Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 20:14:52 (4609)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 5. þm. Reykv. mjög góða ræðu sem sýnir það að þegar slík ræða kemur fram undir lok umræðna hefur málið ekki verið full rætt.
    En ég vil gera eina verulega athugasemd við ræðu hans. Hann fjallaði réttilega um árás hæstv. utanrrh. á formann Framsfl. þar sem hann líkti formanni Framsfl. við Hitler. Það er í sjálfu sér alvarlegur hlutur en ég hygg þó að formaður Framsfl. standi jafnréttur eftir. Þetta er einungis utanrrh. til vansa. Sömuleiðis eru grófar síendurteknar árásir hans á Alþingi honum sjálfum fyrst og fremst til vansa.
    En það alvarlega við ræðu utanrrh. í útvarpsumræðunum, sem hv. 5. þm. Reykv. tók ekki fram, var þegar hann veifaði hér sem staðreyndum því sem hann kallaði varfærnu mati Þjóðhagsstofnunar og fullyrti að hagur Íslendinga á ársgrundvelli mundi batna um 7 milljarða við inngöngu í EES. Þetta hefur rækilega verið hrakið hér þegar menn náðu gögnum og komust að raun um að þetta var bara tilbúningur ráðherrans. Hann hafði ekki stafkrók fyrir því að upphæðin væri þessi og þaðan af síður að þetta væri varfærið mat. Þetta

er búið að gera líklega 20 sinnum úr ræðustólnum síðan ræðan var haldin. En vísvitandi var sagt ósatt til þess að blekkja þjóðina vegna þess að þjóðin horfði á þessa ræðu en ekki nema lítill hluti hennar á hinar.
    Í flestum ríkjum þar sem ég þekki til, annars staðar en hér, þá mundi slík framkoma hjá einum ráðherra verða til þess að forsrh. bæðist lausnar fyrir hann. Mér kemur í hug lítil barnagæla, sem ég vona að herra forseti hafi biðlund og lofi mér að fara með. Hún kemur í hugann í þessu sambandi:
       Lengi hef ég löngun haft
       litla Jóni að trúa
       þó hann opni aldrei kjaft
       öðruvísi en ljúga.