Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 11:53:44 (4622)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon gerir því skóna að ég hafi að tilefnislausu dregið inn samninginn við Belga. Það var af því tilefni að í áliti minni hluta utanrmn. segir skýrum stöfum, með leyfi forseta:
    ,,Með þessum samningi, sem hér er til umræðu, er því brotið í blað og fiskiskipum, m.a. togurum Evrópubandalagsins, hleypt á ný inn í íslenska fiskveiðilögsögu til að keppa í veiðum við íslensk fiskiskip úr fiskstofnum sem eru fullnýttir.`` Ástæðan fyrir því, ágæti þingmaður, að ég nefni samninginn við Belga er sú að skip sem tilheyra flota Evrópubandalagsins hafa verið að veiðum hér síðan 1975. Þess vegna er einfaldlega rangt þegar því er haldið fram að hér sé verið að hleypa inn skipum Evrópubandalagsins á ný. Þau eru hér nú þegar. Ekki er hægt að neita þessu. Vegna þess að þingmaðurinn vill gera tiltölulega lítið úr veiðum þessara skipa Belga þá er rétt að það komi fram að þó að þau séu einungis tvö eða þrjú eftir núna þá hafa þau eigi að síður verið að veiða talsvert mikið magn, sér í lagi í samanburði við þann samning sem hér liggur fyrir. Þannig hafa þau árið 1991 veitt 1.728 tonn, þar af 550 tonn af þorski og um 500 tonn af ýsu. Að meðaltali síðustu fimm ár hafa þau veitt 1.628 tonn á ári hér við land. Síðan samningurinn tók gildi hafa þau veitt 2.916 tonn að meðaltali á ári. Það er hættulega nærri því sem við erum að ræða um í samningnum án þess að það skipti miklu máli en ég bendi á það.
    Mér finnst líka merkilegt að hlýða á hv. þm. stjórnarandstöðunnar halda því fram að verið sé að brjóta í blað, að hér séu tímamót vegna þess og þetta séu afskaplega vond tímamót vegna þess að skip Evrópubandalagsins koma í þessum mjög takmarkaða mæli hingað. Ég bendi á að það er margstaðfest að í tíð síðustu ríkisstjórnar áttu sér stað viðræður um gagnkvæmar veiðiheimildir. Þeir flokkar, sem sátu í þeirri ríkisstjórn, hljóta að hafa í grundvallaratriðum ekki verið á móti því ella hefðu þeir vikið úr ríkisstjórninni. En við vitum auðvitað að gagnkvæmar veiðiheimildir fela í sér að mótaðilinn fær að koma inn í lögsöguna til þess að taka sinn skerf af hinum úthlutaða kvóta og þess vegna hlýtur hv. þm. að gera sér grein fyrir því, að þegar hann m.a. lagðist ekki gegn viðræðum um gagnkvæmar veiðiheimildir þá var hann líka að opna fyrir þann möguleika að erlend skip, skip Efnahagsbandalagsins, kynnu að fá leyfi til þess að koma inn í lögsögu okkar og veiða. Hér finnst mér þingmaðurinn vera í hróplegri mótsögn við það sem hann hefur áður staðið að.