Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 12:00:28 (4625)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég skal svara því alveg skýrt. Það skiptir miklu máli hvort um er að ræða fullnýttan stofn sem við Íslendingar nýtum sjálfir og höfum öll afnot af eða hvort um er að ræða vannýttan stofn í þeim skilningi að hann falli undir ákvæði alþjóðahafréttarsáttmálans um vannýtta stofna. Eins og hv. þm. vafalaust þekkir eru ýmis ákvæði í alþjóðahafréttarsáttmálanum sem kveða á um skyldur ríkja til að rannsaka og nýta auðlindirnar og þau ríki sem ekki nýta auðlindir sínar verða að geta verið við því búin að aðrir geri kröfu um að þau komi og nýti þær. (Gripið fram í.) Við erum auðvitað stuðningsmenn alþjóðahafréttarsáttmálans, veit hv. þm. það ekki? Þess vegna er mikill eðlismunur á því hvort um væri að ræða skipti á veiðiheimildum í vannýttan stofn, þá hafði af Íslands hálfu fyrst og fremst verið nefndur kolmunni, vegna þess að Evrópubandalagið gat með vísan í alþjóðarétt gert nokkurt tilkall til veiða á stofnum sem voru vannýttir. Vísað í tilsvarandi paragröf alþjóðahafréttarsáttmálans.
    Svar mitt er því alveg skýrt: Ég geri mikinn greinarmun á því hvort um er að ræða vannýttan eða fullnýttan stofn en ég áskil mér allan rétt til þess að skoða niðurstöðuna í hverju tilviki, líka þó að um sé að ræða vannýtta stofna, hvort einhver samskipti Íslendinga og annarra þjóða væru okkur hagstæð, það fer líka eftir því í hvaða samhengi þau væru. En ég var ekki þeirrar skoðunar að það hafi verið rangt að neita fundum þessara aðila þegar umræðurnar voru af því tagi. Ég taldi ekki ástæðu til að gera það þó að menn hefðu að sjálfsögðu alla fyrirvara á um niðurstöðuna. Ég frábið mér það af því ég sat í ríkisstjórn hverrar sjútvrh. átti einn fund með Evrópubandalaginu á þessum tíma þá beri ég ábyrgð á þessari lágkúru. Ég frábið mér það.