Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 20:13:32 (4608)

     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Kannski ég hafi spurt barnalega, en hafi ég spurt barnalega þá var barnalega svarað. Ég er hræddur um að hv. þm. hafi ekki aukið virðingu sína með því svari sem hann flutti áðan.
    Auðvitað fullyrði ég ekkert um það hvort ég samþykki samninginn eftir tvö til þrjú ár eftir að ég hefði farið yfir hann. Ég veit ekki hvað er í honum og þess vegna er ég að biðja um tíma til þess að fara yfir hann. Þessu hélt ég að væri hægt að koma inn í höfuðið á hv. þm. Ég þarf ekki þessi tvö til þrjú ár ef ég veit hvað er í honum og get sagt strax: Ég styð eða styð ekki.
    En þetta er náttúrlega hlutur sem hv. þm. skilur ekki vegna þess að hann er prógrammeraður. Það er áður en samningurinn kemur fram, áður en farið er að dreifa plöggum sem hann vill láta alþjóð skilja að hafi komið fram 1989. Í hvaða heimi býr þingmaðurinn? Það eru ekki einu sinni öll skjöl komin fram í dag. Þau eru ekki enn komin fram öll. Hann er að tala um að menn hafi getað verið að kynna sér samninginn síðan 1989. Ég meina, komdu til mannheima.