygg nú að flestum sé ljóst hafi þeir á annað borð fylgst með málflutningi mínum --- að ég hef ekki verið því fylgjandi að taka upp fjórfrelsið eins og það liggur fyrir og hef verulegar efasemdir um þá þróun í efnahagsmálum sem við ætlum að reisa stefnu okkar á næstu árum byggðum á svokölluðum markaðsbúskap sem fylgir fjórfrelsinu og hef allan fyrirvara á stuðningi mínum við þá leið og reyndar er ég fremur andsnúinn því en hitt.