Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:10:03 (4636)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. ætti að spara sér það að líkja öðrum mönnum við Sölva Helgason.
    Varðandi það sem hér hefur komið til umræðu, fundinn 18. apríl í Brussel, þá liggur það fyrir að hv. 7. þm. Reykn. tók það fram á þeim fundi að Íslendingar væru reiðubúnir að ganga til samninga um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum. Nú ætlar hv. 4. þm. Norðurl. e., sem var samgrh. og landbrh. í þeirri ríkisstjórn, að halda því fram að það hafi ekkert verið að marka það sem hv. 7. þm. Reykn. sagði við fulltrúa erlendra þjóða meðan hann gegndi embætti forsrh., að það sem hann hefði sagt á slíkum fundum hafi verið markleysa og enginn þurfi að taka á því mark. Annað fólst ekki í yfirlýsingu eða orðum hv. 4. þm. Norðurl. e. í þessum ræðustól núna rétt áðan. ( SJS: Þú ert að brjóta trúnað um fundargerð ríkisstjórnar, gerðu það þá rétt.)