Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 10:39:33 (4617)

     Páll Pétursson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Mér finnst út af fyrir sig eðlileg beiðni þingflokks Alþb. og gæti stutt hana persónulega. Vera má þó að unnt sé að hefja umræðuna en ég vil að það komi alveg skýrt fram að mér finnst ekki koma til greina að ljúka umræðunni fyrr en allir þeir þingmenn, sem hafa hugsað sér að koma og flytja ræðu hér um málið eða taka þátt í umræðu um málið, hafa tækifæri til þess að vera hér í þingsalnum. Annar sjávarútvegsnefndarmaður okkar framsóknarmanna, hv. 4. þm. Norðurl. v., Stefán Guðmundsson, er veðurtepptur fyrir norðan og mér er kunnugt um að hann ætlaði að taka til máls í þessu máli og ég tel að það sé óhjákvæmilegt að ljúka ekki umræðunni fyrr en menn vita með vissu að allir sem vilja tjá sig um málið séu komnir.