Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 19:39:37 (4604)

     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Því miður var ég ekki viðstaddur þegar 2. umr. málsins fór fram, féll á eigin bragði þar sem ég hafnaði góðu boði Alþingis að fá sprautu við inflúensu og fyrir bragðið féll ég fyrir henni og var því miður fjarstaddur. En ég ætla að nýta mér að fá að segja örfá orð núna. Ég geri mér þó grein fyrir því að það hefur verið gert samkomulag um að ljúka umræðunni og mér skilst að henni hafi átt að ljúka um sjöleytið og því mun ég vera stuttorður.
    Ég vil hefja mál mitt á því að harma það hvernig hæstv. utanrrh. hefur valið orðum sínum stað núna undanfarið og ég vil segja það að ef lengra væri eftir af þessari umræðu, við skulum segja nokkrar vikur, upp í mánuð, þá er ég viss um það að hæstv. utanrrh. hefði haft það af að kolfella málið hér í þinginu. Slíkur hefur málflutningur hans verið að það er ekki viðunandi. Og þó að ég sé stjórnarliði, þá get ég ekki sætt mig við að svona sé komið fram við hvern sem er. Og þegar einn maður veitist hér að einum virtasta stjórnmálamanni þjóðarinnar seinni ára og líkir honum við Hitler, þá er mér gróflega misboðið. Mér er gróflega misboðið. Að líkja hæstv. fyrrv. forsrh. og hv. þm. Steingrími Hermannssyni við Hitler finnst mér fyrir neðan allar hellur. Ég veit að hæstv. utanrrh. hefur margoft misst stór orð út úr sér og hann hefur margoft verið beðinn um það að biðjast afsökunar. Það hvarflar ekki að mér að reyna að fara fram á það að maðurinn biðjist afsökunar á slíkum orðum. Það hvarflar ekki að mér. Hins vegar finnst mér það umhugsunarefni fyrir forsetaembættið að fari það fram hjá forseta, eða sitjandi forseta þá stundina að vítaverð ummæli séu látin fara hér úr ræðustólnum, þá tel ég að embættið eigi að geta endurskoðað málið eftir ábendingar hvort það sé ekki rétt að ávíta fyrir einhver tiltekin ummæli. Ég tel að í þessu tilfelli eigi forsetaembættið að fara yfir þessa ræðu og endurmeta það hvort ekki sé rétt að víta hæstv. utanrrh. ,,Ein Volk, ein Führer``, þetta segja menn ekki nema af mjög ærinni ástæðu og hún er svo sannarlega ekki fyrir hendi hvað þetta varðar. Þetta vildi ég gjarnan láta koma fram hér í upphafi, hæstv. forseti, vegna þess að mér misbauð gróflega. Þó að hér sé um pólitískan andstæðing að ræða, þá er þetta ekki rétt að málum staðið.
    Ég hef ekki eytt tíma þingsins hér, ég hef ekki verið og verð ekki stimplaður einn af málþófsmönnum þó að ég taki ekki undir það að menn hafi hér verið með málþóf. Hér er að sjálfsögðu um gríðarlega stórt mál að ræða þar sem mjög eðlilegt er að nánast allir þingmenn tali. Auðvitað er hverjum og einum frjálst að tjá sig um málið eða ekki, en það er mjög eðlilegt að menn nýti sér rétt sinn til að flytja mál sitt og flytja sín rök. Þannig að ég blæs á allt sem heitir málþóf. Auðvitað hefur einstaka maður kannski verið fulllangorður en það er annað mál.
    Ég studdi hér fyrr á þinginu tillögu um þjóðaratkvæði og er enn þá þeirrar skoðunar. Ég tek undir með hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni að virðulegur forseti lýðveldisins verður settur í afar erfiða stöðu ef Alþingi ætlar að samþykkja það sem hv. þm. hefur kallað, og ég tek undir, slitrur af samkomulagi. Ég tel nánast að forseti geti ekki samþykkt frv. eins og það liggur núna fyrir. Það er ekki þinghæft eins og það liggur fyrir í dag. Slíkir hlutir hafa verið að gerast úti í hinum stóra heimi að málið er sjálffallið og ég skil ekki í jafnskörpum manni og formanni utanrmn. að bera þetta fram vegna þess að ég hef heyrt þann ágæta þingmann gagnrýna önnur frumvörp fyrir að vera ekki þingleg af miklu minni ástæðu en þetta sem er langstærsta mál sem hefur komið fyrir Alþingi Íslendinga á seinni árum. Ég harma því að vinnubrögð skuli ekki vera vandaðri. Ég trúi því enn að það muni fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla en sú þjóðaratkvæðagreiðsla verður að fara fram um það hvort þjóðin sé sammála því að stjórnarskráin sé brotin, ekki um EES, heldur fyrst og fremst um þetta: Er þjóðin sammála því að brjóta stjórnarskrána? Um það hlyti slík þjóðaratkvæðagreiðsla að snúast og ekkert annað því það er alveg kristaltært að samningurinn eins og hann liggur fyrir núna er brot á stjórnarskránni. Meira að segja fjórmenningarnir frægu þora ekki að gefa þessu fullgildingarstimpil. Þeir hafa alla fyrirvara á. Ég skil hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Ég get vel skilið það að menn sitji hjá. Ég beiti því oft og það er afstaða fólgin í því. Og ég tek alveg undir hennar rök sem hún færði fyrir sínu máli hér áðan. En þegar menn koma hér upp, nokkrir þingmenn Framsfl., og segja að það sé vafi og það sé meira að segja verulegur vafi á að samningurinn standist stjórnarskrána, og ætla síðan að sitja hjá, það þykir mér miklu alvarlegra. Að þessir menn sitji hjá, sem hafa skrifað undir eiðstaf að stjórnarskránni. Hvernig geta menn sagt: Það er verulegur vafi á að þetta standist stjórnarskrána, en ég ætla bara að láta það sigla fram hjá? Hvaða virðingu bera svona menn þá fyrir stjórnarskránni yfir höfuð? Vissu þeir hvað þeir voru að gera þegar þeir skrifuðu undir eiðstafinn? Gerðu þeir sér grein fyrir því? Það getur bara ekki verið. Og þetta hlýtur þá að vera alvarleg áminning til Alþingis og forsetaembættisins að það sé kynnt fyrir mönnum þegar þeir koma inn á þing hvað það þýðir að skrifa undir eið. Það þýðir það að menn eiga að virða stjórnarskrána. Og það þýðir að allur vafi á að vera stjórnarskránni í hag. Þannig hef ég túlkað það. Og þeir menn sem sitja hjá af slíkum ástæðum verða að fara í andlega endurhæfingu. Þeir verða að gera það.
    Virðulegur forseti. Í mínum huga eins og ég hef sagt er enginn vafi á því að stjórnarskráin er brotin. Það er ákveðið fullveldisafsal og það er ákveðin skerðing á löggjafarvaldinu. Ég vil spyrja hv. formann utanrmn. sem situr hér í hliðarherbergi: Var leitað álits hjá forsætisnefndinni hvernig störf Alþingis verða í framtíðinni? Var forsætisnefndin kölluð til fundar utanrmn.? Var beðið um skriflegt álit hennar? Eru menn algjörlega klárir á því hvernig Alþingi Íslendinga verður eftir nokkur ár? Ég óska eftir svari við þessu og ég óska eftir því að það verði þá skýrt fyrir mér hvernig sú mynd lítur út. Hvernig bera almennir þingmenn sig að í framtíðinni við það að leggja fram frumvörp? Þurfa þeir að panta langlínusímtal út úr landinu? Hvernig bera þeir sig að? Hver verður gangurinn? Hvert er ferlið? Ég vil fá svör við þessu. Menn segja að þetta sé ekki skerðing á löggjafarvaldinu. Það kemur þá væntanlega í ljós í svörum við þessum spurningum hvort svo er eða ekki. Í mínum huga er enginn vafi á því að svo er. Það er verulega skert. Sama má segja um dómsvaldið og fullveldisafsal eins og ég var að geta um hér áðan.
    Virðulegur forseti. Menn eru að tala um þennan samning sem viðskiptasamning. Það má auðvitað kalla þetta viðskiptasamning að hluta til. En þeir sem eru að bera þetta saman við EFTA-samning vaða í villu. Það var viðskiptasamningur. Þetta er miklu, miklu meira. Ákveðinn hluti af þessu er viðskiptasamningur og ég skil það ósköp vel. En hvernig er sá viðskiptasamningur? Hvernig er t.d. með tollasamningana? Jú, þeir eiga að fella niður tollana fyrir okkur, á okkar vörum erlendis. En hvað gerum við hér í gagnkvæmum samningi? Fellum við þá ekki niður tollana líka? Nei, ekki aldeilis. Við breytum um nafn. Við þurrkum út nafnið tollur og skrifum vörugjald í staðinn og svo notum við þetta tækifæri í leiðinni og setjum örfá atriði inn í. Aðeins að taka ný gjöld. Svona gerum við gagnkvæma samninga.
    Hvað mundu menn segja ef við værum beittir slíkum brögðum, ef nú kæmi allt í einu vörugjald hinum megin frá á okkar vörur? Bölvaðir svikarar, mundum við segja, bölvaðir svikarar. En þetta er bara nákvæmlega taktíkin okkar. Því mega neytendur ekki njóta neins hérna? Af hverjum fellum við ekki tollana niður eins og við lofuðum að gera og leyfum neytendum þá að njóta þess? Af því að það er ríkishítin sem vill alltaf fá sitt og henni er nákvæmlega sama um samningana á annan veginn, það sem snýr að þeim. En út á við verður allt að vera á hreinu.
    Hvað með ytri tollana? Af hverjum fellum við þá ekki niður? Þeir eiga að vera 7,5% eftir því sem mér skilst. Jú, það er til þess að skapa okkur samningsstöðu. Fara menn til Bandaríkjanna með 7,5% toll inn á litla markaðinn Ísland og halda að þeir hafi eitthvað til að semja um? Í hvaða heimi lifa menn? Auðvitað á að fella þetta niður eins og aðra tolla. Hagurinn af þessum samningi metinn til fjár er um 1,5--2 milljarðar. Það er allt og sumt. Aðrar tölur sem menn heyra eru spár, eru vonir og eru óskir og allt með bullandi bjartsýni. Ætla menn að byggja svona loftkastala? Eigum við að byggja íslenskt þjóðfélag á svona loftköstulum?
    Menn segja að það taki 8 ár, ef allt fer á besta veg, þá aukist kaupmátturinn um 3,1% eða eitthvað slíkt. Það tók okkur enga stund fyrir nokkrum vikum síðan að skerða kaupmáttinn um 4--7%. Nú viðurkenna menn það að inni í himnaríkinu EES náum við ekki einu sinni að vinna upp þá skerðingu á 8 árum sem við tókum hér á einu kvöldi, á 8 árum inni í himnaríki þegar allt gengur eins og það getur best gengið, þá náum við ekki nema rétt að slefa yfir 3% kaupmáttaraukningu. Þetta er himnaríkið sem er verið að selja. Þetta er ekki himnaríki. Þetta er eitthvað allt annað.
    Ég vildi gjarnan sjá þann þingmann koma hér upp, ég er ekki einn af þeim, sem getur sagt: Ég þekki þetta mál út í gegn. Ég hef lesið þetta og ég veit hvað felst í 1.400 lagabálkum og þúsundum síðna af reglugerðum. Ég vildi gjarnan fá þann þingmann hér upp

bara til þess að segja okkur að hann viti það. Hann verður ekki spurður út úr, bara að hann komi hér og segi: Ég veit hvað býr í þessu, hvort sem það er ráðherra eða einhver annar. Ég fullyrði að það veit enginn. Það veit enginn þingmaður hvað býr í þessu og samt er ætlast til þess að menn komi hér upp og taki beinharða afstöðu með þessu. Við erum að tala um framtíð þessarar þjóðar. Og menn segja bara: Hér er pakki Þið lítið ekki inn í hann, þið bara samþykkið hann. Ef vel ætti að vera ætti að gefa þinginu u.þ.b. þrjú ár til að fara yfir svona mál. Þá er hægt að segja að vinnubrögð séu eðlileg og þá er hægt að segja að menn viti hvað þeir eru að tala um. Hvaða þingmenn hafa tíma til þess að fara yfir þetta? Menn eru bundnir hér í nefndastörfum meira og minna, hér í salnum og annars staðar. Það hefur enginn þingmaður getað farið almennilega yfir þetta mál, enginn.
    Ég segi það sem fyrrv. heildsali að maður sá stundum athyglisverða vöru. Maður pantaði sýnishorn. Við skulum segja að það væri matvara, konfekt eða eitthvað, fallegur kassi. Þá opnar maður kassann og skoðar innihaldið, fer yfir innihaldslýsingar, fær sér bita. En núna fáum við eitt stykki konfektkassa og við megum ekki opna hann. Við vitum ekki hvort allt er myglað inni í honum eða ekki. Það eru vafalaust einn, tveir eða þrír góðir bitar en ég er mjög smeykur um að það séu margir mjög slæmir sem við ættum ekki að leggja okkur til munns. Þannig lítur þetta mál út núna. Það er settur pakki á borðið og sagt: Nú tökum við séns með íslenskt þjóðfélag. Með eitt stykki íslenskt þjóðfélag tökum við séns. Ég er ekki tilbúinn í þann séns. Það getur vel verið að ef ég fengi þann tíma sem þarf, 2--3 ár, að ég mundi styðja þetta. Það getur vel verið að innihaldð sé gott þegar það er allt komið upp á borðið en ég veit það ekki. Og meðan ég hef ekki heildarmyndina, þá greiði ég ekki svona samningi atkvæði mitt.
    Hver ætli sé þá raunveruleg ástæða fyrir þessum samningi? (Gripið fram í.) Nei, hv. þm. Mér er nákvæmlega sama hvort hæstv. ráðherra er hér eða ekki, nákvæmlega sama. Ástæðan fyrir þessum samningi er fyrst og fremst hugarfóstur krata, Evrópukrata. Það eru þeir sem komu með þessa hugmynd fram. Þetta er þeirra draumur. Þeir vilja leiða okkur inn í eina kratíska Evrópu og það er varla það sem við sjálfstæðismenn viljum, með millifærslukerfinu, með sjóðakerfinu, með bákninu, með kostnaðinum. Eitt stykki kratísk Evrópa, takk fyrir.
    Þegar við erum komnir þangað inn, hvert förum við þá? Beinustu leið inn í EB. Ég tek ofan fyrir hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni sem þó hefur þor til þess að segja sína meiningu. Hann hefur þor til þess. Hann segir: Mín stefna, minn hugur er inn í EB, og ég virði hann fyrir það. Það eiga aðrir að hafa þann kjark að koma hér upp og segja það strax en ekki setja agnið fyrir og láta bíta á og byrja svo að hala inn í EB. Það er kristaltært í mínum huga að það er stefnan eftir að við förum inn í EES, enda verður okkur ekki stætt á öðru.
    Auðvitað hefur svona samningur einhverja kosti, það er öllum ljóst. Það er öllum ljóst að tollalækkun á fiski og sjávarafurðum er verulegur kostur fyrir okkur. En ég vil spyrja: Hvar lendir þessi tollalækkun? Lendir hún hjá neytendunum og mörkuðunum erlendis? Er hún öll til framleiðendanna hér og styrkir hag þeirra, en bætir þá ekki markaðsstöðuna erlendis? Skiptist hún á milli? Og hvað vegur hún þá þungt fyrir íslensku framleiðendurna ef hún skiptist á milli? Hafa menn útfært þetta? Hafa menn skoðað þetta? Eða er þetta ekki bara ein af bólunum sem hafa verið settar upp? Þetta er eitt af sölutrikkunum, Coke and a smile, það er eitthvað svipað. Það eru engar útfærðar hugmyndir. Iðnaðurinn á að blómstra, það á allt að blómstra, en það er enginn sem kemur hérna upp og útfærir hugmyndirnar. Hvernig á iðnaður og annar atvinnuvegur að blómstra við þau rekstrarskilyrði sem eru hér í dag, með þann háa rekstrarkostnað sem er? Snarfellur hann við það að við förum inn í EES? Verður vinnuafl ódýrara á Íslandi af því að við förum inn í EES? Verður varan okkar ódýrari fyrir það? Nei, langt frá því. Það vantar að menn komi hérna upp og útskýri kostina, hendi ekki bara upp einhverjum frösum, fínum frösum, eins og töframenn. Hvernig eiga menn að taka jákvæða afstöðu til svona samnings þar sem ekkert liggur á borðinu? Ein af rökunum fyrir því að ég studdi þjóðaratkvæði voru þau að þá yrðu stjórnvöld knúin til þess að kynna bæði kosti og galla. Það færu fram opnar umræður í þjóðfélaginu sem auðvitað fékkst ekki.
    Við erum að opna hér dyrnar, eins og oft hefur verið sagt, fyrir milljónum manna. EFTA-löndin ein sem telja eitthvað 30--40 millj. eru færri en allt atvinnuleysið í EB-löndunum. Og þó að við fengjum ekki nema 0,5% af þessu fólki hér inn, þá mundi það kaffæra íslenskt þjóðfélag. Auðvitað eigum við sjálf að stjórna því hverjir koma inn í okkar land og hverjir ekki. Og það er enginn rasismi í því. Við eigum bara að hafa tök á því sjálf eins og við höfum haft og þjóðir hafa haft í gegnum tíðina en ekki að opna hér allt upp á gátt. Svo segir hæstv. ráðherra: Það er alltaf hægt að stöðva þetta þegar í óefni er komið. Er ekki of seint að stöðva það þegar í óefni er komið? Hvernig ætla menn þá að vinda ofan af því? Á að biðja Eimskip um að taka farm af fólki og sigla með það burt? Hvernig á að vinda ofan af því?
    Ég óttast að það atvinnuleysi sem núna er í Evrópu og fer vaxandi hér muni vaxa enn meira með tilkomu þessa samnings. Ég óttast það að fólk muni koma, ég er ekki að segja að það komi hér eftir eitt ár, eftir tvö ár eða eftir þrjú ár, en það getur komið eftir tíu ár, þá fer fólk að átta sig á þessu, þegar fer verulega að þrengja að. Við erum ekki alltaf að tala um einhverja eina dagsetningu. Við erum að tala inn í framtíðina.
    Virðulegi forseti. Það er margt um þennan samning að segja. Ég ætlaði mér ekki og ætla ekki að fara efnislega út í hann. Það eru margar hindranir í honum sem hindra jafnt útlendinga sem Íslendinga. Það má t.d. nefna jarðakaupalögin og hvernig þau hindra okkur Íslendinga í að kaupa jarðir í okkar eigin landi bara til þess að halda útlendingum úti. Við verðum ekki lengur frjálsir í okkar eigin landi. Það má tína til alls konar hluti. Hvað felst í öllum reglugerðunum? Hvað felst í öllum stöðlunum? Erum við með það hugarfar að við ætlum hvort sem er ekkert að fara eftir þessu? Við ætlum bara að láta kæra okkur og ætlum að láta hanka okkur hér og þar og eins og ég sagði fyrr, við ætlum bara að taka sénsa. Ég vil nefna t.d. íþróttir. Ætlum við að fara að byggja íþróttamannvirki eftir Evrópustöðlum sem eru staðlar sem við höfum ekkert við að gera, ekki neitt, eru miðaðir við tugþúsundir manna? Við verðum knúnir til þess að fylgja þessum stöðlum. Ætlum við að gera það? Alveg örugglega ekki. Og er þetta á hugarfarið sem er gegnumsneitt í viðhorfi manna sem styðja þennan samning: Tökum bara sénsinn, látum þetta ráðast?
    Og talandi um íþróttir. --- Hér gengur fyrrv. knattspyrnuhetja frá Akureyri fram hjá ræðustólnum. Ég sé ekkert sem kemur í veg fyrir það að hans uppáhaldslið, KA, verði yfirfullt að útlendingum. Það komist enginn Akureyringur lengur í liðið. Að vísu eru þeir mjög góðir knattspyrnumenn en það er sama. Það verður allt opið, það má ekki mismuna mönnum. Í dag höfum við litla reglu sem hleypir bara tveim mönnum inn. Þetta var örlítill útúrdúr.
    Virðulegi forseti. Þegar ég var að ræða hér um þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma, þá óskaði ég eftir því að menn skýrðu fyrir mér hvernig þjóðfélagsmynd þeir sæju innan nokkurra ára ef við færum inn í EES. Hvernig verður íslenskt þjóðfélag? Mér finnst þetta ein af grundvallarspurningunum. Hvað erum við að gera við Ísland? Verður það kannski svo eftir 15--20 ár að menn fara að rifja upp þegar það voru Íslendingar á Íslandi? Verður það þannig? Maður hittir einhvern kunningja sinn og segir: Manstu þegar hér voru Íslendingar? Nú erum við allir Evrópukratar, umkringdir stjörnum. Ég vildi gjarnan fá dregna upp þessa mynd fyrir mér. Hvað erum við að gera Íslandi og íslenskri þjóð? Og ég vil spyrja þá menn sem styðja þetta: Er þetta gjöfin á 50 ára lýðveldishátíðinni? Er þetta gjöfin, fullveldisafsal? Afsal á löggjafarvaldinu, elsta þjóðþingi veraldar? Er þetta gjöfin sem við erum að færa því? Ég er hræddur um að Jón Sigurðsson bylti sér.
    Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem ég hef sagt vona ég að sjálfsögðu að til þjóðaratkvæðagreiðslu komi. Fyrr á þinginu þegar við ræddum þjóðaratkvæðagreiðslu, þá studdi ég hana og taldi að hún ætti að vera ráðgefandi. Nú er það að sjálfsögðu úr myndinni. Sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem yrði að fara fram núna er auðvitað um höfnun eða samþykkt á þessum samningi en hún hlýtur að snúast fyrst og fremst um það hvort íslenska þjóðin sé tilbúin að fótumtroða stjórnarskrána. Hún hlýtur að snúast fyrst og fremst um það og ég vona að við berum gæfu til þess að bera þetta undir þjóðina. Hún á það skilið. Hún

á það ekki skilið að það sé eins, tveggja eða þriggja manna meiri hluti á Alþingi sem kallar óvissuna yfir hana og ég segi óvissuna.
    Hér liggur fyrir núna frávísunartillaga frá hv. þm. Jóni Helgasyni, Ragnari Arnalds og Kristínu Einarsdóttur. Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem ég hef hér sagt í þessari stuttu ræðu minni, þá mun ég greiða þeirri tillögu atkvæði.